06.05.1927
Efri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg ætla ekki að fara hjer að ræða brtt. einstakra hv. þm., en vildi núna fyrir atkvæðagreiðsluna minna á það, að þessi hv. deild vann það þrekvirki við 2. umr. að skila fjárlagafrv. tekjuhallalausu og meira að segja með ofurlitlum tekjuafgangi. En nú er það svo, eftir þeim brtt., sem fram eru komnar, að það getur brugðist til beggja handa, hvort deildin getur haldið þessu heiðursorði. Mjer virðist, eftir þeim tillögum, sem fram eru komnar, og afstöðu hv. fjvn. til þeirra, að svo muni geta farið, að tekjuafgangurinn breytist í dálítinn tekjuhalla. En það er þó nokkur munur á því að geta sagst hafa skilað fjárlögunum tekjuhallalausum heldur en með tekjuhalla, þótt lítill sje.

Þá vil jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um 22. gr., um heimildirnar til þess að lána fje úr viðlagasjóði. Jeg hefi látið þær afskiftalausar við meðferð fjárlagafrv. í þetta sinn, meðfram vegna þess, að jeg hefi álitið, að það geti eins vel orðið einhver annar en jeg, sem býr að heimildum fyrir árið 1928. Mín skoðun er sú, að það sje engin von til þess, að stjórnin geti notað allar þessar heimildir eða veitt öll þau lán, sem heimiluð eru úr viðlagasjóði á árinu 1928. Ef jeg ætti að velja um, hvað ætti að veita og hverju ætti að neita, þá mundi jeg láta sitja fyrir lán til nytsamlegra, verklegra framkvæmda, sem líkleg eru til þess að geta skilað fjenu aftur á sínum tíma, en heldur láta sitja á hakanum að veita málurum lán til þess að koma upp vinnustofu. Jeg er sannfærður um það, að slík lán eru vandræðagripir fyrir viðlagasjóðinn. Það er hætt við því, að þingið miskunni sig fyr eða síðar yfir slíka menn og gefi þeim upp lánin. En það á ekki að nota viðlagasjóðinn svo, til þess að draga hulu yfir styrkveitingar úr ríkissjóði.

Hv. 5. landsk. (JBald) var að saka íhaldið um hlutdrægni og tók máli sínu til stuðnings óheppilegt dæmi, till. frá hv. fjvn. um eftirgjöf vaxta og afborgana af láni Innri-Akraneshrepps á árinu 1927–’28. Mjer skilst, að þetta hafi verið borið fram til samræmis við aðrar eftirgjafir, sem þegar eru komnar inn, eftirgjöf til Árneshrepps, Grunnavíkurhrepps og Gerðahrepps. Það verður að bera þessa eftirgjöf saman við annað en þessar hliðstæðu eftirgjafir. Annars skal jeg ekkert frekar segja um þessa tillögu. Jeg er ekki sannfærður um, að það hafi verið ástæða til þess að gefa eftir vexti og afborgun af þessu litla láni. Öðru máli var að gegna um hina hreppana, sem búið var að samþykkja. Þar var um stærri upphæðir að ræða og því erfiðara fyrir hreppana að standa straum af þeim.

Þá er stjórninni ennfremur í 23. gr. heimilað að gera ýmislegt, svo sem að kaupa hús á Sauðárkróki og jörð í Kelduhverfi o. fl. Jeg skal taka það fram um alla þessa liði, að jeg tel enga stjórn bundna við svona lagaóar heimildir, nema henni á sínum tíma, að öllum málavöxtum athuguðum, virðist rjett að nota þær.