11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

21. mál, fjárlög 1928

Pjetur Þórðarson:

Það hefir orðið samkomulag milli mín og háttv. þm. Barð. (HK), fyrri flm. brtt. á þskj. 560, að jeg segði nokkur orð um hana.

Nokkuð snemma á þessu þingi bárust hingað erindi frá kjötmatsmönnunum Filippusi Magnússyni og Jóni Guðmundssyni um að fá laun sín hækkuð. Þeir telja laun sín 600 kr. á ári, og geta þess jafnframt, að þau sjeu ófullnægjandi, og færa fram fyrir því aðallega þrjár ástæður. Fyrst og fremst, að þeir sjeu bundnir við starfið 10–12 vikur á ári. Í öðru lagi, að starf þetta sje bundið því skilyrði, að þeim sje ekki heimilt að hafa neinskonar kjötsölu á hendi nje umboð fyrir kjötseljendur. Og í þriðja og síðasta lagi, að starfið útiloki þá frá að hafa önnur föst atvinnustörf á hendi. Um þessa starfsmenn er það að segja, að þeir eru búnir að hafa þetta starf á hendi frá því fyrst, að kjötmat komst á hjer á landi. Annar hefir haft Suðurland, frá Vík í Mýrdal og að Hvammsfirði, en hinn Vestfirði alla, Dali og Hrútafjörð að Hvammstanga. Filippus Magnússon hefir mikinn áhuga fyrir þessu starfi og hefir komið mörgu góðu til leiðar í þessum efnum og er nú viðurkendur fyrir dugnað sinn og áhuga, enda þótt hann væri dálítið illa liðinn fyrst fyrir það, hve strangur hann var um alla verkun kjöts til útflutnings, og hve vel hann vildi leysa starf þetta af hendi. En slíkt er nú alt jafnað fyrir löngu, því að það hefir altaf reynst best, sem hann hefir lagt til í þessu efni.

Hinn maðurinn, Jón Guðmundsson, er fyrsti kjötmatsmaðurinn, sem lært hefir erlendis. Er hann því búinn að vinna lengi að meðferð kjöts. Hann er búsettur hjer í Reykjavík og hefir umdæmi það, sem nær frá Vík í Mýrdal að Hvammsfirði. Má því segja, að umdæmi hans sje allerfitt. En þó er Filippus ver settur, þar sem hann þarf að ferðast um alla Vestfirði og norður á Hvammstanga.

Í fyrra barst samskonar erindi til landbn. Nd. og var þá frá fleiri kjötmatsmönnum. Hún mun þá hafa tekið þá ákvörðun, að þrír af fimm fengju einhverja uppbót, en sú ákvörðun mun aldrei hafa komið til framkvæmda. Nú gerði landbúnaðarnefnd þessarar deildar, sem erindið fjekk til umsagnar, tilraun til að afgreiða málið á þann hátt að leggja til við atvrh., að hann sæi um, að menn þessir gætu fengið einhverja ákveðna launauppbót. En í gær barst mjer, sem formanni nefndarinnar, brjef frá ráðherranum, þar sem hann telur sig ekki hafa heimild til að greiða þessa uppbót. Vegna þessarar yfirlýsingar ráðherrans er það, að við berum fram þessa brtt. Við gerum dálítinn mismun á uppbótinni til þessara tveggja manna, því að það er alment viðurkent, að Filippus eigi að fá meira, þó að þeir sjeu vitanlega báðir fullkomlega þess maklegir að fá þessa uppbót.

Jeg ætla ekkert að fara að blanda mjer í þær umræður, hvort rjett sje eða viðeigandi að fara að breyta fjárlagafrumvarpinu frá því, sem nú er. En það verð jeg þó að segja, að jeg tel það enga sjálfsagða kurteisi eða siðferðilega nauðsyn að ganga að frumvarpinu eins og það kom frá efri deild. Þess vegna leyfi jeg mjer að leggja til, að þessar till., sem jeg flyt, verði þó að minsta kosti samþyktar. Og fyrir mitt leyti heiti jeg engu góðu um að styðja það, sem meiri hl. fjvn. hefir lofað að gera, ef lækkunartillögur hans verða ekki samþyktar.