02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

21. mál, fjárlög 1928

Jónas Jónsson:

Jeg mun byrja á því að mæla með till. hv. 1. þm. G.-K. (BK), enda þótt hann endaði með því að mæla móti minni till. Mjer er persónulega kunnugt um, að ástandið í Kjósinni er alveg ótrúlega slæmt. Stundum þurfa menn að borga 60 kr. til þess að fá lækni, eftir að hafa gengið hálfan dag á milli lækna bæjarins til þess að fá þá. Kjósarbúar eru því verra en læknislausir. Jeg vil sem sagt styðja till. hv. 1. þm. G.-K., um að nefndin taki málið til nýrrar athugunar, sem jeg vona að leiði til þess, að hún falli frá að spara þessar 1000 kr.

Viðvíkjandi 31. lið hv. nefndar vil jeg upplýsa það, að stúdentar hafa treyst á þessa fjárveitingu, og er sennilegt, að þessi lækkun muni hindra það, ef til vill árum saman, að hægt verði að koma upp byggingunni. Það er öllum kunnugt, að stúdentar hjer eiga við erfið kjör að búa eftir sitt langa nám, og væri jafnvel beinn sparnaður að hlaupa nú undir bagga með þeim.

Þá ætla jeg að víkja að háttv. 2. landsk. (IHB) út af húsmæðrafræðslunni. Jeg verð að segja, að það kemur úr hörðustu átt, að þessi fyrsta kona, sem sæti á á Alþingi, skuli vera í þeirri nefnd, sem leggur til svo gífurlegan og ósanngjarnan sparnað í þeim málum, sem snerta mentun kvenna sjerstaklega. Jeg vil fá fyrst benda á Staðarfellsskólann, sem nú er að komast á laggirnar og á við mikla örðugleika að stríða, — að þessi fyrsti og eini fulltrúi kvenna á Alþingi skuli ganga með til þess að klípa af þessari litlu fjárveitingu til skólans, sem honum er nauðsynleg, meðan hann er að koma sjer fyrir á fyrsta ári, þar sem alt vantar, kensluáhöld og margt fleira. (IHB: Það eru til samningar um þennan skólal). Það eru engir samningar um það. Það ættu þá að vera til margfaldir samningar um kvennaskólann hjer, en að honum kem jeg síðar.

Þá kem jeg næst að Blönduósskólanum, sem nú er langstærsti húsmæðraskóli á landinu. Þar er búið að koma upp vandaðri og dýrri rafveitu. Um 40 stúlkur sækja skólann. par er alt í góðu lagi og skólinn ódýr, bæði fyrir nemendur og ríkið. Þó er þessi sami hv. fulltrúi kvenþjóðarinnar með því, að klipið sje af Blönduósskólanum 2000 kr. En jeg vil minna á í þessu sambandi, að það er ekki klipið úr fjárveitingunni til mentaskólans hjer. Við hann er ekkert sparað. Hann er aukinn ár frá ári og nú blásinn svo út, að leigja verður hans vegna kenslustofur úti í bæ.

Þá er klipið af húsmæðraskólanum á Ísafirði 1000 kr. og að lokum klíkt út með því að fella niður 11 þús. kr. fjárveitingu til þess að koma upp húsmæðrakenslu við Laugaskólann.

Með þessu er þá sýnt, að þessi hv. fulltrúi, eini kvenmaðurinn og fyrsti, sem á sæti á Alþingi og þangað er kosin af konum víðsvegar um land, hún lætur sjer sæma að níðast á allri húsmæðrafræðslu í landinu, ýmist með því að fella niður nauðsynlegar fjárveitingar í því skyni eða þá að klípa svo úr þeim, að þær komi að litlu gagni, — nema einni fjárveitingu, er jeg kem að síðar.

Á Laugum eru nú um 60 nemendur, og námskostnaður þar er ekki nema þriðjungur móts við vetrarkostnað í skólum í Reykjavík. Það er því sparað mikið fje fyrir fátæka nemendur með því með því að efla þann skóla og styrkja. Þarna hefir farið fram verkleg kensla, sem mjög hefir verið rómuð. Og nú hefir fyrsta sporið verið stigið þarna til þess að taka þar upp verklega kenslu fyrir kvennemendur og húsmæðraefni. En hv. 2. landsk. (IHB), sjálfur kvennafulltrúinn, leyfir sjer að fótum troða þá viðleitni, sem þarna hefir verið sýnd, með því að neita um nauðsynlegan styrk til þess að efla húsmæðrafræðsluna við Laugaskólann. Það eru til peningar í sjóði, sem áhugasamar konur í Þingeyjarsýslu hafa safnað, og báðar sýslurnar hafa komið sjer saman um að veita fje úr sínum sjóðum gegn því, sem fengist frá ríkinu. En eini kvenfulltrúinn á þingi myndar meiri hl. í hv. fjvn. til þess að fella þetta og eyðileggja þar með, að aukin húsmæðrafræðsla komist á í landinu. Það gætu komið þeir dagar, að þessa yrði hefnt, og að rjettlátt þætti að draga eitthvað úr þeim fjáraustri, sem mokað er árlega til kvennaskólans hjer í Reykjavík. Mætti þá minnast þess, er hv. 2. landsk. notaði aðstöðu sína á Alþingi til þess að fella niður aukna húsmæðrafræðslu. Annars er það hart, þegar við karlmenn erum að vinna að aukinni kvennamentun í landinu, að þá skulum við vera höfuðsetnir af þessum eina fulltrúa kvenna, svo að öll okkar viðleitni til bjargar góðu málefni er eyðilögð. (IHB: O, sei, sei, sei, sei, sei!). Jeg tek þetta fram af því, að höfuðsyndin og ábyrgðin hlýtur að leggjast á hv. 2. landsk., en ekki t. d. á hv. form. fjvn. (JóhJóh), sem vitanlega ber lítið skyn á þessi mál.

