10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. fyrri kaflans (Þórarinn Jónsson):

Brtt. þær, sem fram hafa komið frá fjvn., eru nú með öðrum hætti en venja er til, vegna þess að nefndin hefir klofnað. Jeg vil taka það fram, að afstaða mín til brtt. og nefndarinnar er sú, að jeg gerði engar kröfur til þess, að nefndin klofnaði, enda þótt jeg liti öðruvísi á brtt. meiri hlutans; slíkt hefir ætíð verið svo, að meira eða minna leyti, án klofnings í nefndinni. Jeg tala hjer því aðallega fyrir sjálfan mig, nema að því leyti, sem jeg sem frsm. fyrri kaflans minnist á breytingar þær, sem á frv. eru orðnar, síðan það fór hjeðan úr þessari deild, og þó mun jeg fara fljótt yfir sögu.

Jeg get ekki minst á frv. eins og það kemur frá hv. Ed. án þess að víkja að því nokkrum orðum, hvernig fjvn. hv. Ed. farast orð í nál. um afgreiðslu fjárlagafrv. frá þessari hv. deild og störf fjvn. hjer. Í fyrsta lagi eru þar talsverðar ákúrur frá fjvn. Ed. til fjvn. Nd., um að hún sje sein í svifum um afgreiðslu málsins.

Það má ef til vill álasa henni fyrir þetta, en þeir, sem lengi hafa starfað í nefndinni, vita, hve miklar tafirnar eru. Þá hefir hún ýmislegt það fram yfir Ed., sem tekur hana mestan tíma, svo sem heimsóknir og viðtöl við menn, sem er því meira, er fleiri erindi liggja fyrir. Jeg vil ekki þar með segja, að hv. Ed.-nefndin losni alveg við þetta, en alt er það miklu minna, sem til hennar kasta kemur. Það er engin dygð, þótt nefnd Ed. sje fljótari; hún getur byrjað starf sitt þega í þingbyrjun, jafnt og Nd.-nefndin, og fær öll skjöl frá henni jafnóðum. Hún á því ekkert annað eftir, þegar fjárlagafrv. kemur hjeðan, en að gera brtt. og semja nál. Það virðist mjer hún ekki hafa gert á skemri tíma en búast mátti við, því að þeim störfum hefir nefnd Nd. lokið á þrem dægrum. Nefnd Ed. tekur það fram, að það sje hennar verk að nema burt tekjuhallann. Það er að vísu góðra gjalda vert, en þá vil jeg minnast þess, að nefnd Nd. hafði ásett sjer, eins og jeg lýsti yfir fyrir hönd nefndarinnar við 3. umr. málsins hjer í deildinni, ef fjárlagafrv. færi eins og það var gegnum báðar deildir, að þá yrði næsta verk hennar að jafna tekjuhallann, en til þess yrði að ganga á verklegar framkvæmdir. Þetta hefir fjvn. Ed. því gert eftir tillögum nefndarinnar hjer, og hefir það komið verst niður á þeim kaflanum, sem mjer heyrir til. Til þess hefir hún orðið að lækka fjárveitingu til landhelgisvarna, vega- og brúagerða og símalagninga að miklum mun. Það, sem þurfti til þess að nema burt tekjuhallann, hefir nær eingöngu verið tekið af þessum kafla.

Þá get jeg ekki gengið fram hjá því, er segir í nál., að fjvn. hjer hafi oft gripið til þess ráðs að hækka tekjuliðina, en að fjvn. Nd. hafi ekki lagt út í það „að þessu sinni“. Jeg vísa því fastlega frá nefnd Nd., að hún hafi nokkru sinni lagt það til að hækka tekjuáætlunina til þess að jafna tekjuhallann. Og þótt það hafi komið fyrir, að hún hafi lagt til að hækka tekjuáætlunina, þá hefir það verið mjög varlega gert, og reynslan sýnt, að þar var í hóf stilt. Nú hafði nefndin, sem kunnugt er, lagt það til að lækka tekjuáætlunina. Mjer finst því harla óviðeigandi að kasta því fram rakalaust í annari deildinni, sem má verða til óvirðingar hinni.

