10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

21. mál, fjárlög 1928

Magnús Torfason:

Jeg á eina brtt. þess efnis að lækka styrkinn til bændaskólans á Hólum úr 9000 kr. niður í 2500 kr. Jeg skal taka það fram, að till. er ekki fram borin vegna þess, að jeg líti svo á, að styrk þennan beri í sjálfu sjer að lækka, heldur aðeins samræmis vegna. Álíka till. til bændaskólans á Hvanneyri var feld í hv. Ed., og tel jeg því rjett að gera báðum skólunum jafnt undir höfði. Jeg vil með þessu gefa mönnum tækifæri til þess að bæta úr misrjetti. En út af því, sem sagt var hjer í deildinni um það, til hvers ætti að nota styrkinn, skal jeg geta þess, að í fjárlögum fyrir 1927 fær Hólaskóli 9000 kr. til ýmsra útgjalda, en Hvanneyrarskólinn aðeins 2000 kr. Hvanneyrarskólinn hefir því orðið útundan 2 ár í röð. Það er því enn meira misrjetti í því að láta nú Hólaskóla fá aftur 9000 kr., en Hvanneyrarskóla ekki nema 2500 kr. Og þessi brtt. er því, eins og jeg sagði, borin fram til þess að samræma þetta.

Jeg skal svo út af síðustu till. fjvn., um að veita uppgjöf vaxta og greiðslufrest afborgana á viðlagasjóðsláni Stokkseyrarhrepps, segja nokkur orð. Hvað formið á till. snertir, þá er frá því að segja, að hún er borin fram eftir beiðni oddvitans í Stokkseyrarhreppi. Satt er það, að jeg hefi ekki sjeð skuldabrjefið. Þeir kölluðu það hreppslán, en það er misskilningur, því að það eru einstakir menn, sem hafa tekið lánið, en hreppurinn stendur í ábyrgð. En það ætti að vera alveg það sama fyrir hreppsnefndina, því að vitanlega geta þessir menn ekkert borgað. — Jeg skal rifja upp lítillega, hvernig á því stendur, að þetta lán var tekið. Fiskifjelag Íslands gaf þessum mönnum 5000 kr. upp í hið mikla tjón, sem þeir urðu fyrir af brunanum 9. des., og einnig fór Fiskifjelagið fram á það við stjórnina, að hún gæfi þeim helmingi meira. Það þóttist stjórnin þá ekki geta gert, en hún veitti lán og lofaði að mæla með því, að það yrði gefið eftir. En nú hefir hún gengið á bak orða sinna við þá menn, sem gengust fyrir þessu, og einnig við hreppsnefndina í Stokkseyrarhreppi. Það var gengið út frá því, að þetta yrði gefið strax eftir og skoðað sem styrkur til þessara manna, sem að ófyrirsynju urðu fyrir þessu mikla tjóni af brunanum.

Þessi liður var feldur niður í Ed. meðal annars af þeirri ástæðu, að það væri ekki víst, nema mennirnir kynnu að fá eitthvað fyrir brunann. En jeg get nú fullyrt, að það er alveg útilokað. Maður, sem ekkert á til, hefir játað sig valdan að brunanum, og er ekkert af honum. að hafa. Í öðru lagi var það fært til, að ekki væri loku fyrir það skotið, að mennirnir gætu borgað þetta seinna. En það er vitanlegt nú í vertíðarlokin, að vertíðin á Stokkseyri hefir verið mjög rýr, og það einmitt vegna brunans í vetur. Sú beita, er Stokkseyringar áttu, brann þá öll, svo að þeir gátu ekki notað hana, og varð því afli þeirra mjög rýr. Óbeina tjónið af brunanum er alt að því eins mikið og beina tjónið, eða jafnvel meira.