Af því að mjer virðist svo, að ekki sje nema sem allra minst leggjandi á hv. frsm. (EJ), eftir þessum ræðustúf að dæma, sem hann flutti í dag, þá vildi jeg skjóta því til hv. 2. landsk. (IHB) að útskýra fyrir háttv. deild, hvers vegna hafi þurft ennþá einu sinni að hækka styrkinn til kvennaskólans í Reykjavík. (IHB: Hann var lækkaður í vetur; þetta er aðeins leiðrjetting). Undarlegt, að slíkt óskabarn hæstv. stjórnar skuli hafa orðið fyrir því, að lækkaður hafi verið styrkur til skóla, er hún veitir forstöðu. Annars vildi jeg aðeins benda á það, að þar sem þessi hv. kvennafulltrúi leggur til, að fært sje að fella niður fjárveitingar til aukinnar kvennamentunar í landinu, þá sje ekki samræmi í því að hækka jafnframt styrkinn til kvennaskólans hjer í Reykjavík.

Þá er það Hvanneyrarskólinn, og verð jeg að segja, að mjer finst undarlegt af hv. fjvn. að leggja til, að feldur verði niður fjárstyrkur til þess að reisa peningshús á Hvanneyri, en ekkert hróflað við styrk til Hólaskólans í sama skyni. Jeg vildi óska, að hæstv. atvrh. (MG) vildi útskýra, hvers vegna meiri ástæða er til að leggjast á annan skólann en hinn, því að óneitanlega verður þetta athæfi hv. meiri hl. fjvn. grunsamlegt, þegar þess er gætt, að sá skólinn, sem á að halda sínum styrk, er svo settur, að þangað sækja fáir, og þarf ekki peningshús sem stendur, en er í kjördæmi hæstv. atvrh. — Jeg vona, að hæstv. ráðh. svari þessu, og að það komi í Ijós, að hjer sje ekki um pólitíska hlutdrægni að ræða.

Um 42. liðinn í brtt. hv. fjvn. vildi jeg segja fáein orð. par er lagt til, að feldur verði niður úr frv. 300 króna styrkur til Gríms Kambans. Verð jeg að segja, að þá sje nú farið að leggjast á flest, úr því að þessi litla upphæð má ekki vera í friði. En vegna þess að jeg býst við, að hv. fjvn. og enda sumum hv. þdm. sje lítið eða ekkert kunnugt um þennan fjelagsskap, þá ætla jeg að skýra svolítið frá honum.

Það stendur svo á um þetta fjelag, að það er stofnað af mönnum úr öll um flokkum hjer í bæ, með það markmið fyrir augum að hjálpa Færeyingum og vinna að andlegu sambandi milli Færeyja og Íslands. Þetta fjelag hefir svo verið nefnt Grímur Kamban, eftir fyrsta landnámsmanni í Færeyjum. Síðan hefir Pétursson, einhver ágætasti Færeyingur, sem nú er uppi, unnið að því að stofna slíkt fjelag í Færeyjum, og mun það eiga að bera nafn Ingólfs Arnarsonar.

Þessar deildir vinna svo saman í bróðerni að málum beggja þjóðanna, ópólitískt með öllu og án þess að blanda sjer inn í þær deilur, sem risið hafa milli Dana og Færeyinga síðustu árin. En hitt getur enginn bannað okkur, að viðurkenna Færeyinga sem frændur okkar, enda er um þá sagt, að þeir sjeu eina þjóðin í heimi, sem líti upp til Íslendinga. Annars er um samstarf þessara deilda það að segja, að komið hefir til mála, að hingað komi færeyskir mentamenn til þess að fræða okkur um land sitt, þjóð og bókmentir, en að við sendum úr hópi okkar mentamanna færa menn á námsskeið Færeyinga til þess að kenna þar íslensku, sem fjöldi eyjaskeggja sækist nú eftir. Af þessu er auðsætt, að hjer er aðeins um andlega samvinnu að ræða milli þessara frændþjóða, og vænti jeg því, að hv. fjvn., eftir þessar upplýsingar, finni ekki ástæðu til að leggjast á jafnsmáa fjárhæð og hjer er um að ræða.

