06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

21. mál, fjárlög 1928

Bjöm Kristjánsson:

Vitavörðurinn í Gróttu hefir sent Alþingi erindi um það, að nauðsyn beri til að byggja fjós og hlöðu í Gróttu.

Landssjóður keypti þetta kot fyrir nokkrum árum, og var þar þá tún fyrir eina kú, þegar vitavörðurinn, sem nú er þar, kom þangað, en nú hefir hann grætt túnið svo út, að hann hefir nú 3 kýr. En svo stóð á, að þegar hann kom að kotinu, var hvorki fjós nje hlaða á jörðinni, og hefir hann neyðst til að hafa kýrnar í kjallara íbúðarhússins, til mikilla óþæginda fyrir heimilisfólkið, eins og skýrt er frá í vottorði hjeraðslæknis, sem hjer liggur fyrir.

Vitavörðurinn hefir snúið sjer til hæstv. atvrh. (MG), en vegna sparnaðar, sem vitanlega er full þörf á að gæta, hefir hann ekki sjeð sjer fært að sinna þessu. Hinsvegar er þetta til mjög mikilla óþæginda fyrir fólkið, og auk þess feyir það húsið svo, að það liggur undir stórskemdum.

Þessu til stuðnings vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa hjer upp vottorð hjeraðslæknisins Jóns Hj. Sigurðssonar:

„Jeg hefi í dag, samkvæmt beiðni Þorvarðs Einarssonar, farið og skoðað íbúðarhús það, sem hann býr í í Gróttu. í kjallara hússins hefir hann neyðst til þess að hafa 3 nautgripi undanfarið, með því að engin fjósbygging er á býlinu. Frá gripum þessum stafar óloft og fýla um alt húsið, mest þegar þeir fá útlent kraftfóður, og er þá svo mikið að því kveðið, að heimilisfólkið á ilt með að þola það. Auk þessa skemmir þetta húsið, gólf og bitar feyjast, og dúar nú alt gólfið í norðvesturhorni hússins, ef á er gengið. Eiginleg alvarleg óhollusta álít jeg tæplega að stafi af þessu, en mikil óþægindi fyrir bæjarfólkið. — Reykjavík, 18. apríl 1927. — Jón Hj. Sigurðsson.“

Hann lýsir ástandinu eins og það er. Jeg held, að hver meðalbóndi í sveit, sem líkt stæði á fyrir, myndi brjótast í að koma þessum peningshúsum upp. Kostnaðinn hefir vitamálastjóri áætlað um 2000 kr., og liggja hjer fyrir meðmæli frá honum. Vitavörðurinn er nú orðinn roskinn maður, og má búast við því, að þegar nýr maður kemur, verði laun hans gerð þeim mun lægri, sem jörðin er betri. Kotið er eign landssjóðs og finst mjer ekki nema sanngjarnt, að vitavörðurinn, sem nú er, verði látinn njóta þess, hvað hann hefir bætt jörðina, einkum þar sem hagur hans og landssjóðs fer svo mjög saman. Jeg vona því, að hv. deild taki þessu vel. Það mun borga sig, þó ekki sje nema hússins vegna.