03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

21. mál, fjárlög 1928

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg vona, að hv. deildarmenn skilji, að það er dálítið erfitt að sitja undir annari eins dælu og þeirri, sem hv. 1. landsk. (JJ) hefir nú látið ganga, þegar sama efnið er margþvætt þing eftir þing, ár eftir ár, og tuggið upp í ekki neitt. Þótt jeg ætti að beita öllum mínum sálarkröftum, þá get jeg ekki fengið neina heildarhugsun út úr þessum vaðli hv. 1. landsk. um mig og húsmæðrafræðsluna, er altaf hefir klingt í eyrum mínum, síðan hv. 1. landsk. og jeg komum fyrst á þing. Það er kannske ekki að marka núna, eftir öll þessi ósköp, sem hafa þreytt mig og sljóvgað. Hv. þm. (JJ) gat þess, að ræða sín í gær og nú aftur í dag mundi hafa „örvandi“ áhrif á mig. En það er svo fjarri því, að langlokuhugsanagrautur hans hafi vakið mig til hugsunar og dáða, að hann hefir beinlínis svæft mig, heimskað mig. (JJ: Það er samviskubitið, sem slær háttv. þm.). Það heimskar aldrei. Ef hv. 1. landsk. hefði hugmynd um þá tilfinning, sem heitir samviskubit, þá væri margt öðruvísi en er. (JJ: Jeg þarf þess ekki með). Það er hverjum manni holt að vakna upp af sjálfsánægjudraumum sínum og andvaraleysi, og síst mundi hv. 1. landsk. vanþörf á einhverju slíku leiðarljósi sem samviskan er, svo erfiðlega sem honum gengur að átta sig á rjettu og röngu.

Hv. 1. landsk. staglast á því látlaust, að jeg, „forstöðukona kvennaskólans í Reykjavík, hafi beitt mjer gegn kvenna og húsmæðrafræðslunni í landinu“. Hv. 1. landsk. er skólastjóri eins og jeg, þótt ólíku sje saman að jafna, þar sem annarsvegar er samvinnuskóli, en hinsvegar aðeins kvennaskóli. Munurinn á afstöðu okkar til skólamála er þessi: Jeg vil láta rannsaka og undirbúa og forðast alt skipulagsleysi. Það er sá rauði þráður, sem gengur í gegnum öll mín afskifti af þeim málum. En afstaða hv. 1. landsk. er með öllu samhengislaus. Hann vill flana að verki og setja skóla hingað og þangað, skipulagslaust, hvar sem hann heldur, að það sje einhverjum til geðs og geti haft áhrif á kosningu hans. (JJ: Jeg fæ talsvert af kvennaatkvæðum fyrir það). Það getur vel verið. Þær eru því miður talhlýðnar sumar, en þó ekki allar.

Margt af því, sem hv. 1. landsk. bar fram, er ósvífni og vísvitandi ósannindi. Hann sagði með hátíðlegum blæ og eins sakleysislegum svip og hann getur sett upp, að sjer yrði ekki brugðið um hlutdrægni, hann bæri húsmæðrafræðsluna svo fyrir brjósti, að ekki yrði um vilst. Hann ber hana svo fyrir brjósti, að hann eyðir 2–3 dögum til þess að gera hana að umtalsefni á hverju þingi, að þess megi sjást vottur í þingtíðindum. En jeg er hissa á þeirri fordild og hjegómaskap, sem vill vinna það til að sýnast að láta aftur og aftur koma fram það, sem sagt hefir verið áður og þá hrakið jafnóðum.

Vegna þingsetu eins þm., þ. e. mín, segir háttv. 1. landsk. afstöðu kvenna um þau mál, er lúta að sjermentun þeirra, vera alt aðra en annars mundi. Já, jeg kippi mjer ekki upp við svona ummæli og ætla ekki að eyða orðum að þeim. Umræður um þessi mál á þingi bera það með sjer, hver afstaða mín var, er og mun verða, meðan jeg á sæti á þingi.

Þá bar háttv. 1. landsk. mjer það á brýn, að jeg, sem 1 af 5 í fjvn. hv. deildar, hefði beitt mjer mjög og mest fyrir þessum lækkunum. Jeg veit ekki, hvað hann hefir fyrir sjer um það, en nenni hinsvegar ekki að reka það ofan í hann. Honum virtist ríkjandi sorg í huga út af því, að kvennaskólinn varð ekki að ríkisskóla, eins og frv. ríkisstjórnarinnar 1924 og 1926 fóru fram á. Jeg tek ekki í hverja framrjetta hönd, sem mjer er boðin. Mjer fjellu að vísu úrslitin illa, en jeg hefi ekki haft neinar harmatölur út af þeim og bið engan að gera það fyrir mína hönd.