Þá þykir mjer undarlegt af háttv. fjvn. að leggja til, að styrkurinn til Friðfinns Guðjónssonar leikara skuli lækkaður, því að hann er sennilega sá maðurinn, sem langoftast hefir glatt hjörtu Reykvíkinga og annara, sem hjer hafa dvalið og í leikhús komið. Þessi maður er nú farinn að eldast, hefir aldrei farið út yfir pollinn, en langar nú utan til þess að skoða sig um bekki og safna nýjum kröftum. Jeg veit, að margir skoða þennan styrk sem heiðurslaun fyrir vel unnið starf, og vænti, að hv. fjvn. fallist á að taka þessa till. til baka, enda tæplega sæmandi að láta hana koma til atkvæða.

Þá er 62. brtt., um að fella niður styrk til Stokkseyrarhrepps vegna tjóns af eldsvoða í vetur. Um þessa till. verð jeg að segja það, að mjer finst það koma úr hörðustu átt, að hv. form. fjvn. (JóhJóh), sem jafnhliða er dómari og þessu máli sjerstaklega kunnugur, skuli leggja til, að styrkur þessi falli niður. Því eins og kunnugt er var það fyrir ógætilega meðferð á eldi hjá aðkomumönnum hjeðan úr Reykjavík, að svona mikill hluti þorpsins brann, og það í vertíðarbyrjun, en tjónið tilfinnanlegra af því, að margir mistu þar veiðarfæri sín. Enda sá hæstv. stjórn, að hjer þurfti skjótrar hjálpar, og lánaði hún því fje til veiðarfærakaupa, og það er sú upphæð, sem hv. Nd. hefir fallist á, að Stokkseyringum yrði gefin eftir. Mjer þykir því undarlegt, að hv. fjvn. skuli leggjast á þennan styrk, og ekki síður fyrir það, að Stokkseyringar hafa litið svo á, að hæstv. stjórn mundi ekki hafa gert ráð fyrir endurgreiðslu, þegar hún veitti lánið.

Þá verð jeg að segja, að mjer finst furðu gegna, að hv. meiri hl. fjvn., sem eru flokksmenn hæstv. stjórnar, skuli leggja til, að styrkurinn til ekkju Bjarna heitins Jónssonar frá Vogi skuli færður niður, því að hæstv. stjórn mætti þó muna, hvern stuðning Bjarni veitti henni síðustu ár sín. En burtsjeð frá því, að oft var gustur um þennan mann og við oftast á öndverðum meiði, þá tel jeg þó, að hann hafi gripið það inn í sjálfstæðisbaráttu okkar, að þar sje nokkurs að minnast, þó að maðurinn sje fallinn frá. Jeg skal ennfremur nefna eitt, sem ekki hefði komist upp, hefði Bjarna frá Vogi ekki notið við, og það er listasafnshús Einars Jónssonar á Skólavörðuhæðinni. Það fyrsta, sem flestir erlendir og innlendir ferðamenn skoða, er þeir koma hingað til borgarinnar, er þetta hús Einars Jónssonar og þau listaverk, sem það hefir að geyma. Hefði Bjarni frá Vogi ekki barist fyrir því, að húsið yrði reist, hefðu þessi listaverk grotnað niður úti í löndum. Annars verð jeg að álíta, að það sje ekki sæmandi fyrir okkur að skera svo við neglur styrkinn til ekkju Bjarna frá Vogi, að hún sjái ekki sjer og börnum sínum farborða.

Með þessu hefi jeg þá lokið því helsta, er mjer fanst jeg verða að segja um einstakar brtt. hv. fjvn., og mun þá næst snúa mjer að mínum eigin brtt.

Verður þá fyrir mjer III. brtt. á þskj. 472, um 500 kr. styrk til Kristjönu Helgadóttur, Vík í Eyrarsveit. Hv. þm. Snæf. (HSteins) hefir einnig borið fram till. um styrk handa þessari konu, og er sú upphæð 100 kr. lægri. Þarna á fátæk ekkja í hlut, en svo er ástatt, að þangað sækir fjöldi sjómanna í beitifjöru, en þeir lenda oft í hrakningum og teppast þar, og hefir hún þá af góðleik síns hjarta veitt þeim allan þann beina og alla þá hjálp, sem hún hefir getað, og það oftast yfir efni fram. Nú kom til tals í vetur, eftir að kennarinn í Ólafsvík hafði vakið máls á því, að veita þessari konu einhvern styrk í viðurkenningarskyni. Var talað um að leita almennra samskota í sýslunni, eða þá að snúa sjer til Alþingis. Af þessu hefir þó ekki orðið, en jeg frjetti um þetta af tilviljun og fanst málið þess vert, að jeg vildi fyrir mitt leyti reyna að bjarga því. Þess vegna bar jeg fram till. þessa og vænti, að hv. þdm. geti fallist á, að kona þessi fái nú einhvern styrk, og þó að mín till. falli, að þá verði till. hv. þm. Snæf. (HSteins) samþykt.

