11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. fyrri kaflans (Þórarinn Jónsson):

* Jeg þarf ekki að segja nema örfá orð, því að fyrir nefndarinnar hönd þarf jeg ekki að gera grein fyrir neinum brtt., sem fyrir liggja. Hv. meiri hl. nefndarinnar hefir gert grein fyrir sinni afstöðu, og mín afstaða er á þá leið, að ef samkomulag næst á milli flokkanna, get jeg fallist á að láta gilda það, sem hv. Ed. hefir gert, og ef það verður ofan á, mun jeg taka brtt. mínar aftur. Nú hefir meiri hl. lýst því yfir, að hann vildi heyra undirtektir deildarinnar um stærstu lækkunartillögurnar. Jeg hefi lýst afstöðu minni til stærsta liðsins, fjárveitingarinnar til landsspítalans. Jeg hefi álitið, að ekki væri hægt samnings vegna að fella þann lið niður, og þar sem hv. þm. A.-Sk. (Þorlj) fót út í, að framan af hefði það verið skoðun nefndarinnar, að þann lið væri hægt að fella niður, skal jeg taka fram, að það hefir aldrei verið mín skoðun. Jeg fjekk afrit af samningnum og lagði fyrir nefndina og hjelt því altaf fram, að þar sem um væri að ræða samning, sem þingið hefir viðurkent og staðfest, væri órjettmætt að breyta þessu.

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð út af tillögu minni um Eimskipafjelagið, af því að hæstv. forsrh. hefir gefið mjer tilefni til þess með sínum undirtektum.

Mjer virtist hæstv. ráðh. álíta, að tillagan væri fram komin af óánægju um áætlun fjelagsins, en það er ekki rjett. Jeg áleit, að þegar farið var að fella niður framkvæmdir úr fjárlagafrv., sem þjóðina skifta jafnmiklu og brúagerðir og vega, þá væri jafnrjett að fresta ýmsum framkvæmdum, sem ónauðsynlegri væru. Þó að Eimskipafjelagið kunni í framtíðinni að bíða meiri halla af rekstri „Brúarfoss“ en annara skipa, svo að ástæða væri til, að ríkissjóður styddi það í samkepninni, þá er nægur tími til þess á næsta þingi. En viðvíkjandi óánægju minni um áætlun fjelagsins, þá sýndi jeg fram á, að hún er á rökum bygð. Jeg fjekk í ræðu hæstv. ráðh. viðurkennningu á því, að það, að áætlunin nær ekki til Húnaflóa, er ekki sprottið af ókunnugleika, eins og ætla mátti. Hæstv. ráðh. minti á, að hann á sæti í stjórn Eimskipafjelagsins. En hjer er einmitt um hans fæðingarhjerað að ræða, svo að gera má ráð fyrir, að hann sje þarna manna kunnugastur. Jeg vil líka taka það fram, að hvert einasta útgerðarfjelag, sem semur áætlun, leitar fyrst að flutningsþörfinni, hvar hún sje mest. Jeg hefi sýnt fram á, að meiri flutningsþörf er við Húnaflóa en Skagafjörð. Fæ jeg því ekki sjeð, hvers vegna „Brúarfoss“ á að koma á Sauðárkrók í hverri ferð. Jeg veit ekki til, að þar sje um neinar sjerstakar vörur að ræða, sem þurfi að flytja í kælirúmi. Alt öðru máli er að gegna um Húnaflóa. Þar býst jeg við, að sje um að ræða vörur fyrir 20 –30 þúsundir, t. d. lax, sem þarf að koma í kæliskip, ef þær eiga ekki að liggja verðlausar. Öll þau ár, sem „Gullfoss“ hefir gengið, hefir hann aðeins einu sinni komið inn á Húnaflóa, og var hann þó eina skipið, sem hœgt var að nota í þeim tilgangi, sem mestu skifti fyrir hjeraðið. Flutningsþörfin er því mjög rík. Mjer þykir ein kennilegt, ef Eimskipafjelagið getur ekki sjeð, eða vill ekki sjá, nauðsynina á því að hafa viðkomur á Húnaflóa og jafnvel flytja til áætlunina. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki rjett leið að lækka styrkinn, ef menn vildu fá auknar viðkomur. En jeg setti þetta tvent alls ekki í samband hvort við annað. Annars veit jeg ekki, hver er rjetta leiðin í þessu máli. Jeg byrjaði á þeirri, sem jeg áleit að væri rjettust. Jeg fór sem sje til hæstv. atvrh. og bar málið undir hann, en lítið var á því að græða. Háttv. þm. A.- Húnv. (GÓ) fór svo til forstjóra Eimskipafjelagsins, en fjekk það svar, að reynandi væri að senda almenna bænarskrá. Það er gamla sagan. Viðkomu var lofað í þetta skifti, ef svo og svo margra tonna flutningur fengist. Þetta er ófært. Fjelagið á hagsmuna sinna vegna að gera þetta ótilkvatt, eins og hvern annan sjálfsagðan hlut. Eimskipafjelagið á að hafa viðkomur bæði á Hvammstanga og Blönduósi, einkum að sumrinu til.

