03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. (Einar Jónsson):

Jeg verð lítilsháttar að minnast á þær ræður, sem hjer hafa verið haldnar síðan í gær.

Mjer hefir nú hálft í hvoru skilist, að framsaga mín hafi þótt ónóg, sökum þess, að jeg hafi verið svo stuttorður. Um það er ekkert að segja, þar um hefir hver sína skoðun.

Eins og vænta mátti var afstaða háttv. deildarmanna mismunandi til fjvn., og skal jeg víkja nokkrum orðum að ræðu hvers eins, í þeirri röð, sem þeir töluðu.

Hæstv. forsrh. (JÞ) flutti nefndinni þakklæti fyrir störf sín. Kann jeg honum bestu þakkir fyrir það, því að hans orð met jeg mikils.

Næstur talaði háttv. 2. þm. S.-M. (IP). Hann var hógvær að vanda, en sagðist þó ekki vera með öllum tillögum nefndarinnar. Um það er jeg heldur ekkert að saka háttv. þm., nefndin hefir aldrei búist við, að allir væru ánægðir með till. hennar. Þegar hann svo fór að finna að störfum nefndarinnar, fann hann mest að því, að lækkuð hafði verið fjárveitingin til Hólmahálsvegarins. Þessu er því til að svara, að fjárveiting þessi var ekki lækkuð meira hlutfallslega en aðrar fjárveitingar til vegagerðar, enda þótt hún væri sett inn í neðri deild, og það í hálfgerðu trássi við vegamálastjóra, og sú fjárveiting hefði því flestum fjárveitingum fremur átt að strikast að öllu leyti út. Finst mjer því mega vel við þetta una.

Þá fann þessi háttv. þm. ástæðu til að mæla með 200 kr. styrk til Guðlaugar Jónsdóttur, ekkju Jóns Stefánssonar síldarmatsmanns. Að sjálfsögðu fann hann till. þessari margt til ágætis frá sínu sjónarmiði, en jeg vil minna hann á, að þær eru margar ekkjurnar, sem erfitt eiga og styrk þyrftu.

Sami hv. þm. sagði, að það væri óviðeigandi að vera að klípa af styrk Fiskifjelagsins, en eins og jeg hefi áður sagt, þá er það gert til þess að koma meira samræmi á milli þess og Búnaðarfjelagsins. Fjvn. gerði það með ráðnum hug að lækka styrkinn, sjerstaklega vegna upplýsinga, sem henni bárust og jeg hirði ekki að geta um að svo stöddu. Og jeg þori að fullyrða, að nefndinni er það talsvert áhugamál, að þessi fjárveiting komist aftur í sama horf og hún var í frv. stjórnarinnar.

Þá kem jeg næst að hv. 5. landsk. (JBald), er sagði margt um brtt. fjvn., bæði hrós og álas, og fanst mjer þó minna bragð að hrósinu. Jeg er ekki viss um, að jeg komist af með stutta ræðu, ef jeg á að fara að rekja ræðu hans, því að hún var löng, eins og oft vill verða hjá hv. þm. (JBald). Hann byrjaði á því, að fjvn. þættist vera að bjarga landinu með till. sínum, en ætti þó ekkert lof fyrir þær. Jeg bjóst nú ekki við, að hann færi að syngja fjvn. neinn lofsöng, — jeg veit annars ekki, hvort hann kann nokkurt lag, — en það er rangt, að fjvn. hafi nokkuð látið falla í þá átt, að hún væri að bjarga landinu. Svo stærilát er hún ekki, en hún bar fram þær breytingar, er hún taldi rjettmætar.