Við fyrri lið brtt. hv. 5. landsk. (JBald), um fjárveiting til akvegar á Fjarðarheiði, mun jeg bera fram skriflega brtt. til þess að tryggja betur, að það komist sem fyrst í framkvæmd, að byrjað verði á þessari nauðsynlegu vegagerð.

Þá á jeg X. brtt. á sama þskj., og er hún í tveim liðum, en um sama efni, þar sem farið er fram á fjárveitingu til þess að gera steinsteyptar sundlaugar. Er fyrri liðurinn miðaður við styrk til steyptra sundlauga utan Reykjavíkur og stungið upp á, að hann sje mun hærri en verið hefir og alt að helmingur kostnaðar.

Jeg ætla þá að nota tækifærið og fara nokkrum orðum um, hver nauðsyn það er, að löggjafarvaldið styrki þetta mál.

Mjer er kunnugt um, að víða um land er vaknaður mikill áhugi fyrir því að koma upp steyptum sundlaugum, þar sem hverir eða laugar eru nærri, en miðar seint vegna fjárskorts. Það eru vanalega ungmennafjelögin, sem saman standa af efnalitlum unglingum, sem fyrir þessu gangast.

Við Ísafjörð hefir verið komið upp einni slíkri sundlaug, sem styrkt hefir verið, og þykir hún gefast vel og er mikið sótt. Og mjer er kunnugt um, að í Svarfaðardal, Dalasýslu og enda víðar er verið að undirbúa það, að komið verði upp sundlaugum, en vinst hægt vegna þess, að um talsverðan kostnað er að ræða, en hinsvegar lítil geta þeirra, sem nærri því standa.

Í Svarfaðardal er lítil heit uppspretta uppi í fjalli fyrir ofan bæinn Tjörn, og er meiningin að leiða vatnið þaðan og niður að þjóðveginum, og hugsa Svarfdælir sjer að gera þar sundlaug, sem nothæf verði jafnt sumar sem vetur. Svarfaðardalur er mannmörg sveit, mig minnir, að hann telji um 1000 íbúa, svo að gera má ráð fyrir, að sundlaug þeirra verði mikið notuð. En af því, hvernig hagar til og laugin á að verða vönduð, er kostnaður við að byggja hana allmikill. Þó teljast Svarfdælir munu auðveldlega standast hann, ef þeir fá þann styrk, sem nema mundi helmingi kostnaðar.

Í Dalasýslu er ungmennafjelag að vinna að því að byggja yfirbygða sundlaug nálægt Laugum, þessum fræga stað, þar sem Guðrún Ósvífursdóttir bjó, en vantar styrk til þess að fullgera hana.

Um sundhöllina í Reykjavík verð jeg að fara fáeinum orðum. Eftir mjög stuttan tíma verður heitu vatni úr laugunum veitt til bæjarins til þess að hita upp barnaskólann, landsspítalann og stúdentagarðinn. Þegar svo er komið, fellur úr uppi í nýja barnaskólanum nægilega mikið af vatni, sem er ekki nógu heitt til þess að hita hús, en ágætt fyrir sundlaug. Borgarstjóri hefir í samráði við íþróttamenn bæjarins tiltekið ákveðinn stað fyrir væntanlega sundhöll, mjög nærri barnaskólanum tilvonandi, og tilætlunin er að láta heita vatnið frá skólanum streyma í laugina. Húsameistari hefir nú gert uppdrátt að slíkri byggingu, eftir þessum till., og telur hana ekki munu kosta minna en 200 þús. króna.

Það væri mikil sanngirni í því, að ríkið legði fram helming þessa kostnaðar á móti Reykjavík. Þetta mikla mannvirki mundi hafa ákaflega mikla þýðingu fyrir aðra en Reykvíkinga. Skólafólk utan af landi mundi alt nota laugina, sennilega daglega, og fjöldi manna utan af landi mundi koma til þess að læra sund. En þó að maður reiknaði nú ekki með því, þá munu Reykvíkingar líta þannig á, að ekki sje ósanngjarnt, að landið leggi við og við til þeirra gagnlegu framkvæmda, sem koma til nota bæjarbúa aðeins. Jeg býst fastlega við, að vart verði hægt að finna nokkurt mál, þar sem hægt væri með einum 100 þús. krónum úr ríkissjóði að skapa eins mikla blessun hjer í bænum, eins og með því að leggja í þetta þjóðþarfa fyrirtæki. Hjer í bænum eru orðnar yfir 20 þús. manna. Mikill hluti þessa fólks býr í mjög þröngum húsakynnum; mjer er sagt, að bæjarbúa lifi í kjöllurum og íbúðum, sem ættu ekki að vera mannabústaðir. Í þessum ljelegu íbúðum þrífast berklar og allskyns sýklar mætavel; og erfiðleikarnir fyrir fátæka fólkið að ala börnin sín hjer upp eru ótrúlega miklir; ljeleg húsakynni heima fyrir, gatan fyrir leikvöll, fábreytt umhverfi, — þetta er það, sem þúsundir af þeim uppvaxandi lýð í Reykjavík eiga við að búa. Það er áreiðanlegt, að það er ákaflega stórt vandamál fyrir þjóðina alla að vanrækja ekki þennan mikla fjölda af upprennandi borgurum bæjarins.

