10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

21. mál, fjárlög 1928

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Mjer virðist, eftir yfirlýsingu formanns Framsóknarflokksins, hv. þm, A.-Sk. (ÞorlJ), að dæma, að ekki sje mögulegt að fá hv. deild til þess að ganga að frv. óbreyttu. Er því ekki annað fyrir hendi en að láta atkvæði skera úr, og treysti jeg þá á loforð hv. þm. A.-Sk., sem mjer þótti vænt um og legg mikið upp úr, — það loforð hans fyrir hönd meiri hl. hv. fjvn., að allar hækkunartill. nefndarinnar verði teknar aftur, ef aðallækkunartill. verða feldar.

Mjer virðist þá, að málið beri svo við, að til atkvæði komi fyrst lækkunartill. hv. meiri hl. fjvn. og svo aðrar, sem eitthvað munar um. Vona jeg þá, að um atkvgr. þessa fari svo, að ekki skerðist heildarútkoma frv. frá því, sem nú er.

Hv. þm. A.-Sk. mintist enn á landsspítalann og fór sömu orðum um brtt. meiri hl. eins og háttv. frsm. (TrÞ) gerði. Báðir vilja halda því fram, að till. feli aðeins í sjer frestun á byggingu spítalans, en það gerir hún ekki, því að stjórnin getur tekið lán til byggingarinnar hvenær sem er. Sami hv. þm. (ÞorlJ) gat þess líka, að hv. fjvn. hefði fyr á þingi komið til hugar að ráðast á þessa fjárveitingu til landsspítalans í því skyni að lækka hana allmikið. En þegar svo komið hefði í ljós, að samningur væri til, sem kvæði svo á, að byggingunni skuli lokið 1930, þá hefði nefndin ekki getað fallist á að bera þetta fram, og meiri hl. því tekið það upp. En yfirlýsing sem þessi þykir mjer næsta undarleg frá formanni hv. fjvn., því að hann, og nefndin yfir höfuð, hefði þó átt að vita allra manna best um þennan samning, sem vitnað hefir verið í í tvennum fjárlögum og er enn tekið upp í frv. fyrir 1928. Í fjárlögunum 1926, 12. gr., stendur: „til byggingar landsspítala í Reykjavík, samkvæmt samningi milli ríkisstjórnarinnar og stjórnar landsspítalasjóðs Íslands“. Sama aths. er við þennan lið í fjárl. fyrir þetta ár.

Þessi samningur, sem hjer er vitnað í, lá fyrir þinginu og hefir verið í höndum hv. fjvn., og samkvæmt honum er ríkissjóði skylt að leggja fram til byggingar spítalans árið 1928. — Byggingu þessa er ekki hægt að fella niður, því að geti ríkissjóður ekki einhverra hluta vegna greitt þessa upphæð, þegar til á að taka, hefir stjórnin heimild til þess að taka lán, svo að byggingunni verði haldið áfram samkv. samningnum. Það er því misskilningur, að hægt sje á nokkurn hátt að stöðva verkið.

Það hefir verið kastað ýmsu að hv. Ed. fyrir afgreiðslu hennar á þessu frv., og þó einkum til hv. fjvn. fyrir till. sínar. Jeg ætla nú ekki að halda uppi miklum svörum fyrir þá háttv. deild, þó að jeg eigi þar sæti og hafi með atkv. mínu stuðlað að því, að frv. tók þeim breytingum, sem raun varð á. En út af ummælum háttv. 1. þm. Rang. (KIJ), að hv. Ed. hefði ráðist á verklegar framkvæmdir og gripið þar til samskonar ráðstafana eins og stundum áður hefir tíðkast, þegar fjárhagsvandræði bar að höndum, þá vildi jeg aðeins segja það, að þar hefir hv. Ed. gætt mjög hófs. Hún hefir ekkert annað gert en að færa þessar upphæðir niður sem líkast því, er stóð í stjfrv. M. ö. o. lækkaði heildarupphæðina sem næst því, er nam hækkun þessarar hv. deildar á frv. En svo mikla sanngirni sýndi hún þessari hv. deild og kurteisi, að hún feldi ekki burt þær fjárveitingar til verklegra framkvæmda, sem komust hjer inn í frv., heldur ljet hún jafnt yfir alla ganga, eða kleip jafnt af fjárveitingum stjfrv. eins og þeim, sem einstakir hv. þdm. höfðu komið inn í það. Mjer finst því, að þessi hv. deild hefði átt að þakka hv. Ed. og með því viðurkenna viðleitni hennar til þess að búa frv. sem best úr garði. Stjórnin vildi ekki eiga þátt í því að koma upp stífni milli deildanna með því að leggja til, að þær till., sem hjer komust inn, yrðu feldar niður, heldur þótti henni sigurvænlegri til samkomulags sú leiðin að láta sama ganga yfir allar fjárveitingarnar, eins og jeg drap á.

Þessi fáu orð vildi jeg vona, að yrðu til þess að draga úr þeim kur, sem orðið hefir hjer vart gagnvart háttv. Ed., og hirði jeg þá ekki um að hafa þau fleiri.