06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

21. mál, fjárlög 1928

Magnús Kristjánsson:

Hæstv. forsrh. (JÞ) tók það fram, að nauðsynlegt væri að láta til skarar skríða og taka duglega ofan í við menn, sem hefðu gert sig seka í vanrækslu á starfi sínu. Þetta er að vísu góð regla, en hitt er engu síður áríðandi, að hengja ekki bakara fyrir smið. Af tvennu illu er skárra, að sekur komist hjá refsingu en að saklausum sje hegnt, eins og hjer á sjer stað. Einnig gat hæstv. ráðh. um, að þetta væri afleitt fordæmi, ef tillaga mín næði fram að ganga. En jeg veit ekki betur en að þegar sje gefið fullkomið fordæmi fyrir slíku, með máli Petersens frá Vestmannaeyjum. (Forsrh. JÞ: Nei!). Jú, ef það hefir verið siðferðileg og lagalega skylda ríkisins að greiða svo miklar skaðabætur, sem þá var um að ræða, er ekki síður ástæða til þess hjer. En það er ekki til mikils að deila við dómarann. Ef hæstv. ráðherra hefir sett sjer það markmið, að láta hjer knje fylgja kviði, þá býst jeg við, að honum geti tekist það. En mjer þykir fullhart, ef þeir stuðningsmenn hæstv. ráðherra, sem hingað til hafa viljað leggja þessu liðsinni, fara nú að breyta um skoðun. Jeg vona, að ekki þurfi að segja í þessu sambandi:

„Rænir drembin höfðingshönd,

heilagt frelsið deyðir“.

Jeg hygg, að varla komi til þess, að hv. þdm. fari að breyta atkvgr. sinni, þó að fram komi áskorun um það frá hæstv. ráðh. (JÞ), svo að það er ástæðulaust fyrir mig að lengja umr. með því að færa fram frekari varnir. Jeg ætla aðeins að endingu að benda á, í sambandi við það, að hæstv. ráðh. taldi mig ekki hafa farið rjett með (Forsrh. JÞ: Þetta er ekki alveg nákvæmt!) það, sem jeg sagði um símaverkfallið 1914. Jeg talaði bara um það sem eina af þessum hollu hreyfingum innan þess fjelagsskapar. Einnig vildi hæstv. ráðh, leiðrjetta það, að landssímastjóri hefði veitt stöðuna. Þó að ráðherra undirskrifi plaggið, sem gert er eftir tillögum landssímastjórans, þá verð jeg að halda því fram, að það hafi einmitt verið landssímastjóri, sem veitti stöðuna, af því að hann hefir álitið, að þarna væri rjettur maður á rjettum stað. Ef ekki hefði viljað svo illa til, að heilsu landssímastjóra fór hnignandi dag frá degi, svo að hann var alls ekki fær um að standa í neinu stímabraki, þá held jeg, að aldrei hefði þurft að koma til þessa.

Jeg ætla svo að bíða rólegur átekta, í þeirri von, að tillaga hæstv. ráðherra verði feld.