Jeg skal svo að síðustu gera grein fyrir afstöðu minni til fjárlagafrv. yfirleitt og brtt. meiri hl. fjvn. Jeg er ekki samþykkur brtt. vegna þess, að jeg telji fjárlagafrv. í sjálfu sjer sjerlega ógætilegt, eins og það er nú, ellegar að það út af fyrir sig skifti miklu máli, hvort tekjuhalli er í fjárlögunum eða ekki, sakir þess að það er vitanlegt, að í fjárlagafrv. eru nú afborganir og bein framlög til bankans, sem nema um 800 þús. kr, Fjárhagur landsins þarf því ekki að versna, þó að tekjuhalli sje. En það er annað, sem gerir það að verkum, að jeg er með þessum brtt., og það er, að fjárhagsútlitið er svo svart. Jeg er hræddur um, að tekjuliðir fjárlagafrv. standist ekki, og því vil jeg minka útgjöldin. Þetta er ekkert nýtt fyrir mjer, því að í þingbyrjun, er fjárlagafrv. var tekið fyrir í fjvn., orðaði jeg það við hæstv. stjórn, hvort útgjöldin samkvæmt frv. væru ekki alt of há og óvarleg. Meðal annars beindi jeg þeirri spurningu til hæstv. fjrh., hvort ekki væri ástæða til þess að minka útgjöld frumvarpsins. En hann skelti við því skolleyrunum og sagðist óska þess, að fjárlagafrv. yrði samþ. eins og hann hefði lagt það fyrir þingið. Og af þeim ástæðum fór meiri hl. fjvn. ekki fram á að lækka fjárveitingar þær, sem í fjárlagafrv. stóðu, enda þýddi það ekkert, þegar stjórnin var á móti því, og hún hefir, eins og kunnugt er, meiri hl. í Ed. — Það er rjett, sem báðir frsm. nefndarinnar hafa sagt, að nefndin ákvað að bíða með niðurfærslur allar, þar til fjvn. Ed. hefði sagt sitt álit. En með þessu er það sagt, að nefndin í Ed. á ekki aðrar þakkir í þessum efnum en þær, að henni hefir gengið betur að sannfæra hæstv. fjrh. um það, að hans eigið fjárlagafrv. væri ógætilega hátt. Þess vegna verð jeg algerlega hvað mig snertir að neita því og mótmæla þeim ummælum hæstv. ráðh., er hann var að þakka fjvn. Nd. fyrir sparsemdarstefnu sína, þótt seint kœmi. Stefnan var altaf til, en það var hæstv. fjrh., sem hamlaði okkur að leggja út á þá sparsemdarbraut.

Þegar jeg athuga einstakar brtt. þær, er fram hafa komið, þá verður sjerstaklega fyrir mjer ein brtt., sem jeg vil mæla með, að samþykt verði. Það er brtt. um landsspítalann. Það hvílir engin skylda á þinginu að halda spítalanum áfram. Það er sem sje tekið fram í samningnum, að það megi rifa saman seglin, ef fjárhagsvandræði verða. Nú eru einmitt fjárhagsvandræði fram undan, og hefir Ed. staðfest það, þar sem hún hefir lækkað styrki alla til verklegra framkvæmda. Og þó eru það verklegu framkvæmdirnar, sem hæstv. fjrh. er sárast um og hann hefir lýst yfir, að helst bæri að halda í.

Um vegina er líka það að segja, að til þeirra þarf sama sem ekkert útlent efni. Alt fjeð verður því í landinu sjálfu. En öðru máli er að gegna um fjárveitinguna til landsspítalans, því að þar fara peningarnir út úr landinu, og það verður meðal annars til þess að rýra aðstöðu landsins gagnvart útlöndum og auka skuldirnar þar, sem illa má við, og síst af öllu ættu menn að gera sjer leik að því á því þingi, sem neyðst hefir til þess að samþykkja lög um stórkostlega lántöku í útlöndum. Jeg verð að líta svo á, að sjerstaklega beri að fella niður slíkar upphæðir. Jeg er líka viss um, að þjóðin vill miklu heldur fella slíkt heldur en margt annað, sem til framfara horfir, og sjerstaklega þegar tekið er tillit til þess, að tiltölulega mikið fje er veitt til ýmissa heilbrigðisbygginga. Má þar t. d. nefna Kristneshælið, spítalann á Ísafirði og Hafnarfjarðarspítalann. (TrÞ: Og Klepp!). Þarna er um stórar framfarir að ræða í þessari grein, þó að litlar framfarir hafi orðið í öðrum greinum. Þó að mönnum sje sárt um heilbrigðismálin, þá verða þau þó að standa í hlutfalli við aðrar framkvæmdir. Það er ekki til neins að ætla sjer að komast eins hátt í þessum efnum og menningarþjóðir heimsins. Við erum 100 ár á eftir tímanum í verklegum framkvæmdum og verðum því að sætta okkur við það, að ekki sje alt hjer jafnfullkomið og í útlöndum.

Það hefir í þessu sambandi verið minst á það, að það væri leiðinlegt, ef spítalinn væri ekki kominn upp 1930. En jeg get ekki sjeð, að það sje neinn vansi fyrir landið, þó að það verði ekki. Danir t. d., sú ríka þjóð, fengu ekki ríkisspítala sinn fyr en 1909, en höfðu áður aðeins fæðingarstofnun. En Kaupmannahafnarbúar sáu um spítalana. Öll vandræðin hjer stafa af því, að Reykjavík hefir brugðist skyldu sinni um að sjá Reykvíkingum fyrir sjerstökum spítala. Og ef það er skömm fyrir nokkurn, að spítalinn verður ekki kominn upp 1930, þá er það fyrir Reykjavík.