Jeg hefi minst á stærstu liðina, sem fjvn. Ed. hefir breytt, en nú vil jeg minnast á einstakar brtt. aðrar, þar sem nefnd Ed. leggur til, að þeir liðir verði lækkaðir, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki geta lækkað. Þannig leggur nefndin til að lækka fjárveitingu til yfirskattanefnda niður í 40 þús. kr. Jeg sje enga leið til þess, að þessi liður geti lækkað, en þykir gott, ef hann verður ekki hærri en áætlað er í frv. í landsreikningnum 1925 hefir þessi liður verið 48 þús. kr. Það má að vísu segja, að undirbúningur undir nýtt jarðamat byrji ekki strax, en samt sem áður sje jeg engar líkur til þess, að hægt verði að draga úr þessu. Þá hefir nefndin lagt það til að fella niður styrk til Kjósarlæknisins. En þar sem enginn læknir er skyldugur til þess að gegna þar læknisstörfum, verður að veita styrk til þess að einhver fáist til að gegna þeim. Þetta er því enginn sparnaður, enda sá deildin þar betur og feldi till. Margar slíkar till. eru í síðari hlutanum.

Við 12. gr. er brtt. um það frá fjvn. Ed. að lækka styrk til sjúkraskýla og læknabústaða um 15 þús. kr. Mjer er ekki vel ljóst eftir nál., hvernig í þessu liggur eða út á hvað það á að ganga. Við 3. umr. fjárlagafrv. hjer hækkaði þessi styrkur um 15 þús. kr. Þar af áttu 8 þús. kr. að ganga til Reykhóla, en 7 þús. kr. voru eftirgjöf á láni til Þistilfjarðarhjeraðs til sjúkraskýlis á Þórshöfn. Verður ekki betur sjeð en að það sjeu þessar 15 þús. kr., sem feldar eru niður. Ef ekki er sú meiningin með lækkuninni að nema þetta brott, þá verður að ganga út frá því, að þessi upphæð sje tekin af því, sem ætlað er til sjúkraskýlisbygginga, viðgerða o. s. frv. En þetta eru lofaðar upphæðir, sem ekki er hœgt að komast hjá að greiða, ef ekki á þessu ári, þá strax á næsta nýári. Það var gert ráð fyrir að byggja sjúkraskýli og læknishús í Hofsóshjeraði. Þetta var það eina, sem hugsanlegt var að hægt væri að ganga á, ef ekki yrði bygt þar. En það nægir ekki heldur upp í þessi 15 þús. Það virðist því ekkert geta fallið út af þessum lið, nema þetta, sem jeg nefndi, ef ekki á að verða alt sem ógert. Eins og við vitum, var þetta tekið inn með ákveðnum meðmælum landlæknis og að þeim upplýsingum fengnum, að þar væri alt undirbúið, sem venja er til, og ekkert vantaði, nema að ríkissjóður legði fjeð fram.

Jeg veit ekki, hvort jeg hirði um að gera fleiri athugasemdir við gerðir fjvn. Ed. Þó get jeg ekki stilt mig um að minnast á eina brtt., sem kemur mjer dálítið við. Það er um lækkun styrks til raflýsingar á Blönduósskóla, úr 6000 kr. í 4000 kr. Þar í deildinni virðist hafa verið sjerstök flokkssamþykt um þennan lið, en á öðrum till., svo sem styrk til einstakra manna, verður ekki sjeð, að neitt slíkt hafi átt sjer stað. Þá er það mjög óviðfeldið, að þessar 2 þús. kr. skuli lagðar til kvennaskólans í Reykjavík. Vil jeg leyfa mjer að sýna, hve þetta er ósanngjarnt. Eins og deildin veit, hefir verið tekin ákveðin stefna um það, hve mikið ríkissjóður á að greiða við byggingu slíkra skóla. Áður bygðir skólar hafa einnig fengið líkan styrk, t. d. hefir Hvítárbakkaskólinn fengið þennan styrk, og það eftir dýrtíðarvirðingu á húsunum. Blönduósskólinn hefir engan styrk fengið. Þó mætti ef til vill segja, að skólinn hafi fengið eitthvað í þessa átt, þegar hann fjekk styrk til miðstöðvarlagningar í fyrra. Nú hefir skólinn verið raflýstur, sem er alveg nauðsynlegt. Þótt þessi upphæð verði tekin af byggingarstyrknum, er enn mikið eftir, vegna þess að skólahúsið er svo dýrt, miklu dýrara en önnur skólahús, sem hjer geta komið til samanburðar. Af þessum styrk er svo tekið miklu meira en af öðrum styrkjum; í stað þess að nema burt af honum 1/7 eða 1/5, eins og af flestum öðrum, er tekinn 1/3 af honum og lagt til rekstrarkostnaðar við kvennaskólann í Reykjavík.