Hv. þm. talaði um ýmsar tilfærslur hjá nefndinni, er ekki kæmu fjárhag ríkisins neitt við, sjerstaklega framlag ríkissjóð til landhelgisvarna og útgjöld samkv. jarðræktarlögum. Þetta má að nokkru leyti til sanns vegar færa, en að öðru leyti ekki. Jeg álít heppilegast, að ársreikningur hvers fyrirtækis sem er, hvort sem það er einstaks manns, fjelags eða ríkissjóðsfyrirtæki, komi út greinilega fyrir hvert ár, en grípi ekki yfir mörg ár. Jeg vil í þessu sambandi minna hv. þm. (JBald) á það, að hvað hár styrkur sem ætlaður væri listamönnum og skáldum, þó hann væri 100 þús. kr., og ætti að skiftast niður á fleiri ár, þá mundi það sannast, að ekki yrði mikið eftir af honum að fyrsta árinu liðnu. Þannig mætti nefna mörg dæmi, t. d. verklegar framkvæmdir. Þó það væri ætlað 10 sinnum meira til þeirra heldur en nota ætti á einu ári, þá færi það alt saman. Og þá yrði landsreikningurinn skrítinn.

Sami hv. þm. mintist á eftirgjöf á Stokkseyrarláninu út af brunanum þar í vetur. Fjvn. hefir nú lagt til, að lánið verði ekki gefið eftir að svo stöddu. En eins og tekið er fram í nál., þá eru líkur til þess, að þessa upphæð verði að gefa eftir innan skamms, en fjvn. vill aðeins ekki gera það að þessu sinni. Jeg færði fram ástæður fyrir þessu í gær, sem sje þær, að lánið er nýtt, ekkert verður enn vitað, hvernig fer um brunamálið, ekkert er að vita, nema þorpið geti greitt vexti og afborganir af láninu. Það þarf ekki nema eina góða vertíð þar til þess, að þorpið þurfi ekki að fá lánið eftirgefið, enda þótt það hafi orðið fyrir miklu tjóni af brunanum.

Brtt. hv. þm. (JBald) á þskj. 472, VI við 13. gr., um akveg yfir Fjarðarheiði, get jeg hleypt fram hjá mjer, því að það, sem hann talaði um hana, var stílað til hæstv. atvrh. (MG).

Nokkuð hið sama má segja um till. um styrk til Daníels Hjálmssonar. Þar mun hæstv. forsrh. (JÞ) verða til andsvara, og er hann maður til þess. En jeg þykist mega fullyrða, að marga hefir hent hið sama og þennan mann. í till. liggur það sem rökstuðning fyrir því, að veita beri þennan styrk, að maðurinn hafi verið sviftur starfi sínu. Það hefir nú komið fyrir æðimarga menn, og ef það ætti að fara að elta þá alla uppi og láta þá fá skaðabætur, þá gæti það orðið mikil upphæð, sem ríkissjóður yrði að greiða.

Þá er till. um styrk til Sigurkarls Stefánssonar. Um hana er hið sama að segja, að maður veit, að það eru ótölulega margir, sem gjarnan vilja fá styrk til náms og þarfnast hans eflaust efnanna vegna, en það er ómögulegt fyrir ríkissjóð að hjálpa þeim öllum, og þess vegna þarf oft og einatt að ganga fram hjá einum og öðrum.

Þá er brtt. um styrk handa Bjargeyju Pálsdóttur til hljómlistarnáms. Jeg skal lýsa yfir því, að þar hafa nefndarmenn óbundin atkvæði. Hjer stendur sjerstaklega á, þar sem faðir hennar á í hlut, því að hann er framúrskarandi duglegur, á mörg börn og hefir komið þeim vel upp og til menta. Og þessi dóttir hans er talin sjerstaklega efnileg.

Þá er enn styrkur til Pálma Hannessonar til rannsókna á eðli og uppruna þúfna og annara yfirborðsmyndana. Þennan mann þekki jeg ekki neitt, en brtt. finst mjer einkennilega orðuð, og jeg get ekki felt mig við hana, og svo mun vera um fleiri hv. þingmenn í fjvn. Hv. flm. (JBald) sagði, að þetta mundi hafa skotist fram hjá þingbændum, en þingbændur í fjvn. hafa athugað erindið og þó ekki getað fallist á það. Þegar við bændur viljum athuga þúfurnar, þá ráðumst við vanalega á þær með plóg og skera, en þurfum engan svona „pálma“ til þess að stikla á þeim fyrir okkur.

