06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

21. mál, fjárlög 1928

Ingvar Pálmason:

Jeg á hjer eina litla brtt. ásamt háttv. 5. landsk. (JBald). En það stendur nú svo á, að sú brtt. hróflar ekkert við upphæðum fjárlagafrv.; það er brtt. VII á þskj. 513, um stúdentagarðinn. Í frv. stendur: „enda sje ekki byrjað á byggingunni fyr en lög hafa verið sett um hana“. Formaður stúdentagarðsnefndarinnar hefir mælst til þess við mig, að jeg flytti þessa brtt., og jeg taldi mjer skylt að verða við þessari beiðni, eftir að hann hafði fært mjer rök fyrir því, að hún væri nauðsynleg. En rökin eru þau, að stúdentagarðsnefndin hefir ákveðið, að ekki verði samin lög um garðinn, heldur aðeins sett um hann skipulagsskrá, er fengi svo samþykki stjórnarráðsins. Af þessu er nauðsynlegt, að inn í aths. komi heimild um það, að byrja megi á verkinu eftir að samþykt hefir verið skipulagsskrá fyrir stúdentagarðinn.

Þetta ætti ekki að raska neitt þeirri tryggingu, sem felst í aths., því að í báðum tilfellum verður stjórnarráðið að veita samþykki sitt, svo að það ætti að vera nákvæmlega jafnmikil trygging fólgin í því, að ekki má byrja á að byggja stúdentagarðinn fyr en skipulagsskrá er samþykt af stjórnarráðinu eins og að lög fyrir hann væru samþykt. Jeg vona þess vegna, að hv. deildarmenn skilji, hvað átt er við með þessari brtt., og að þeir fallist á, að ekki sje neinu raskað með því, sem felst í henni. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að hv. deild sjái sjer fært að samþ. brtt.

En úr því að jeg stóð upp á annað borð, vildi jeg minnast lítillega á eina brtt., sem er á þskj. 513. Jeg lít svo á, að þegar er um eftirlaun starfsmanna að ræða, sem ákveðin eru af þinginu, en ekki miðast við nein lög, þá sje þess gætt, að ekki sjeu allir settir við sömu jötu. Aðstaðan er oft svo misjöfn, að það er fyllilega sanngjarnt, að eftirlaunin sjeu mismunandi. Jeg get tekið það fram um þennan mann, sem þessi liður á við, að hann hefir gegnt póstsstarfi um eða yfir 40 ár. Jeg hefi ekki sjeð mann þennan nema einu sinni, og var hann þá í póstferðum fyrir föður sinn frá Reykjavík að Stað í Hrútafirði. Þetta var 1890, og var jeg honum samferða 2 dagleiðir, ásamt nokkrum Norðlendingum og þar á meðal einum kvenmanni, yfir Holtavörðuheiði og ofan Norðurárdal. Af því að mjer er þessi atburður minnisstæður, þykir mjer rjett að geta hans hjer, því að hann sýnir bæði framúrskarandi dugnað og samviskusemi þessa manns, þegar frá því fyrsta. Daginn, sem við fórum yfir Holtavörðuheiði, var snjóhríðarveður og ófærð svo mikil, að varla varð komist yfir heiðina. Við vorum 12 tíma frá Grænumýrartungu að Fornahvammi og vorum með 27 hesta. Jeg verð að segja það, að hefði Hans „pósts“ ekki notið þar við, þá hefði orðið mannskaði á Holtavörðuheiði þann dag. En honum tókst að leiða okkur farsællega að Fornahvammi, og þar fengum við hinar bestu viðtökur og góða hvíld, öll nema Hans póstur. Hann fór ekki af fötum, en var alla nóttina hvíldarlaust á ferð milli hesta sinna, að brynna þeim, færa þeim hey o. s. frv. Af því mjer flaug í hug þessi liðni atburður í sambandi við till., gat jeg ekki stilt mig um að geta hans hjer. Jeg er viss um, að fleiri slík tilfelli hafi komið fyrir þessi 40 ár, sem Hans hefir gegnt póststörfum á þessum svæðum. Og eftir því, sem hv. 1. landsk. (JJ) gat um, á hvern hátt hann hefir nú losnað við þetta starf, þá finst mjer öll sanngirni mæla með því, að hann verði ekki settur við sömu jötu og aðrir póstar, sem ef til vill hafa starfað í 10–15 ár, þó að segja megi, að þeir eigi auðvitað alt gott skilið. Jeg leyfi mjer því að mæla fastlega með þessari sjálfsögðu till.