06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þó að jeg hafi verið mótfallinn skaðabótagreiðslu til Petersens verkfræðings, var þó alveg ólíku saman að jafna, þar sem ekkert það kom fram í máli hans, sem yrði lagt honum persónulega út til lasts. En eins og jeg nú hefi gert háttv. þdm. grein fyrir, voru það alt ástæður, sem snertu persónu Eggerts Stefánssonar, sem urðu þess valdandi, að honum var vikið fjórum sinnum úr stöðu sinni, og þó var hvað eftir annað sýndur vilji til að taka hann aftur. Jeg geri mjer vonir um, að þær upplýsingar, sem jeg hefi talið embættisskyldu mína að gefa í þessu máli, — að vísu mjög ógeðfelda embættisskyldu —, verði til þess, að þá fjárhæð, sem komin er inn í fjárlagafrv., beri að minsta kosti ekki að skoða sem árlega eftirlaunagreiðslu, heldur sje sú upphæð greidd í eitt skifti fyrir öll.