Þá kemur nú brtt., sem er ekki svo lítil, að til Byggingarfjelags Reykjavíkur skuli koma 40 þús. kr. sem nýr liður. Á fjelag þetta er minst í nál., en fleira má þó um það segja en þar er gert. Hv. flm. (JBald) hafði mörg orð um það, hvað það mundi hafa mikil áhrif á húsaleigu hjer, ef þessi fjárveiting næði fram að ganga. Það er sjálfsagt, að ef þetta fje yrði veitt, þá gæti fjelagið lækkað eitthvað húsaleigu í sínum húsum. En fyrst hv. flm. er svo viss um, að það mundi hafa áhrif á húsaleigu í bænum yfirleitt, þá ætti hann heldur að snúa sjer til forráðamanna Reykjavíkur með slíka málaleitun en að heimta skatt af fólki uppi um fjöll og úti með sjó í þeim tilgangi. Það gengur líka ósvífni næst að fara fram á þetta, eftir að Reykjavíkurbær hefir sjálfur neitað fjelaginu um styrk og sett á það rannsóknarnefnd út af því, að 130 þús. kr. víxill, sem bæjarsjóður var á fyrir fjelagið, hefir verið afsagður sökum greiðslufalls. Þegar fjelagið hefir þannig komið sjer út úr húsi hjá bæjarfjelaginu, ætlar það sjer að ná peningum úr ríkissjóði.

Jeg hefi þá rakið brtt. hv. 5. landsk. (JBald), og af því að hann fór hóflegum orðum um flest atriði, þá hefi jeg reynt að borga honum í sömu mynt.

Þá kem jeg að styrk handa Kjósarsýslubúum til þess að leita læknis. Hv. 1. þm. G.-K. (BK) sagði, að hjeraðslæknir þar gæti ekki ferðast, — og út frá því er gengið, þar sem fjvn. vill veita styrk til Kjósarbúa til læknisvitjana. Nefndinni var kunnugt um það, að hjeraðslæknir í Hafnarfirði á bágt með að ferðast á hestum, en nú er svo komið, að víða um hjerað hans er hægt að ferðast í bifreið, og bifreið getur áreiðanlega borið lækninn, þótt hann sje stór. Hjer ber líka að athuga það, að litlir styrkir eru veittir mörgum hjeruðum, sem eiga miklu erfiðara um að ná til læknis heldur en Kjósarbúar. Við skulum taka til dæmis Grímseyinga og Hólsfjallabúa. Þeir fá þó ekki eins háan styrk eins og Kjós er hjer ætlaður. Jeg hygg, að fjvn. hallist að því, að atkvgr. verði látin skera úr um það, hvernig þessi styrkur er veittur. En mjer skildist á hv. 1. þm. G.-K. (BK), að hann óskaði þess, að brtt. fjvn. yrði tekin aftur til 3. umr. Út af því skal jeg geta þess, að jeg veit ekki, hvort hv. form. nefndarinnar hefir tekið eftir þessum tilmælum, en fyrir mitt leyti hygg jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að öll nefndin muni vera á því að láta þennan lið koma til atkvgr. nú.

Sami hv. þm. (BK) talaði um styrk til Guðmundar Davíðssonar á Hraunum, til að safna orðum úr alþýðumáli og orðtaka bækur, og sagði, að safn hans yrði eign ríkisins. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja fyrir mitt leyti, hvernig fer um þennan styrk, og nefndin hefir óbundin atkvæði um hann. Hv. þm. var óánægður með styrkinn til Þórbergs Þórðarsonar og vildi, að hann yrði lækkaður, og mun fjvn. honum samþykk í því. Einnig mun hún honum samþykk í því, sem hann sagði um styrk til Jóhannesar L. L. Jóhannssonar, eða ljet á sjer skilja.

Stærsti liðurinn, sem þessi hv. þm. (BK) mintist á, var strandferðirnar. Fjvn. mun samþykk því, er hann sagði um það mál, og hún er samþykk hv. samgmn. í því að lækka styrkinn til flóabáta niður í 100 þús. kr.