Ennfremur taldi hv. 1. landsk. sjer til gildis og samherjum sínum, að þeir hefðu orðið við sanngirniskröfum um hækkun á styrk til kvennaskólans. Jeg þakka öllum þeim, sem hafa tekið í það mál með sanngirni, en það eru menn úr öllum flokkum. En hvorki hafa þessar kröfur verið margar nje miklar. Og hækkunin, sem nú er um að ræða eftir till. fjvn., er um 1000 kr. frá því í fyrra, eða 2000 kr. alls nú. Jeg veit ekki, hvort jeg á að tefja hv. þingdeild á því að rekja tildrög þessarar hækkunarbeiðni.

Í sambandi við kvennaskólann starfar hússtjórnardeild. Fyrir henni stendur ágæt kona, svo vel mentuð í sinni grein og dugleg, að ekki getur aðra, er taki henni fram um kunnáttu á þessu sviði. Hún hefir nú gegnt þessu starfi í 4 ár, en býr við smánarlaun eins og raunar allir þeir, sem við kvennaskólann starfa. Mjer er annað betur lagið en að sæta öllum tækifærum, sem gefast, til þess að skara eld að köku stofnunar þeirrar, er jeg starfa við. En sleppum því. Þessi óvenjulega starfhæfa kona ætlaði að fara frá skólanum; ef hún fengi ekki launauppbót, sem svaraði 800 krónum. Skólanefnd kvennaskólans óskaði að geta orðið við þessari kröfu um leið og hún hækkaði forstöðukonulaun mín um 500 kr., og vegna þessa var farið fram á 2000 króna hækkun á rekstrarstyrk til kvennaskólans árið 1928. Jeg hefi þvert á móti reynt að draga úr útgjöldunum, því að það er nú einu sinni svo, að útgjöld, þótt til skólamála sjeu, verða að hafa einhver takmörk. Ennfremur sagði háttv. þm., að jeg hefði gert skólunum á Staðarfelli, Blönduósi og Ísafirði erfiðara fyrir. Hv. þm. má halda þessu fram, en jeg mótmæli því harðlega, enda hefir jafnvel hv. þm. þess kjördæmis, sem Blönduósskólinn er í, ekkert haft að athuga við mínar tillögur viðvíkjandi þeim skóla. Ennfremur sagði hv. þm., að kvennaskólinn væri ekki í neinu kerfi. Um það er það að segja, að skólinn er ekki nema einn, og er því kerfi út af fyrir sig um leið, sem aðrir skólar ganga svo inn í síðar.

Hvað snertir unglingafræðsluna, þá hefi jeg aldrei haft neitt á móti því, að henni væri hagað á hverjum stað eins og best þætti henta, þangað til henni er skapað fast kerfi.

Þá sagði hv. 1. landsk., að skólinn væri ekki í neinu samræmi við strauma. Hvort hann átti þar við tímaritið „Strauma“ eða strauma tímans, um það ætla jeg ekki að deila. En þökk sje þeirri góðu og merku konu, sem, þótt ekki væri hún íslensk, vann að stofnun fyrsta kvennaskólans á Íslandi og opnaði þær leiðir, sem síðan eru opnar íslenskum konum til mentunar og menningar.

Jeg hefi einhverntíma kastað því fram, að jeg hjeldi, að hv. 1. landsk. væri miklu meiri kvenrjettindamaður í eðli sínu en hann ljeti koma fram hjer á Alþingi. Ef dæma má eftir framkomu hans hjer, þá er hans afstaða oftast mjög þröngsýn í þeim efnum. Hv. 1. landsk. tók það fram, þegar hann talaði um kvennaskólann, sem ekki væri í neinu kerfi og úreltur, að það ætti ekki við um hússtjórnardeildina; hún mætti standa. Jæja, það var þó dýrmætt.

Þá sagði hv. þm., að konur ættu ekki rjett á að fá sjerstakan skóla. (JJ: Þetta er ekki rjett haft eftir!). Jú, hv. þm. sagði þetta, jeg skrifaði það upp eftir honum, og jeg er bæði læs og skrifandi.

Hv. þm. fanst það horfa kynlega við, að jeg, sem ætti að hafa vit á þessum málum og reynslu, væri andvíg stofnun húsmæðraskóla án allrar fyrirhyggju og undirbúnings og rannsóknar á staðháttum og öðru slíku.