Í fyrra lá frv. fyrir þinginu um að gera kvennaskólana á Blönduósi og í Reykjavík að ríkisskólum, og var jeg því fylgjandi vegna þess, hvað skólann í Reykjavík snerti, að hann getur aldrei orðið sjermentunarskóli, nema þing og stjórn fái full umráð yfir honum. Með því fyrirkomulagi, sem nú er á skólanum, hlýtur hann að verða lagður niður, þegar gagnfræðaskóli kemur í Reykjavík, nema þá ef til vill sú sjermentunardeild, sem í skólanum er.

Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að aðstaða mín gagnvart fjárlagafrv. er sú, að jeg gæti gengið á móti hverri till. til hækkunar. En þegar jeg sá brtt. koma hvaðanæfa, kom jeg líka með brtt., en verði það að samkomulagi að taka þær allar aftur, mun jeg að sjálfsögðu taka mínar brtt. aftur líka. Þangað til fer jeg fram á, að rekstrarstyrkur til kvennaskólans á Blönduósi hækki um 3000 kr. Skólinn hefir hingað til starfað frá 15. okt. til 14. maí, en á nú að starfa frá 15. sept. til 20. júní. Það er fyrirsjáanlegt, að ekki verður hægt að halda uppi kenslu svona lengi án aukins styrks, nema því aðeins að leggja mjög mikið á hjeraðið.

Jeg hefi nú minst á brtt. mínar, nema eina, við þennan fyrri kafla. Þessi brtt. er við 13. gr., um símalagningar. Ef sími verður lagður fram að Ási í Vatnsdal, hafði jeg hreyft því í nefndinni að fá línu frá Lækjamóti að Breiðabólsstað.

Þegar jeg átti tal um þetta við landssímastjóra, þá lagði hann á móti því, að línan í Vatnsdalinn yrði lögð. Aftur á móti hafði hann góð orð um, að þessi Breiðabólsstaðarlína yrði lögð um leið og línan frá Borðeyri til Sauðárkróks; það kostaði litla fyrirhöfn, og kostnaðurinn við það ekki meiri en um 3–4 þús. kr.

Jeg hefi gert þá brtt., að á línunni frá Ási verði ákveðin stöð í Flögu, og finst mjer það sjálfsagt, þar sem þar er eitt af stærstu og best bygðu býlum hjer á landi. Ábúandi hefir einnig mjög mikla þörf fyrir síma, þar sem hann rekur verslun á Blönduósi. Að öðru leyti vil jeg ekki hagga neinu, sem áður er ákveðið, og tel sjálfsagt að hafa stöð austan árinnar. Vænti jeg þess, að deildin verði ekki á móti þessari till. minni, en samþykki hana, þegar til atkvæða kemur. En taki jeg þessa brtt. aftur, ef til samkomulags dregur, þá vil jeg skjóta því til stjórnarinnar, að þetta verði gert.

Þá á jeg eina brtt. við síðari kaflann, 23. gr., um styrk til Eimskipafjelags Íslands, að fyrir 85000 kr. komi 55000 kr. Stjórninni er þar heimilað að greiða 85000 kr. til fjelagsins, en þessi upphæð hefir undanfarið verið 60000 kr. Brtt. þessi kom frá hæstv. atvrh. og var samþykt. Ástæðan til brtt. minnar er sú, að jeg tel ekki rjett að heimila frekari greiðslu út af byggingu „Brúarfoss“ en áður hafði verið gert, vegna þess að enn verður ekki sjeð, hvernig rekstur hans verður. Jeg tel því þetta of fljótt, þótt ef til vill verði ástæða til þess síðar. Í þessu sambandi get jeg ekki stilt mig um að minnast á afstöðu fjelagsins til samgangna á Húnaflóa, hvað „Brúarfoss“ snertir og jafnvel önnur skip. Þar gengur aðeins „Esja“ og „Goðafoss“ aðeins í annari leið sinni, frá útlöndum. Jeg verð að átelja þetta og hygg, að fjelagið gæti hagað þessu betur, enda ekki minni ástæða fyrir það að hlynna að samgöngum á Húnaflóa en annarsstaðar. Til þess að bera saman, hvort flutningsþörf er ekki eins mikil á Húnaflóa og Skagafirði, hefi jeg tekið upp tölur úr hagskýrslunum um aðfluttar og útfluttar vörur frá þessum stöðum frá árunum 1922–1924. Árið 1922 eru útfluttar vörur frá höfnum á Húnaflóa fyrir 760 þús. kr., en úr allri Skagafjarðarsýslu fyrir 648 þús. kr. Mismunurinn er rúmar 110 þús. kr. Innflutningur er svipaður, en ef borinn er saman útflutningur frá einstökum höfnum á því ári, þá er útflutningur frá Sauðárkróki að vísu 40 þús. kr. hærri en frá Blönduósi einum, sem hafði flutt út fyrir 492 þús. kr. Jeg geri ekki þennan samanburð á Blönduósi og Sauðárkróki fyrir annað en það, að „Brúarfossi“ er ætluð viðkoma í hverri einustu ferð á Sauðárkróki.