Þá kem jeg næst að þeim hv. þingmanni, sem jeg vil ógjarnast eiga orðastað við af öllum þeim, sem eru í þessari hv. deild. Veldur því afstaða okkar beggja, að jeg get ekki talað við hann á sömu sveif og við aðra hv. þdm. Jeg á hjer við hv. 1. landsk. (JJ). En ef hann áreitir mig ekki neitt, þá skal jeg reyna að tala hóglega við hann.

Hann sagði, að það væri þveröfugt við alla skynsemi, að mjer skildist, að skifta tillagi til stúdentagarðsins á 2 ár, og að það yrði til þess að hindra garðsbygginguna. Þar er fjvn. á annari skoðun. Okkur er ekki kunnugt um það, að það eigi að flýta þessari byggingu svo mikið, talið gott, ef hún kæmist upp fyrir 1930. Og þótt ekki sjeu lagðar til hennar meira en 50 þús. 1928, og svo aðrar 50 þús. 1929, ætti hún að geta komist upp fyrir þann tíma. Mjer er óhætt að fullyrða, að fjvn. vill ekki kvika fet frá brtt. sinni.

Þá kom sami hv. þm. (JJ) að húsmæðraskólunum og hafði þar mikla gremju í hug, og fór hann mismunandi vingjarnlegum orðum um ýmsa menn, eins og hans er vandi. Jeg þarf nú ekki að svara honum, því að hv. 2. landsk. (IHB) hefir nú haldið hjer ræðu og skýrt vel, hvað fyrir nefndinni vakti. Þó get jeg ekki látið hjá líða að ávíta þau ómaklegu orð, sem hv. 1. landsk. hafði um hv. 2. landsk. (IHB), þar sem hann sagði, að hv. 2. landsk. ljeti sjer ant um að ráðast á húsmæðraskólana, því að jeg veit ekki annan, sem ber það mál meira fyrir brjósti nje hefir kynt sjer það betur. En mín reynsla í samvinnu við hv. 2. landsk. er sú, að sá hv. þm. lætur ekki neyða sig til neins, en athugar hvert mál gjörla og er í tillögum sínum ekki verri en karlar. Tel jeg mjer því skylt að taka svari þessa hv. þm. (IHB), þar sem á hann er hallað.

Svo kom hv. 1. landsk. að mjer, og mjer datt heldur ekki í hug, að jeg yrði látinn hlutlaus út af hinni svonefndu framsögu minni hjer í gær. Hann sagði, að það væri ekki vert að leggja á mig þunga bagga, og að það hefði skinið mikið skilningsleysi út úr ræðu minni. Jeg var stuttorður með vilja, enda er jeg ekki vanur því að vera með miklar málalengingar, hvorki mánudaga nje aðra daga. Út í hina löngu ræðu hv. þm. er algerlega óþarft að fara mikið, enda lagði jeg ekki á mig að punkta neitt eftir honum. Um till. hans vil jeg segja það, að þó að sumar þeirra væru ekki svo fráleitar að efni, ef peningar væru fyrir hendi, þá sjer hver einasti maður, að það er ómögulegt að samþ. þær nú, og það er því alveg tilgangslaust að flytja þær hjer og halda um þær langar ræður.

Þá kom næstur hv. þm. Snæf. (HSteins). Hann talaði skörulega fyrir till., sem honum er áhugamál um, og jeg skal játa, að eftir að hafa fengið þær upplýsingar, sem hann gaf, liggur mjer nær að styðja hans till. en áður. Hinsvegar geri jeg mig ánægðan með, að deildin geri í því efni það, sem hún telur rjettast. Jeg tel upplýsingar og rök hv. þm. mikilsvirði, og jeg held, að allflestir hv. þdm. hafi verið nærstaddir, þegar hann hjelt sína ræðu.

En hv. þm. (HSteins) mintist á aðra till., sem jeg felli mig miklu ver við, þó að fjárhæðin sje miklu minni. Þeir eru þar í sambandi hv. þm. Snæf. (HSteins) og hv. 1. landsk. (JJ) um konu nokkra vestur í Eyrarsveit. En það eru til svo margar konur, og að jeg hygg í nágrenni hvers einasta þm., sem hafa unnið sjer margt gott og heiðarlegt til ágætis, og jeg efast alls ekki um, að rjett sje skýrt frá um þessa konu. En hjer er um fordæmi að ræða, sem jeg vil ekki skapa og get ekki greitt atkv.

