03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

21. mál, fjárlög 1928

Jóhann Jósefsson:

Hv. frsm. (EJ) mintist á brtt. mína um 5000 króna fjárveitingu handa mönnum, sem þurfa að fá sjer gervilimi. Mjer virtist hann taka heldur hlýlega í þessa brtt., en af því að hann hafði ekki skilið mig alveg rjett og virtist ætla, að þetta fje ætti að ganga til þess manns, sem hefir á hendi umbúðasmíði, þá vildi jeg gefa þær upplýsingar, að eins og jeg tók fram var tilætlunin, að mennirnir sjálfir, sem gervilim þurfa að fá, fengju þennan styrk. Jeg mintist á, að til væri ætlast, að þessir menn sæktu um styrkinn til stjórnarinnar og hún úthlutaði honum eftir bestu vitund. Þetta vona jeg, að hv. frsm. og öðrum sje ljóst.

Út af því, sem hv. frsm. mintist á brtt. mína viðvíkjandi styrk til Sjómannafjelags Vestmannaeyja, skal jeg aðeins drepa á, að samskonar fjelagsskapur er styrktur hjer í Reykjavík, svo að jeg teldi sanngjarnt, að þetta fjelag fengi svipaðan styrk.