En 1923 er munurinn orðinn miklu meiri. Þá er frá Sauðárkróki útflutt fyrir 644 þús. kr., en frá Blönduósi einum fyrir 1147 þús. kr., eða nær helmingi hærri upphæð. Þá er frá Hvammstanga útflutt fyrir 277 þús. kr. og frá Skagaströnd fyrir 273 þús. kr. Og enn er ótalinn ca. 1/3 af útfluttum vörum frá Borðeyri, sem heyrir til Húnavatnssýslu. En frá allri Skagafjarðarsýslu er útflutt fyrir 798 þús. kr., en frá Húnavatnssýslu fyrir 1780 þús. kr., eða nær 1 milj. kr. hærri upphæð. Aðfluttar vörur eru þá líka hærri. Hvort mun þá minni ástæða fyrir viðkomu skipa á Húnaflóa en á Skagafirði?

Árið 1924 mun mega játa það, að Sauðárkrókur hafi verið aðeins hærri en Blönduós einn, en þá var Hvammstangi með 277 þús. kr. Allur útflutningur það ár nam í Skagafjarðarsýslu allri 1242 þús. kr., en í Húnavatnssýslu 1940 kr. Einnig voru þá aðfluttar vörur talsvert hærri.

Þessar tölur ættu gera það ljóst, að það væri full ástæða fyrir Eimskipafjelagið að haga viðkomum í Húnavatnssýslu ekki ver en annarsstaðar.

En svo mjög sem þetta hjerað hefir verið afskift hingað til, þá tekur þó út yfir með viðkomur hins nýja skips „Brúarfoss“. Þar er sjerstaklega á það að líta, að verkefni „Brúarfoss“ á að vera það að koma á markaðinn frystum vörum, sem ekki voru áður tök á að senda út eða milli hafna innanlands. Með tilliti til þess lagði ríkissjóður fram mikið fje til byggingar þessa skips, svo að það annaðist þessa flutninga alveg laust við það, hvaða hjeruð eiga í hlut. En það virðist nú svo, að það sje beinlínis níðst á þessu hjeraði. „Brúarfoss“ hefir viðkomu á Sauðárkróki í hverri einustu ferð, en enga á Hvammstanga. Nú er Húnavatnssýsla mesta laxveiðahjerað á Norður-, Austur-, og Vesturlandi, og þyrfti því kæliskipið að hafa viðkomur þar í júlí og ágúst, að minsta kosti, til þess að hægt væri að koma laxinum nýjum á markaðinn. Jeg geri ráð fyrir, að ætla megi, að lax úr þessu hjeraði muni nema um eða yfir 20 tonnum í meðal ári. Hinsvegar veit jeg ekki, hvað skipið hefir að gera á Sauðárkrók til þess að flytja þessa vöru. Þar er ekki pundsútflutningur af henni.

Jeg vil ekki gera Eimskipafjelaginu rangt til og hefi einatt orðið að vera hjer í þessari hv. deild málsvari þess, en jeg tel það of snemt að hækka nú styrk til Eimskipafjelagsins áður en vitað er, hvort halli verður á rekstri „Brúarfoss„ og um leið og mjög er dregið úr tillagi til allra framkvæmda. Jeg vil því skora á hv. deildarmenn að vera þess minnugir, þegar þeir greiða atkv. um þessa tillögu.