Næstur kom hv. 4. landsk. (MK), og hann hafði nú ekki fyrir mörgum till. að berjast, enda fór hann mjög hóflega í sakirnar, eins og hans er vandi. Hv. þm. lagði þó áherslu á eina brtt. um 1600 kr. styrk til Eggerts símritara Stefánssonar á Akureyri, og gaf svo góðar og glöggar upplýsingar og miklu betri en jeg hefi áður fengið í þessu máli, að ekki verður annað sjeð en að þessi till. eigi við svo góð rök að styðjast, að erfitt sje að ganga á móti þessum styrk.

Háttv. þm. (MK) byrjaði ræðu sína með því að viðurkenna viðleitni fjvn. til að koma jöfnuði á fjárlagafrv., þó að hann væri ekki ánægður með einstök atriði, sem er mjög skiljanlegt í sjálfu sjer. — Mjer sýnist annars deildin vera að tæmast. Það hefir komið fyrir fleiri en mig, en ef svona heldur áfram, sje jeg mjer ekki fært annað en hætta. (Forseti HSteins: Deildarmenn eru á næstu grösum).

Háttv. 4. landsk. (MK) verður að afsaka mig, ef jeg þarf að tala meira um hans till., og vona jeg, að hann minni mig á, ef jeg hefi gleymt einhverju. (MK: Mjer þætti vænt um að heyra um afstöðu nefndarinnar til styrksins til Jóns Kristjánssonar veitingamanns á Akureyri). Já, jeg býst við, að hv. þm. hafi haldið, að hjer ylli ókunnugleiki, en svo er ekki. Það var fordæmi, sem fjvn. ekki vildi gefa. Henni er kunnugt um fleiri svipuð tilfelli og þetta, og er hætt við, að fleiri kæmu á eftir.

Þá talaði hv. þm. um styrkinn til markaðsleita og var fróður í þeim efnum eins og öðrum, sem hann hefir lagt sig eftir að kynnast. En þar sem hv. þm. fullyrti, að á sjerstökum stöðum bæri mest nauðsyn til að vinna að þessu, þá finst mjer, að jeg með sama rjetti geta fullyrt, að á vissum tímum sje ómögulegt að fullyrða neitt um slíkt, hvaða staðir sjeu helst til þessa fallnir. Mjer finst rjettara að fela stjórninni að ráðstafa því fje, sem til þessa er veitt, án þess að hún sje bundin við vissa staði.

Þá kom næstur hv. þm. Eyf. (EÁ) og talaði fyrir einni brtt., um styrk til Freymóðs málara Jóhannssonar, en þar sem hv. þm. er í fjvn. og hefir skýrt þetta mál fyrir henni og einnig deildinni, ætla jeg ekki að tala neitt um þá till.

Næstur var þá hæstv. atvrh. (MG) og talaði hann bæði um till. fjvn. og um till. einstakra hv. þm. Hæstv. ráðherra var óánægður með, að nefndin skyldi ekki hafa viljað aðhyllast kaupin á sýslumannshúsinu á Sauðárkróki, og lýsti því, með hve góðum kjörum ríkissjóður gæti fengið þetta hús, og tók það fram, að innan skamms mundi ríkið verða að eiga sýslumannabústaði um alt land.

Þrátt fyrir þetta býst jeg nú við, að aðrir hv. nefndarmenn sjeu enn jafneindregnir á móti þessu eins og jeg. Meðan við verðum að klípa af öllum nauðsynlegum fjárveitingum, get jeg ekki sjeð, að rjett sje að ganga inn á þessa braut. Það gæti þá svo farið, að ríkið yrði á endanum að leggja öllum embættismönnum til bústaði. — Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri síður ástæða til að leggja sýslumönnum til bústaði heldur en læknum, en hann verður að viðurkenna, að því fleiri sem bætast við, því verra.

