11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vil aðeins leiðrjetta þann misskilning, sem kom fram í ræðu hv. þm. Str. (TrÞ), að samningurinn við stjórn landsspítalasjóðsins um byggingu spítalans væri ekki bindandi. Hv. þm. (TrÞ) sagðist ekki hafa þekt þennan samning fyr en á þinginu nú, en mjer kemur það talsvert undarlega fyrir, þar sem samningur þessi var lesinn upp orði til orðs í efri deild á þinginu 1925. Var fjárlagafrv. svo breytt í þá átt, sem samningurinn kvað á um. Fór fjárlagafrv. svo aftur til neðri deildar og að sjálfsögðu til fjvn., sem háttv. þm. Str. (TrÞ) átti sæti í. Hlýtur hann því að hafa sjeð þessa breytingu á frv., svo framarlega sem hann hefir gert skyldu sína, að athuga frumvarpið nákvæmlega. Getur þá ekki hjá því farið, að hv. þm. (TrÞ) hafi vitað um þennan samning, en að hann hafi gleymt honum, má vel vera. Hann getur því ekki staðið upp og sagt, að samningur þessi hafi aldrei verið lagður fyrir þingið, þar sem hann hefir verið samþyktur af því, orði til orðs. Að þingið sje bundið af samningi þessum er því ekkert efamál. Hitt er satt, að það er látið laust og óbundið, hvort taka skuli lán til þess að fullnægja honum.

Þá skildist mjer hv. þm. Str. vilja halda því fram, að hæstv. forsrh. (JÞ) hefði ekki farið rjett með, að fjárhúsin á Hólum ættu að byggjast að mestu leyti fyrir fje í fjárlögum 1927. En þetta er alveg rjett. Fjárveitingin til þeirra er í núgildandi fjárlögum, enda þótt stungið sje upp á dálítilli viðbót nú, og þó að leitað hafi verið tilboða í þessa byggingu nú, til þess að sjá, að hve góðum kjörum hægt er að komast, þá fæ jeg ekki sjeð, að það sje nein goðgá.