Gert er ráð fyrir, að þessi sundlaug sje þrískift; ein laugin á að vera grunn, fyrir börn og viðvaninga, þar sem þeim væri kent að synda; þar hjá á að vera önnur stærri laug fyrir íþróttamenn, sem myndu einnig nota hina laugina, þegar viðvaningar væru ekki til hindrunar. Í 3. lagi á að hafa sjólaug, þar sem dælt væri í hreinu, söltu vatni og yljað aðeins, án þess þó að blanda það ósöltu vatni. Þar gætu menn tekið sjóböð allan ársins hring. Það er nú einu sinni svo, að sjóinn hjer við Reykjavík vantar 3–4 stig á sumrin til þess að verða nothæfur til baða fyrir almenning. Það eru aðeins hörðustu íþróttamenn, sem nota hann nú. Aðeins ein leið er til þess að breyta þessu, og hún er einmitt kostnaðarlítil; er hægt að ylja sjóinn svo mikið, að hann verði álíka og við strendur Noregs og Danmerkur 3–4 heitustu mánuði ársins, þá mánuði, sem menn nota hann þar til baða.

Þeim, sem voru fyrir fáum dögum að tala um berklakostnað, — og jeg vildi taka undir með þeim, sem töluðu með sparnaði á þeirri grein, — þeim vildi jeg segja það, að jeg held það mundi borga sig að taka 100 þús. kr. í eitt skifti fyrir öll til sundlaugar í Reykjavík, aðeins vegna berklanna. Er mjög líklegt, að þann árangur mætti af þessu leiða, að berklasjúklingum hjer í bænum fækkaði um svo sem 1/3; og það mundi áreiðanlega verða, þegar sú líkamsmentun, sem þessu fylgir, er farin að hafa áhrif. Og fyrir utan alla þá, sem yrði bjargað frá berklaveiki, mundu fjölmargir njóta betri heilsu og lengri lífdaga fyrir þessar framkvæmdir, sem gæfu Reykjavíkurbúum kost á að synda ýmist í heitu laugarvatni eða volgum sjó allan ársins hring.

Jeg vil taka það enn fram, sem jeg hefi áður sagt hjer í deildinni, að meðan ríka fólkið í Norður-Evrópu streymir á haustin suður til Ítalíu til þess eins að geta baðað sig í hinum hreina, salta sjó Miðjarðarhafsins, þá væri það óneitanlega gaman, ef höfuðstaður Íslands yrði á undan öllum öðrum bæjum í Norður-Evrópu til þess að veita sínum íbúum þessi óvenjulegu þægindi, að geta baðað sig í volgum sjó allan ársins hring.

Jeg vil taka það fram, að menn þurfa ekki að óttast, að bærinn leggi út í þetta fyrirtæki fyr en landsspítalanum og barnaskólanum hefir verið lokið og leiðsla verið gerð frá laugunum. En það mundi vera mikill samúðarvottur frá þinginu til íþróttamanna hjer í bænum, ef þetta yrði samþ.; því að þá vissu þeir, að þeirra áreynsla til þess að hrinda málinu áfram bæri æskilegan árangur, ef ekki stæði á landinu, þegar þar til kæmi, að hin önnur ytri skilyrði væru fengin.

Þá hefi jeg flutt XIII. till. um tvo hljómlistarmenn erlendis. Annar er Axel Guðmundsson, viðurkendur ungur söngmaður á Norðurlandi, er nýtur þar mjög mikils álits og nýtur þess trausts, að vinir hans og vandamenn hafa tekið töluverð lán til þess að standast kostnað af dvöl hans erlendis. Þeir vita, að þeir munu ekki fyrst um sinn fá þetta fje endurborgað, en ætlast þó ekki til, að styrktarfje þetta gangi til þeirra, heldur beint til námskostnaðar í framtíðinni.

Síðari liðurinn er til Hermínu Sigurgeirsdóttur frá Akureyri til þess að stunda nám á hljómlistarskólanum í Kaupmannahöfn, 1000 kr. Jeg vil geta þess, að hún er dóttir Sigurgeirs frá Stóruvöllum, sem lengi var söngkennari á Akureyri og frábær maður í sinni grein. Þessi stúlka byrjaði nám á hljómlistarskólanum í Kaupmannahöfn í haust sem leið; og við inntökuprófið stóð hún sig svo vel, að hún fjekk þegar í stað inntöku, var ein af þeim 8 bestu af 50, sem á skólanum eru. Nú er stúlka þessi efnalítil, og faðir hennar er fátækur, og þess vegna hefir hún leyft sjer að fara fram á þennan litla styrk.

