03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

21. mál, fjárlög 1928

Jóhann Jósefsson:

Það hefir verið sagt svo margt um fjárlagafrv. og tillögur hv. fjvn., að jeg sje ekki ástæðu til að teygja tímann með almennum hugleiðingum um störf nefndarinnar. Það má sjá á brtt. hennar, að hún hefir gert ítarlegar tilraunir til þess að fá jöfnuð á fjárlagafrv., og þó efalaust sje, að ekki fáist samkomulag um allar þær till., er líklegt um jafnmannmarga nefnd á móts við deildarmenn, að lítið þýði að slást við hana um þær till., sem hún stendur saman um. Jeg hefi því álitið þýðingarlaust að koma með brtt. við till. nefndarinnar um lækkun á framlagi til Vestmannaeyjavegarins, en skal þó benda á, að talsvert öðruvísi stendur á um þessa fjárveitingu en sumar þær upphæðir, sem hv. þm. hafa komið inn í fjárlagafrv. við umr. í hv. Nd. Loforð frá hv. fjvn. var fyrir þessari fjárveitingu frá fyrra ári, og í samræmi við það var hún tekin upp í fjárlagafrv. stjórnarinnar og náði samþykki í hv. Nd., þrátt fyrir illvíga mótspyrnu. Mjer finst hv. fjvn. með tillögum sínum ekki hafa tekið nægilega mikið tillit til þess, að svona stendur á, og ekki heldur til þess, hve mikið viðkomandi hjerað ætlar að leggja fram, samanborið við aðrar tillögur um skilyrðislausa fjárveiting.

Jeg býst nú við, þó að margt megi út á till. nefndarinnar setja, að svipað kynni að hafa farið fyrir öðrum, sem hefðu einsett sjer að ná jöfnuði á tekjum og gjöldum, á pappírnum a. m. k. Þeir hefðu orðið að skera víða niður, og jeg treysti mjer ekki að áfella nefndina fyrir það, þó að hún kysi þá leiðina að höggva nokkuð víða og þá smærra í hverjum stað. Þó eru nokkur atriði, sem jeg vildi minnast á.

Jeg skal fyrst nefna till. nefndarinnar um lækkun á styrk til húsabóta á prestssetrum. Nefndin vill lækka hann úr 35 þús. niður í 24 þús. kr. Samkvæmt nál. hv. fjvn. átti þessi styrkur að ganga til húsabóta á fimm prestssetrum, og þau voru talin þar upp. Fjvn. þessarar hv. deildar lætur nægja að geta þess í nál. sínu, að hún búist við, að hægt sje að fresta húsabótum á tveimur þessum prestssetrum, en hún nefnir ekki, hvaða prestssetur eigi fyrir því að verða. Jeg vildi óska, að hv. frsm. ljeti þess getið í umr., hver þessara prestssetra nefndin hefir fyrirhugað að láta njóta styrks, og hver hún hyggur að fella megi niður að þessu sinni.

Jeg tók eftir því í ræðu hæstv. atvrh. (MG), þegar hann mintist á brtt. nefndarinnar við fjárveitingu til markaðsleitar erlendis, að hann benti á, að nefndin hefði breytt henni frá því, sem var þegar fjárlagafrv. kom hingað, auk þess sem hún hefði lækkað hana. Nefndin hefir lagt til, auk lækkunarinnar, að ekki sjeu höfð sömu fyrirmæli um notkun þessa styrks eins og samþ. voru í hv. Nd. Þar var það orðað svo, að 12 þús. kr. skyldi varið til fisksölutilrauna í Suður-Ameríku, en 10 þús. kr. til síldarsölu í Mið-Evrópu og Finnlandi. Þetta horfir dálítið einkennilega við, þegar athugað er brjef frá hv. sjútvn. Nd., sem getið er um í gerðabók sjútvn. þessarar deildar á þá leið, sem hjer segir: „Ennfremur var lagt fram brjef frá sjútvn. Nd., dags. 30. mars, þar sem nefndin tilkynnir, að hún á fundi sínum 16. mars hafi lagt það til við fjvn. Nd., að alt að 20 þús. krónum Verði veittar í fjárlögum 1928 til markaðsleitar í Suður-Ameríku, og ráði atvinnumálaráðherra styrkveitingunni, enda sje það trygt, að fiskur verði sendur til Suður-Ameríku eftir ráðleggingum styrkþega“. — Sjútvn. þessarar deildar gekk inn á þetta og skrifaði háttv. fjvn. samskonar brjef. Jeg held, að öllum hljóti að vera ljóst, að ef styrkja á markaðsleit í Suður- Ameríku, þá muni ekki veita af 20 þús. kr. til þess. En mjer virtist hæstv. atvrh. byggja það á till. nefndarinnar, að nú lægi það í hans valdi, hvernig þessum styrk yrði varið, og jafnvel, að ekki bæri skylda til að fara eftir hinum upphaflegu till. sjútvn. Jeg skal taka það fram fyrir hönd sjútvn. þessarar deildar, að hún vill eindregið, að farið sje eftir þeim tillögum, sem brjefið getur um, og hún álítur ekki til neins að verja í þessu skyni minna fje en 20 þús. kr. Það var upphaflega talað um að fá hæfan mann til að setjast að þarna um tíma, vera þar og vinna að sölu fiskjar. Hv. sjútvn. Nd. virðist nú vera orðin eitthvað hikandi í þessu máli, en sjútvn. þessarar hv. deildar er alveg sömu skoðunar og áður, og hún leggur áherslu á, að farið sje eftir hinum upphaflegu tillögum beggja þessara nefnda, en stjórninni sje ekki heimilað að ráðstafa fjenu eftir sínu höfði.