Áður en jeg skilst við þennan kafla skal jeg geta um till., sem kom fram við 3. umr. Það var um það að veita sjerstakan styrk til augnlæknis, sem hefði aðsetur á Akureyri og starfaði fyrir Norður- og Austurland. Þetta var samþykt með tilliti til þess, að það væri ákveðinn maður, sem tæki þetta að sjer. En nú hefir þetta orðið á annan veg; þessi læknir fer ekki norður, heldur annar. En þar sem þessi læknir, Guðmundur Guðfinnsson, hefir styrk í fjárlögum, er það tilætlun nefndarinnar, að hann taki að sjer kenslu í læknadeild háskólans, þá, sem sá læknir hafði á hendi, er fer norður.

Jeg get lýst því yfir fyrir hönd mína og jeg held annara í fjvn., sem eru með því að samþykkja fjárlagafrv. eins og það er, að við munum ekki, að svo stöddu, fara út í það að lýsa afstöðu okkar til annara brtt. En ef frv. verður ekki samþ. óbreytt, mun jeg greiða atkvæði flestum þeim lækkunartill., sem hjer eru á ferðinni.

Það er þó einn liður í brtt. hv. meiri hl. fjvn., sem jeg get ekki fallist á, og og það er að fella niður tillagið til byggingar landsspítalans. Það er í rauninni óþarft að gera grein fyrir afstöðu minni til þessarar till. fyr en hv. frsm. síðari kaflans og meiri hl. nefndarinnar (TrÞ) hefir talað, en jeg ætla þó að gera eina ferðina að því.

Það er kunnugt, að mjög mikill og almennur áhugi hefir verið fyrir þessu máli, ekki aðeins hjá þeim, sem safnað hafa til byggingarinnar, heldur einnig af hálfu alls almennings. Þál. samþyktar á Alþingi 1923 og 1925 sýna þetta. Og þó að þær að vísu slái varnagla, ef fjárhagur er þröngur, þá er þó samkv. þál., sem samþ. var á þingi 1925, gerður samningur af landsstjórninni við landsspítalasjóðsnefndina um byggingu spítalans, og skyldi henni lokið fyrir 1930, og hefir tillag ríkissjóðs til byggingarinnar verið miðað við þetta, þó svo, að alt verð hennar færi ekki fram úr 1 miljón króna.

Jeg get ekki sjeð annað en stjórnin hafi gert þennan samning í samræmi við vilja þingsins þá, og því sje þingið bundið við hann, og ekki heldur get jeg litið svo á, að hagur ríkissjóðs sje svo bágborinn, að hann geti ekki uppfylt sínar skyldur samkvæmt samningnum, enda þótt það hafi gerst síðar, að byggingin hafi orðið dýrari en ætlað var. Og það var líka með fullu samþykki þingsins.

Nú er það vitanlega augljóst, að ríkissjóður þarf að leggja fram mikið fje til þess að spítalabyggingunni verði lokið 1930. En til varúðar var sleginn sá varnagli, að ef það teldist ríkissjóði ofætlun að leggja fram nauðsynlegt fje, þá mætti taka lán til þessa.

Jeg geng út frá því, að þessi samningur sje í fullu gildi frá þingsins hálfu og hafi verið með samþ. hverra fjárlaga síðan viðurkendur, og get því ekki verið með því, að þessi liður sje feldur niður. Þó að þjóðin taki nærri sjer að gera þetta, þá er á það líta, að það er mikilsvert nauðsynja- og metnaðarmál, að landið eigi fullkominn spítala árið 1930, og læknar landsins telja, að hjer sje um óhjákvæmilega nauðsyn að ræða.

Hvað það snertir að taka lán strax, þá held jeg, að rjettara sje að ríkissjóður borgi meðan hann getur til byggingarinnar, en til þess ráðs verður auðvitað að taka, ef þörf krefur.

Af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram, verð jeg að vera eindregið á móti því, að þessi liður sje feldur niður. Jeg sje ekki, að það skifti neinu í sambandi við þessa till., hvort mikið eða lítið er felt niður af fjárveitingum til verklegra framkvæmda annara í landinu.

Till. einstakra hv. þm. ætla jeg ekki að taka til athugunar í þetta sinn, enda hefir nefndin ekki tekið ákveðna afstöðu til þeirra, og skal því ekki tefja tímann meira að sinni.