Þessar till., sem jeg hingað til hefi talað um, ganga í útgjaldaáttina. En jeg hefi gert eina till. til sparnaðar, og það er einmitt sú eina, sem mælt hefir verið á móti af öðrum hv. þm. Jeg legg til, að styrkur sá, sem hingað til hefir verið veittur til Jóhannesar Lynge og kallast veittur til vísindalegrar orðabókar, sje feldur niður, en í stað þess verði þessum gamla manni veittur ellistyrkur, sem er tiltölulega hár í samanburði við ellistyrk presta.

Út af mótmælum eins hv. þm. vil jeg taka það fram, að það er algerlega rangt, að það hafi verið samið um orðabókina við þennan mann. Vildi jeg skora á þá, sem halda því fram, að láta leggja samninginn fram. Sjerstaklega vildi jeg spyrja þennan hv. þm., hvort hann byggist við, að þessi samningur mundi vera svo öruggur, að þessum manni mundu verða dæmd launin, ef í mál færi. Ef svo er ekki, þá er þetta ekki samningur, heldur fjárveiting, meðan þingið vill svo vera láta.

Nú hefir ljóslega komið fram af ritlingi, sem þessi maður hefir sent þinginu nýlega, að hann telur sig ekki geta starfað að orðabókinni á þann hátt, sem vera ber. Hann tekur beint fram, að sjer hafi verið meinað af þinginu að vinna eins og hann vildi, með því að láta sig ekki líka hafa skrifstofukostnað. Hann talaði um, að það, sem hann helst vildi orðtaka, geti hann ekki fyrir þessa sök. Ætli þetta hefði ekki verið látið í tje af stjórninni, ef um nokkra nauðsyn var að ræða? Henni hefir þótt nóg að láta hann hafa þennan styrk sem ellistyrk, því að verkið er einskis virði fyrir landið, úr því að ekki er meira til þess varið. Er það sennilega af pólitískum ástæðum, að þessu er haldið við. Fyrir nokkrum árum kom jeg með till. um að fela málfræðideild háskólans að rannsaka, hvað mikið væri búið að gera af þessari orðabók, og gera tillögur um, hvernig þetta ætti að vinna. Till. var feld. Af hverju? Meiri hl. deildarinnar vissi, að ef þessi rannsókn færi fram, myndi koma í ljós, að þetta væri óhæft verk. Annars hefði till. ekki verið feld. En nú býst jeg ekki við, að hægt sje að taka hvern roskinn prest utan af landi og setja hann á þessi laun.

Fyrsti styrkur til orðabókar var veittur Jóni heitnum Ólafssyni rithöfundi sem heiðurslaun á efri árum, fyrir langa þjónustu í stjórnmálum og blaðamensku. Hann gaf út eitt hefti orðabókarinnar. Svo deyr hann. Þá stendur svo á um einn mjög góðan málfræðing, sem áður var kennari við kennaraskólann, að hann var orðinn heilsulítill, og þingið vildi gjarnan gefa honum tækifæri til að vinna innivinnu, og hann fær orðabókarstyrkinn. Síðan deyr þessi maður, sem var eini sjerfræðingurinn, sem að þessu hefir unnið; þá er hjer ungur málfræðingur, sem ekki hefir neitt sjerstakt að gera; honum er þá veittur styrkurinn, og starfaði hann eitt ár eða svo. Þá er það, að einn þingmaður, sem hafði persónulega mikið álit á þessum presti úr Dalasýslu, byrjar að berjast fyrir því, að styrkurinn verði honum veittur, og var svo gert. Klerkurinn var eins og hinir, að hann þurfti atvinnu. Síðan hefir þessi prestur fengið styrkinn árlega. En jeg er þeirrar skoðunar, að þegar þessi maður fellur frá, verði vart farið að gefa út neina Oxfordútgáfu af íslensku máli, eftir handriti Jóhannesar frá Kvennabrekku. Handritasafn hans mun líklega frekar verða lagt við hlið 1. heftis orðabókar Jóns Ólafssonar, sem einn prófessor háskólans kvað í vanta 1000 orð.

Þá kem jeg að stærstu brtt. við 16. gr. Það er nýr liður til nýbýla á áveitusvæðunum á Skeiðum og í Flóa, eftir ráðstöfun stjórnar Búnaðarfjelags Íslands, 100 þús. kr.

