10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

21. mál, fjárlög 1928

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram nokkrar brtt. á þskj. 545, og eru flestar þeirra gamlir kunningjar hjer í hv. deild.

Fyrsta till. mín er um að veita Símoni Jónssyni lítilsháttar styrk til þess að leita sjer lækninga í Danmörku, á heilsuhæli fyrir taugaveiklað fólk. Jeg bar áður fram till. þessa og lýsti þá nánar ástæðum mannsins, svo að jeg tel enga þörf á að endurtaka það nú. Þá fjell till. með eins atkvæðis mun. En jeg kem þó með hana aftur og vil aðeins bæta við, að svo framarlega sem nokkur brtt. á rjett á sjer, þá á þessi að ná samþykki.

Þá er önnur brtt. um að lækka tillag ríkissjóðs til landsspítalans um 50 þús. kr. Hæstv. forsrh. hefir nú lýst yfir, að samkv. samningum verði að verja til spítalans 1928 150 þús. kr. Mjer var ekki kunnugt um, að samningurinn væri þannig úr garði búinn, eins og nú er upplýst. Má því vera, að litla þýðingu hafi að bera till. þessa fram. Þó mun jeg láta skeika að sköpuðu um hana. Verði hún samþ. og stjórnin sjái sjer ekki annað fært en að leggja til spítalans 150 þús. kr., þá verður hún að útvega það fje að láni, sem til vantar, ef ekki verður hægt öðru vísi. Annars finst mjer, að hæstv. stjórn sje í rjetti sínum að verja ekki meira fje til spítalans en tiltekið er í hvert sinn.

Þriðja brtt. mín er um það, að sama upphæð verði veitt til ferju á Hrosshyl og samþ. var hjer við 2. umr. Þessi fjárveiting komst fyrst á í fyrra og þótti í alla staði mjög rjettlát, og við 2. umr. hjer á dögunum var hún samþ. með 20:4 atkv. Mig furðar það því ekki alllítið, að hv. Ed. skuli hafa farið að narta í þessa litlu upphæð, og get því tekið undir það, sem hv. 1. þm. Rang. (KIJ) sagði, að það sje ekki samboðið hv. þingdeild að klípa og narta af smávægilegum upphæðum, sem ætlaðar eru fátækum einyrkjum til þess að greiða fyrir vegfarendum. Því hefir verið skotið að mjer, að þessi styrkur sje ekki í samræmi við aðrar ferjur, t. d. dragferjur, og má það vel vera. En mjer er kunnugt um, að þessi einyrki tefst svo um aðalannatíma ársins vegna ferjunnar, að það vegur lítið upp á móti því, þó að hann fái 300 kr. styrk.

Þá á jeg 2 brtt. undir VIII á sama þskj. Fyrri till. fer fram á 500 króna hækkun á utanfararstyrk Sigurðar Skúlasonar. Hv. Nd. hafði fallist á að veita þessum efnilega námsmanni 2000 kr. utanfararstyrk, en hv. Ed. færði hann niður um helming. Með brtt. minni er lagt til, að styrkur þessi verði 1500 kr., og virðist hann varla geta verið minni, eigi hann að koma að gagni. Það er dýrt ungum mönnum að kosta sig við erlenda skóla, enda mun þessi upphæð hrökkva skamt. Vænti jeg því, að hv. deild, sem tók svo vel í að veita þessum manni 2000 kr. styrk, sjái sjer fært að samþ. þessa brtt. mína.

Seinni liður þessarar till. er um 1500 króna styrk til jarðræktarfjelags Grímsnesinga til þess að kaupa dráttarvjel og plóg til nýtísku jarðyrkjutilrauna. Þetta fjelag, sem telur í sínum hóp ýmsa áhugasama bændur, hefir hug á að útvega sjer verkfæri þessi frá Vesturheimi. Það hefir í þessu efni leitað til Búnaðarfjelags Íslands, en enga áheyrn fengið. Þess vegna hefi jeg farið þessa leið. Hjer er um nýtt verkefni að ræða, sem ekki er hægt að óreyndu að segja um, hvernig muni gefast. En þeir, sem ríða á vaðið og ryðja braut nýjum tækjum, þurfa altaf miklu til að kosta. Og gefist þær tilraunir illa, bera þeir, sem í þær rjeðust, skarðan hlut frá borði. En gefist tilraunirnar vel, hafa þeir á hinn bóginn rutt öðrum braut til meiri framtakssemi. Svo að hvernig sem á þetta er litið, þá eru þó slíkar tilraunir að jafnaði góðra gjalda verðar og þeir menn styrks maklegir, sem fyrir þeim gangast.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Út af þeim orðum, sem fallið hafa, þá get jeg lýst því yfir, að falli aðallækkunartill. þær, sem fram eru bornar, mun jeg ekki halda fram hækkunartill. mínum.