Jeg ætla að leyfa hv. þm. að halda þessu fram, jeg ann honum heiðursins af því, en sjálf óttast jeg ekki dóm reynslunnar um mínar till. í framtíðinni. — Þá mintist hv. þm. á afskifti okkar af Staðarfellsskólanum, sem hann bar fram á fyrsta þinginu, sem hann sat á, í frumvarps- eða tillöguformi, jeg man ekki, hvort heldur var, enda skiftir það litlu máli. Jeg kom með sömu mótbáru þá og nú, að jeg vildi fyrst þá fylgja því máli, þegar það væri rækilega undirbúið, en ekki flana að því, eins og þegar maður kastar knetti út í loftið og lætur ráðast, hvar hann lendir. Þá mintist hv. þm. á, að þegar hann, hv. 1. landsk. (JJ), og fyrv. 1. landsk. (SE) og jeg hefðum unnið saman í mentmn., þá hefði jeg átt þátt í því, að styrkur til Staðarfellsskólans hefði verið lækkaður. Jeg hjelt nú, að mjer ætti að vera heimilt að skapa mjer skoðun á því, hvað væri hæfilega hár styrkur.

Ennfremur mintist hv. 1. landsk. á afskifti mín af svonefndum bitlingum og kallaði styrkveitingar til fröken Halldóru Bjarnadóttur og Sigurborgar Kristjánsdóttur „bitlinga“. En þar er jeg nú á annari skoðun. Jeg kalla það ekki bitlinga, þó að menn fái einhver laun fyrir unnin störf. En hitt kalla jeg bitlinga, ef menn eru launaðir ár eftir ár fyrir lítil eða engin störf. Þá brá hv. þm. mjer um það, að jeg hefði ekki viljað láta Herdísarsjóðinn ganga til Staðarfellsskólans. Jeg sannaði það bæði með gjafabrjefi Herdísar sál. Benediktsen og öðrum skjölum, að sjóðurinn ætti ekkert skylt við skólann. (JJ: Jón Magnússon sagði það). Nei, jeg veit betur um þetta en hv. 1. landsk., og að jeg hafði þá rjett fyrir mjer, hefir hann ekki afsannað og getur ekki, skjölin sýna það, og þeim verður ekki mótmælt. Jeg hefi reynt að vera á verði bæði þar og annarsstaðar, þegar átt hefir að ráða óundirbúnum málum til lykta með þeim hætti, að menn mundi iðra þess síðar, ef framkvæmt væri.

Þá hefir hv. 1. landsk. haldið því fram, bæði í gær og í dag, að jeg hafi drepið Hallormsstaðarskólann. En er það sama sem að drepa mál, þó að því sje beint í annað og rjettara horf? — Annars var hv. þm. sammála okkur hinum í nefndinni, þó að honum þætti karlmannlegra að koma með sjerstakt nál. Hv. 1. landsk. sagðist hafa verið tilleiðanlegur til að slá af kröfunni til samkomulags. En jeg vissi ekki og veit ekki, hversu langt hann vildi ganga í þessu efni, enda hefi jeg aldrei verið í kaupamensku.

Hv. þm. áleit það vítavert, að jeg hefði ekki notað sjerstöðu mína í þágu þessara mála. Jeg tel ekki þörf á að gera sjerstaka grein fyrir því. Þekking og reynsla eru ólýgnustu vottarnir, og til þeirra vísa jeg. Og hafi hv. 1. landsk. nokkra þekkingu á skólamálum, þá er ekki til of mikils mælst, að hann taki hlutina til dálítið rækilegri athugunar áður en hann ályktar heldur en hann hefir gert, þegar við höfum unnið saman í mentmn. þessarar hv. deildar.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að jeg hefði ráðið till. um að fela stjórninni að undirbúa húsmæðraskólana, og að það væri gert til þess að draga úr, að nokkuð yrði gert. Þetta eru fallegar getsakir! En ef hv. þm. kann íslensku, sem jeg efast ekki um, þá ætti hann að geta skilið, hvað felst í orðunum „svo fljótt sem verða má“. Hvað snertir það, að hæstv. stjórn hafi ekki þekkingu á þessum málum, þá hefi jeg drepið á þetta atriði áður og bent á það, að til þess er ekki hægt að ætlast, jafnvel þótt hæstv. stjórn væri miklu fjölmennari en okkar stjórn er, að hún hafi þá sjerþekkingu, sem þarf til þess að undirbúa slík mál. Nei, til þess er ekki hægt að ætlast. Hæstv. stjórn þarf í þessum efnum og ef til vill fleirum að leita ráða annara, stundum ef til vill hjá hv. 1. landsk. (JJ), og stundum ef til vill hjá mjer. — Hv. þm. benti á það, að þess væri ekki að vænta, að menn hjer í bæ hefðu kunnugleika til þess að leggja annað eða betra til málanna en menn heima í hjeraði. Jeg verð nú að gera ráð fyrir því, að þekkingin sje ekki alveg staðbundin, og svo hinu, að betur sjá augu en auga, en augað er vanalega aðeins eitt hjá þeim mönnum, sem eru öfgakendir, og þeir sjá málin aðeins frá einu sjónarmiði.