Jeg hefi flutt nokkrar brtt. við frv., en verið getur, að jeg taki eitthvað af þeim aftur. Jeg skal minnast fyrst á þær, sem jeg er ráðinn í að láta koma til atkvæða.

Jeg nefni þá fyrst till. um að auka dálítið styrkinn til Páls Þorkelssonar málfræðings. Þessi háaldraði maður nýtur eins og er dálítils styrks úr ríkissjóði, en sótti nú um hærri styrk til þingsins til þess að fullkomna málsháttasafn sitt, en þeirri beiðni var ekki sint. Jeg skal ekki áfella nefndina, þó að hún treysti sjer ekki til að veita þann styrk, sem farið var fram á. En með þeim styrk, sem veittur er, er viðurkent, að maðurinn sje styrks maklegur. Þegar á það er litið, að þessi maður er nú kominn á áttræðisaldur og á enga að, en hinsvegar dýrt að lifa hjer, verður ljóst, að 800 krónur eru honum ónógur styrkur. Jeg hefi því leyft mjer að leggja til, að styrkurinn verði hækkaður upp í 1200 kr. Þó að það sje ekki há upphæð, mundi hún þó koma að meira gagni. Það er kunnugt, að Páll Þorkelsson hefir unnið töluvert að ritstörfum, og þó að hann sje kannske dálítið sjervitur, sem kallað er, þá mun málsháttasafn hans þykja merkilegt á sínum tíma. Hann hefir líka gert okkur sóma út á við, þar sem hann hefir verið sæmdur heiðursmerki fyrir ritstörf sín.

Aðra brtt. á jeg, um að 5000 kr. sjeu veittar handa mönnum, sem þurfa að fá sjer gervilimi. Till. sama efnis var borin fram í háttv. Nd. af hv. 1. þm. N.-M. (HStef), en náði ekki fram að ganga. Eins og kunnugt er, eiga þeir menn oft erfitt uppdráttar, sem verða fyrir því slysi að missa lim, og þó að þeim sje lítil bót að gervilim móts við það að hafa limi sína heila, eru þeir þó miklu betur settir, ef þeir geta aflað sjer þeirrar hjálpar, heldur en ef þeir verða að vera æfilangt eins og slysið hefir við þá skilið. Stundum njóta þessir menn góðvildar náunga sinna og eignast gervilimi með þeirra aðstoð, en þeir munu þó vera fleiri, sem ekki verða fyrir því happi og aldrei fá þá bót meina sinna, sem hjer er hægt að veita. Það væri mjög æskilegt, að til væri einhver hjálparsjóður, sem þessir menn gætu leitað til. Það þykir ef til vill ekki hentugur tími að leita þessarar fjárveitingar nú, en þar sem ekki er farið fram á hærri upphæð, vænti jeg þess, að hv. deild geti fallist á að samþykkja þetta. Það þarf ekki að eyða orðum að því, hvílíkt nauðsynjamál þetta er fyrir hlutaðeigendur, en það er líka óneitanlega nokkurs virði fyrir þjóðfjelagið að gera þessa menn starfhæfa á ný. Þó að jeg tæki það ekki fram við þessa brtt., er vitanlega til þess ætlast, að stjórnin úthluti fjenu og ráði, hvernig umsóknir eru stílaðar. Jeg get getið þess hjer í þessu sambandi, að jeg hefi orðið þess var á undanförnum þingum og áður, að lamaðir menn hafa leitað til fjvn. þingsins um styrki til þess að kaupa sjer gervilimi. Þetta er ofureðlilegt, því að fjöldi þessara manna hefir ekki ástæður til þess að fá sjer þessa gervilimi. Jeg álít því rjettara að veita eina upphæð í fjárlögunum í þessu skyni, sem stjórnin svo úthluti, heldur en að vera að bera fram hvern einstakling á hverju þingi.

Þá hefi jeg tekið upp till. um styrki til tveggja stúdenta, sem stunda nám við erlenda skóla, annar í Stokkhólmi, en hinn í Vínarborg. Hvað pilta þessa snertir vil jeg taka það fram, að jeg þekki þá ekkert persónulega, en jeg hefi kynt mjer umsóknir þeirra, sem liggja fyrir þinginu, ásamt umsögn ýmissa manna um þá, og eftir þeim upplýsingum, sem þar er að fá, dylst mjer ekki, að þeir hafa verið órjetti beittir samanborið við ýmsa aðra, sem styrk hafa fengið. En af því að jeg hefi von um að geta aflað mjer ennþá betri upplýsinga um pilta þessa, að minsta kosti um annan þeirra, þá býst jeg við að taka till. aftur til 3. umr.

Þá hefi jeg borið fram till. um 800 kr. styrk til styrktarsjóðs Sjómannafjelags Vestmannaeyja. Tilgangur þessa sjóðs er sá, að styrkja ellihruma og heilsubilaða sjómannafjelagsmeðlimi, ennfremur ekkjur látinna fjelagsmanna, sömuleiðis þá fjelagsmenn, sem sökum óhjákvæmilegrar fátæktar geta ekki staðið straum af sjer og fjölskyldu sinni. Nú stendur svo á, að Alþingi hefir gefið fordæmi í þessu efni, þar sem það hefir veitt fje til styrktarsjóðs sjómanna hjer í Reykjavík; vænti jeg því fastlega, að þessu fjelagi verði einnig veittur þessi litli styrkur. Lítil viðurkenning örvar þessa þörfu starfsemi að safna fje til sameiginlegrar hjálpar.

Læt jeg svo útrætt um þetta í bili, því að jeg sje ekki ástæðu til að fara að tala um brtt. annara hv. þm.