Það má vera, að mönnum finnist þetta nokkuð stór liður. En þegar menn athuga, hvernig áður er í pottinn búið á þessum stað, þá held jeg, að menn geti ekki verið svo hissa á þessu. Ríkið er búið að leggja eitthvað um 400 þús. kr. til áveitu á Skeiðin, — því að mest alt er þetta á ábyrgð landsins, og bændur þarna hafa ekki ennþá sjeð sjer fært að borga nema lítið af þessum lánum. Og þeir geta það heldur aldrei, nema með því móti, að fjölgað sje býlum og notað betur landið. Þá koma skuldirnar á fleiri bök. Nú er áveitan búin að standa nokkur ár, en ekki hefir fólki fjölgað á Skeiðum. Eftir stendur af láninu 300 þús. kr., fyrir utan það, sem landið leggur beint fram. Og þessar framkvæmdir hafa ekki haft nein veruleg áhrif á efnahag þeirra, sem þarna búa. Árferði hefir verið svo erfitt, að þeir hafa ekki getað stækkað bú sín. Þó leikur enginn vafi á, að þarna gæti lifað miklu fleira fólk, ef vel væri í haginn búið, því að landið er gott. Mörg hundruð hesta engi verða þarna úti á ári hverju, og svo verður, þangað til býlum er fjölgað; en til þess þarf hjálp. Er það annars nokkur búmenska, að ríkið leggi til fram undir 1/2 miljón í þessa áveitu, án þess að halda áfram að styðja að því, að þarna geti fjölgað fólki, svo að hægt sje að nota áveituna?

Eftir fáa daga verður Flóaáveitan opnuð, og rennur þá upp sú lengi þráða stund, þegar Hvítá flæðir yfir þetta stóra svæði. Til þess verks er ríkið búið að verja mörgum hundruðum þúsunda króna beint og óbeint. En það er enginn vafi, að fyrir Flóann verður áveitan fjárhagslegt drep eins og Skeiðin, ef ekki verður fjölgað heimilum. Þá verður þessi dýra umbót að böli, en ekki blessun, þegar kemur að skuldadögunum, og náttúrugæðin liggja ónotuð.

Það er ekki hægt að koma með ítarleg skilyrði viðvíkjandi þessari fjárveitingu. En einhverjum þarf að trúa fyrir fjenu og þá helst þeim, sem best hefir vit á þessum hlutum; og jeg sá engan aðila þar betri en Búnaðarfjelag Íslands, sem einmitt er sú sjerfræðilega stofnun, sem á að sjá um slík mál.

Jeg vil taka það fram, að jeg tel sjálfsagt að lána þessa upphæð til langs tíma og með mjög góðum kjörum, eftir því sem sjerfræðingar og stjórn Búnaðarfjelagsins álíta heppilegt, til þess að koma upp einum 10–15 nýjum heimilum á þessu svæði. Einhverja tryggingu yrði náttúrlega að heimta, sjerstaklega í mannvirkjum lánþiggjenda.

Það, að jeg bind þessa fjárveitingu við áveitusvæðið, er af því, að þar kreppir skórinn mest að. Það er ekki af því, að það sjeu ekki að sumu leyti meiri skilyrði víða annarsstaðar á landinu, og sjálfsagt er að vinna að heimilafjölgun víðar og víðar; en eins og nú er komið, þá hygg jeg, að ekki sje hægt að finna heppilegri stað fyrir slíka fjárveitingu heldur en að fylgja nú eftir þeim framkvæmdum, sem gerðar hafa verið á þessu svæði, og hefjast handa um heimilafjölgun. Síðar — á næstu árum — býst jeg við, að mjer og öðrum hv. þm. gefist tækifæri til þess að sinna rjettlátum kröfum annarsstaðar af landinu.

Þá vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Snæf. (HSteins), sem fór fram á hækkun til hafnarbóta í Ólafsvík, hvaða skynsamlega ástæðu hann geti gefið fyrir því, að þessi eina hafnarbót á landinu á að vera því, að hjeraðið leggi fram fje á móti ríkisstyrk. Jeg þykist nú vita, að þetta muni vera fyrir erfiðan hag; en þetta er líka nokkuð sjerstætt, og jeg held það sje heldur ekki búið að skýra það fyrir hv. deild, hve stórt þetta mannvirki er. Jeg hefi heyrt, meira að segja frá einum stuðningsmanni hv. þm. þar vestra, að talið væri, að þetta tæki mörg ár, þótt fjeð væri veitt, og jafnvel væri dregið í efa, að garðurinn mundi standa. Með Stykkishólmsveginum hefi jeg greitt atkv.; þar er hægt úr fjarlægð að dæma um, að verið er að vinna þarft verk.

Þá kem jeg að síðustu brtt. minni, að Sigfús frá Eyvindará fái 500 kr. í viðurkenningarskyni fyrir starf sitt. Þetta er einn þeirra manna, sem frægur er orðinn fyrir þjóðsagnir sínar, enda mesti þjóðsagnasafnari, sem nú er uppi hjer á landi. Mjer finst það harla ósanngjarnt við þann mann, sem unnið hefir jafnóeigingjarnt starf mestan hluta æfi sinnar, úr því að honum er það í nokkru launað, að láta hann þá ekki fá meira en 300 kr. Viðbót mín er að vísu lítil, en þó sanngjarnari.

Jeg gleymdi öðrum lið hjá hv. fjvn., sem jeg vildi mæla á móti, þar sem hún leggur til, að mjer finst ranglátan sparnað, þegar ræðir um styrk til læknanna Jóns Kristjánssonar og Magnúsar Pjeturssonar. Jeg trúi því varla, að nefndin hafi athugað það, að ef stjórnin leggur til, að Jón Kristjánsson fái fastan styrk árið 1928, þá er það ósanngjarnt, að hann fái ekkert fyrir þau ár, sem liðin eru.

