03.05.1927
Efri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

21. mál, fjárlög 1928

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg býst við, að flestum þyki nóg komið af þessum umr., svo að jeg ætla ekki að fara að halda neina langa ræðu, heldur aðeins gera örstutta aths. út af orðum hv. 4. landsk. (MK) um styrkinn til markaðsleitar.

Í fjárlagafrv. stjórnarinnar er farið fram á, að veittar sjeu 5000 krónur til markaðsleitar fyrir íslenskar afurðir erlendis. Við þennan lið gerði hv. fjvn. Nd. enga breytingu, en frá hv. sjútvn. þeirrar hv. deildar kom fram brtt. í 3 liðum. Fyrsti liðurinn var þess efnis, að veittar skyldu 12000 krónur til þess að afla nýrra markaða á fiski í Suður-Ameríku. Næsti liður var þess efnis, að veittar skyldu 10000 krónur til að leita markaðs í Eystrasaltslöndunum fyrir síld, og loks var í þriðja lið tillögunnar farið fram á að hækka 5000 króna liðinn í stjfrv. upp í 8000 krónur, sem skyldi verja til þess að afla nýrra fiskmarkaða í Portúgal. Fyrsti og annar liðurinn voru samþyktir, en sá þriðji feldur, og þannig kom frv. til þessarar hv. deildar. Fjvn. hefir nú komið fram með brtt. þess efnis, að upphæðin sje 20000 krónur „til markaðsleitar“, þannig, að stjórnin hafi frjálsar hendur um það, hvernig hún vill verja fjenu. Fjvn. þótti ekki tiltækilegt að hækka upphæðina, bæði af því, að hún hafði sett sjer það markmið að skila frv. tekjuhallalausu, og líka af því, að hv. Nd. hafði ekki farið hærra en upp í 22 þúsund kr. Jeg held, að hv. frsm. (EJ) hafi láðst að taka þetta fram, og leyfi jeg mjer því að gera það, að gefnu tilefni.

Eins og jeg tók fram áðan, hefir fjvn. sett sjer það markmið að skila fjárlagafrv. tekjuhallalausu. það er síður en svo, að það sje skemtilegt verk eða þakklátt, enda vissi nefndin, að hún mundi litlar þakkir fá fyrir. En undirtektirnar hafa orðið betri en hún bjóst við. Það er heldur ekki af því, að nefndin viðurkenni ekki, að margar af þessum fjárveitingum sjeu sanngjarnar og jafnvel nauðsynlegar, að hún hefir tekið þessa stefnu. Hún vildi helst, að fjárhagur Íslendinga væri svo blómlegur, að hún gæti með góðri samvisku samþykt allar þær tillögur, sem hjer eru fram bornar. En þó að fjárhagurinn megi teljast sæmilegur núna sem stendur, þá er útlitið mjög slæmt og fyrirsjáanlegt, að tekjur yfirstandandi árs ná ekki þeirri upphæð, sem frv. gerir ráð fyrir. Það má því búast við, að eyðist af þeim sjóði, sem til er og gerir það, að enn hefir ekki þurft að taka lán. En um áramót verður að vera nóg í sjóði til að nota þar til tekjur næsta árs koma fram. Nefndinni er sem sagt mjög óljúft að greiða atkvæði á móti brtt. hv. þdm., en hún sjer sjer ekki annað fært, vegna fjárhags ríkissjóðs.