Það, sem hv. þm. mintist á geðshræringu, kemur ekki mjög við mig. Jeg vona, að hv. þdm. sjái, að hún er mjer ekki til mikilla örðugleika. Hún er aðeins þægileg vaka eftir svefninn undir ræðu hv. 1. landsk. (JJ: Það er gott að iðrast).

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði verið þyngsta lóðið, þyngsta blýlóðið, til niðurdreps kvennaskólamálunum, og átti þetta víst að vera fyndni. Hann sagði, að þröngsýni mín væri alkunn, að framkoma mín hefði vakið undrun um alt land o. s. frv. (JJ: Það væri ástæða til). Og þegar stjórnin árið 1924 lagði fram stjfrv. um að gera kvennaskólann í Reykjavík að ríkisskóla, átti jeg að hafa hamast á móti því, að Blönduósskólinn nyti sama rjettar, en í fyrra átti jeg að hafa verið orðin snúin. En jeg hefi altaf óskað þess, að báðum þessum skólum væri gert jafnhátt undir höfði, og að þeir nytu þess rjettar, sem þeir ættu kröfu til. — Jeg er nú aðeins að sýna lit á því, að jeg hafi haft vilja á því að taka eftir því, sem hv. þm. hefir sagt, en órökstutt var það alt, og jeg vísa því öllu til föðurhúsanna aftur sem órökstuddum sleggjudómum, sprottnum af ekki góðu innræti og sögðum móti betri vitund. Jeg hefi sýnt sjálfbjargarviðleitni í þessum málum, sem öllum skepnum er meðsköpuð, bæði hv. 1. landsk. og mjer.

Mjer þykir leitt að verða að tefja tíma deildarinnar svo mjög, en það verður ekki hjá því komist. Það er erfitt að svara ræðu, sem snýst um alt og ekkert, en jeg má ekki setjast niður án þess að minnast á Akureyrarskólann. Jeg hefi minst á þetta áður og ætla að tala sem styst um það nú. Jeg vil leyfa mjer að benda á, ef ske kynni að hv. 1. landsk. vildi skilja rjett, því að það getur hann ef til vill, að þó að jeg hafi nú fyrst hjer á þessu þingi sjeð ástæðu til að skifta mjer af heimildarlögunum frá 1917 um stofnun húsmæðraskóla í Eyjafirði, þá er það ekkert nýtt, sem því veldur. Jeg sagði það einu sinni við Sigurð heitinn Jónsson fyrv. ráðherra, sem var hræddur um, að jeg mundi verða á móti þessum skóla, að jeg mundi, þegar sá tími kæmi, sýna það í verkinu, að jeg vildi þeim skóla vel. Við þetta stend jeg og ætla að standa, þangað til málinu er lokið samkvæmt lögum.

Allar getsakir hv. 1. landsk. í garð kvenna í Eyjafirði og sömuleiðis í garð hv. þm. Ak. (BL) eru líka gersamlega rakalausar og óverðskuldaðar. Eyfirskar konur hafa nú handbært fje, sem þær hafa safnað löngu áður en þingeyskar konur komu fram með ósk um hússtjórnardeild við Laugaskólann. Fje þessu hafa þær safnað jafnframt því, að þær hafa lagt sinn mikla skerf til heilsuhælisins í Kristnesi. Jeg vil að lokum nota tækifærið til þess að slá því föstu, að hv. 1. landsk. hafi í þetta sinn talað móti betri vitund. Það, að konur í Eyjafirði hafa nú komið fram með kröfu um, að 10 ára gömul loforð við þær væru efnd, er ekki annað en eðlileg sjálfbjargarviðleitni til þess, að rjettur þeirra yrði ekki fyrir borð borinn frekar en annara. Jeg held, að það sje svo ekki meira, sem jeg þarf að svara að þessu sinni, og læt því staðar numið.