Mjer er kunnugt um þetta af því, að á vegum mínum hafa verið margir mænuveikissjúklingar utan af landi, sem jeg hefi komið til hans til lækninga. Hann hefir gert mjög mikið fyrir þessa sjúklinga sína, sumum gaf hann allan lækniskostnað, en var mjög ódýr við aðra, og hefir mörgum þeirra batnað algerlega hjá honum. Það er einmitt einn sjúklingur frá þessum lækni, sem hefir vakið athygli mína á, hve ósanngjarnt sje að veita ekki styrk fyrir umliðin ár. Þegar litið er til þess, hve margir fá bata hjá þessum lækni, og þegar þess er gætt, hve mikill kostnaður við lækningar af líku tagi mun verða fyrir landið, þegar landsspítalinn er kominn upp, þá sýnist ekki rjett að fella þennan styrk niður.

Hvað viðvíkur styrk til Magnúsar Pjeturssonar, þá er jeg hræddur um, að nefndin hafi þar fengið rangar upplýsingar. Það, sem sagt er í nefndarálitinu, er ekki rjett, og ætla jeg því áð leiðrjetta það.

Þar segir, að ekki sje langt síðan þessi læknir sigldi til þess að kynna sjer berklavarnir, og þar að auki heyri þær heldur ekki undir hans verkahring. Það er rjett, að það er ekki langt síðan hann fór utan með lækninum á Vífilsstöðum til þess að sitja fund berklalækna, sem halda átti í Svíþjóð. En þegar þeir komu til Kaupmannahafnar, kom atvik fyrir í Svíþjóð, sem varð til þess, að úr þessum fundi varð ekkert. Þetta varð því ekki annað en snögg ferð, og vanst honum enginn tími til þess að kynna sjer berklavarnir á þeim stutta tíma, er hann dvaldi í Kaupmannahöfn. Ef hann fær styrk til þessa nú, er það ætlun hans að kynna sjer nýjustu berklavarnir í Englandi og Þýskalandi og ennfremur sóttvarnir ýmissa landa. Hann er, sem kunnugt er, svo að segja sóttvarnarlæknir alls landsins. Á honum hvílir öll ábyrgðin, og það er því óhjákvæmilegt, að hann geti kynt sjer framfarir í þessum efnum erlendis öðru hvoru. Og þegar svo mikið er í húfi, er ekki rjett að fella þennan styrk niður. Þá er það mestmegnis þessum lækni að þakka, að við höfum gert þær merkilegu ráðstafanir til berklavarna, sem gerðar voru með berklavarnarlögunum 1921.

Hann var framarlega í röð, ef ekki fremstur þeirra manna, sem unnu að því að koma þessum lögum á, og þegar það er athugað, að í skjóli þessara laga er fjölda manns um alt land veitt hjálp til björgunar frá ótímabærum dauða, þá virðist það ósanngjarnt, að þessi maður, sem teljast má faðir berklavarnarlaganna, skuli hindraður frá því að kynna sjer framfarir í þessum efnum erlendis.

Mjer er kunnugt um, að í Þýskalandi magnaðist berklaveikin mjög eftir styrjöldina miklu, við hörmungar þær, sem þýska þjóðin átti þá við að búa. Síðan hafa Þjóðverjar gert yfirgripsmiklar ráðstafanir til þess að verjast hættunni, og jeg tel það víst, að af engri þjóð munum við geta lært jafnmikið og þeim. Enginn læknir hjer á landi hefir haft jafnmikið með berklaveikt fólk að gera og einmitt þessi læknir, að lækninum á Vífilsstöðum einum undanskildum. Jeg vil í þessu sambandi beina einni fyrirspurn til hæstv. heilsumálaráðherra. Mjer hefir verið sagt, að landlæknir hafi mælt með þessum styrk til Magnúsar Pjeturssonar; er það þá að ráðum hæstv. ráðh., að nefndin vill fella þennan lið niður? Jeg spyr hann sem æðsta mann í þessum málum, yfir landlækni, hvort hann vill taka á sig að einhverju leyti ábyrgð á þessum störfum nefndarinnar, eða hvort hann eða nefndin hafi þau gögn í höndunum, sem gera þetta forsvaranlegt. Ef ekkert slíkt kemur frá yfirmanni heilbrigðismálanna, ætla jeg að trúa landlækni, að þessa styrks sje þörf. Hafi nefndin aftur á móti lagt þetta til af ókunnugleika og sennilega í óþökk ráðherra, þá vona jeg, að hæstv. ráðherra gefi þá skýringu, sem nægir til þess að brtt. verði ekki samþ. Mjer skildist á hæstv. ráðh., að við eyddum 700000 kr. árlega í berklavarnir. Það þyrfti þá ekki að spara mikið af þeirri upphæð til þess, að þeir, sem lærðastir eru í þessum efnum, geti kynst því besta, sem völ er á.