Ef þetta ráð verður tekið upp, að leggja öllum embættismönnum til bústaði, er auðsætt, að ekki er nema eitt ráð til, og það er að fækka embættismönnum um helming eða meira. Er hvenær verða ástæður til þess? Jeg er með öllu ósamþykkur hæstv. ráðh. um þetta og álít, að slíkt eigi ekki að gerast, nema á þeim stöðum, sem knýjandi nauðsyn ber til.

Þá talaði næstur háttv. þm. Vestm. (JJós). Hann byrjaði með að lýsa óánægju sinni yfir því, að nefndin hefði lækkað tillagið til Vestmannaeyjavegarins, en hún geroi það í samræmi við lækkun til annara vega í landinu. Hv. þm. vildi binda sig við fjvn. hv. Nd. og sagði, að hún hefði sett þetta inn, og að loforð hefðu verið gefin á fyrri þingum. En hann verður að gæta að því, að fyrir fjvn. vakti að hafa sem rjettust hlutföll milli hinna ýmsu vega. Jeg hygg líka, að hv. þm. Vestm. geti ekki fært nein gild rök fyrir því, að ástæða hafi verið fyrir nefndina til að víkja frá þeirri reglu af þeim ástæðum, að meiri nauðsyn væri á þessum vegi en öðrum. Heldur ekki er það rjett, að sjálfsagt sje fyrir ríkið að veita ríflega til þessa vegar af þeirri ástæðu, að ríkið eigi Vestmannaeyjar.

Þá ljet hv. sami þm. (JJós) í ljós óánægju yfir því, að fjvn. hefði lækkað styrkinn til húsabóta á prestssetrum.

Sami hv. þm. talaði fyrir till. um fjárveitingu til styrktar mönnum, sem þurfa að fá sjer gervilimi. Þegar jeg sá þessa till., greip það mig strax, að hjer væri um mikla nauðsyn að ræða, að styrkja þá menn, sem hafa mist einhvern hluta af líkama sínum. Ef hægt er að gera þessa menn vinnufæra, þá er það augljóst, að hjer er um hina mestu nauðsyn að ræða. En mjer er það ekki fullljóst, hvort þessi styrkur á að ganga til gervilimasmiðs eða mannanna, sem fyrir slysum hafa orðið, og skiftir það mjög miklu máli í mínum augum. (JJós: Orðalag till. skýrir þetta). Já, en það gæti þó hugsast, að styrkurinn gengi til gervilimasmiðs, sem svo ætti að selja limina við vægara verði. En ef svo er, að styrkurinn eigi að ganga til hinna einstöku manna, sem fyrir slysum verða, þá mun jeg verða því fremur hlyntur, að þessi till. verði samþ.

Þá flytur háttv. sami þm. till. um hækkun á styrk til málsháttasafnarans Páls Þorkelssonar. Það er vitanlega ekki um stóra upphæð að ræða, en þó hefði jeg haldið, að jafnlengi og þessi maður er búinn að hafa styrk í fjárlögum, að hann mundi láta sjer þá fjárhæð nægja, sem nú er þar.

Brtt. sína undir lið VIII hefir hv. þm. tekið aftur til 3. umr.

Þá flytur hv. þm. (JJós) að síðustu tillögu um styrk til Sjómannafjelags Vestmannaeyja og sagði hann, að mjög nauðsynlegt væri að styrkja það, og efast jeg ekki um, að svo sje. En það er nú svo um mörg slík fjelög, og þótt áður sje búið að styrkja Sjómannafjelag Reykjavíkur, þá er ekki þar með sagt, að önnur fjelög hafi kröfu til styrks.

Fjvn. getur ekki að svo stöddu mælt með styrk til þessa fjelags, meðan mörg önnur fjelög, sem vita má að eiga sama rjett á styrk, ekki fá neitt.

Jeg skal játa það, að jeg hefi, eins og í gær, farið fljótt yfir sögu, til þess að spara tíma deildarinnar. Jeg býst ekki við, að það, sem jeg hefi sagt, verði af öllum tekið gilt eða fullnægjandi, en jeg verð nú þó að ljúka máli mínu í þetta sinn.