Jeg býst við, að ef ekki hefði dregið til þess samkomulags, sem varð um fjárlagafrv., og þessi tillaga hefði komið til atkv., þá hefði verið mikið gert til þess að fella hana. Jeg þykist ekki hafa verið fyrstur manna til þess að sporna við því, að ríkissjóður styrkti Eimskipafjelagið. Þingið hefir ekkert gert til þess að veikja aðstöðu þess, en hinsvegar stendur það betur að vígi nú en áður, þar sem það er búið að greiða hollenska lánið að fullu. Þess vegna álít jeg ekki rjett að auka heimild stjórnarinnar til þess að styrkja fjelagið fyr en komið er í ljós, að nauðsyn beri til þess. Jeg vil biðja hv. þdm. að athuga vel, hvað þeir gera, þegar þeir fella þessa till., eftir að búið er að fella niður ýmsar merkustu framkvæmdir í landinu.

Jeg vil minna á, í sambandi við þennan órjett, sem hjeruðunum við Húnaflóa er sýndur, að þar er meira en lítil hreyfing í þá átt að semja við aðra um vöruflutninga. Hitt verða menn líka að muna, að Húnvetningar hafa einungis notað Eimskipafjelagsskipin, auðvitað fyrst og fremst af þjóðrækni. En þegar þeim er hvað eftir annað misboðið, er ekki undarlegt að þeir verði óþolinmóðir. Í mínu kjördæmi er aðeins einn útflutningsstaður. Jeg hafði farið fram á það áður við hæstv. atvrh., að „Esja“, sem er aðalskipið við Húnaflóa, kæmi þar við. Um þetta voru höfð góð orð, en úr framkvæmdum varð ekkert. Jeg vil leggja áherslu á, að jeg hefi þó ekki flutt tillögu mína í því skyni að vilja Eimskipafjelaginu illa, heldur af því, að jeg áleit hana nauðsynlega vegna annara gerða þingsins.

Jeg vil minna á brtt. mína við 5, gr., sem háttv. þm. N.-Þ. (BSv) gat um. Jeg flutti hana fyrst og fremst af því, að jeg hjelt, að jeg fengi nánari upplýsingar um það, hvað hv. Ed. meinti með því að fella niður þessa fjárveitingu, og hvar sú niðurfærsla ætti að koma niður. En jeg hefi engar upplýsingar fengið. Hinar upphæðirnar eru svo huldar, að jeg sje ekki, að yrði farið að grípa til þeirra. — Reikningar eru komnir og greiðslunni er lofað. Auk þess er aðeins ætlast til, að bygt sje eitt einasta sjúkraskýli. Verði þarna bygt, er auðvitað, að ef klipið er af upphæðinni, er alt gert ómögulegt. En verði ekki bygt, er öðru máli að gegna. Hitt eru greiðslur, sem hafa farist fyrir, af því að fje hefir ekki verið fyrir hendi. Nú er það þó ekki svo, að jeg vilji fyrirmuna Þistilfjarðarhjeraði að fá sinn hlut. Jeg get því tekið aftur brtt. mína, því að brtt. í sjálfu sjer gerir ekkert til, en jeg vil ekki, að hún verði til þess að opna fjárlagafrv. Jeg mun því taka hana aftur, í fyrsta lagi vegna hv. þm. N.-Þ. (BSv) og hans kjördæmis, og í öðru lagi af því, að nú stendur fyrir dyrum atkvæðagreiðsla um lækkunartill. meiri hl. fjvn., en þessi till. kemur fyrst til atkvæða. Ef meiri hlutinn tæki aftur allar sínar tillögur út af henni, teldi jeg illa farið.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.