11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. síðari kaflans (Tryggvi Þórhallsson):

Hæstv. ráðh. hafa nú báðir flutt ræður til þess að veita nokkur andsvör þeim orðum, sem jeg sagði hjer áður, og þykir mjer kurteisi að segja þar nokkur orð í móti. Jeg ætla þó ekki að fara út í smáatriði, eins og fjárhúsin á Hólum, því að það atriði var upplýst af hæstv. atvrh. (MG). En jeg ætla aðeins að koma að því atriði, hvort haldið verði áfram með landsspítalann, og að þeim almennu atriðum, sem hæstv. fjrh. (JÞ) nefndi um afgreiðslu fjárlaganna.

Jeg vil leyfa mjer að benda á það, að hæstv. forsrh., sem sat fyrir svörum í þessu máli, segir söguna þannig frá þinginu 1925: Fyrst var till. til þál. samþykt, og síðan var samningurinn gerður. Þetta er þá grundvöllurinn undir röksemdafærslu hæstv. ráðh. Jeg hefi hjer fyrir mjer þingtíðindin frá 1925, þar sem þessi þingsályktun kemur til umr. í Nd. 30. apríl og er svo afgreidd frá deildinni 1. maí. Hún er prentuð hjer í A- deild þingtíðindanna sem afgreidd frá Nd. 1. maí, en samningurinn er dagsettur 24. apríl. Þetta, sem hæstv. ráðh. (JÞ) hefir borið hjer fram um þetta mál, að þál. hafi fyrst verið samþykt, og að svo hafi samningurinn verið gerður, er þá bersýnilega rangt. Samningurinn er gerður viku áður en þál. er samþykt, svo að þessi undirstaða er algerlega röng.

Hæstv. ráðherra beindi því til mín, að það mundi verða þungt fyrir mig að bera ábyrgð á því gagnvart kjósendum mínum, að jeg hefði ekki þekt þennan samning. Jeg taldi það víst, að samningurinn hefði verið gerður á grundvelli þessarar þál., og að þetta mundi eiga að gerast, ef ófyrirsjáanleg fjárhagsvandræði ríkisins gerðu það ekki ókleift, að samningnum yrði fullnægt. Jeg ætla mjer að vera óhræddur við að ganga út frá því, að það verði staðið við það, sem í þál. stendur. En hæstv. stjórn getur borið ábyrgðina á því, að það er búið að skuldbinda ríkið til að leggja í þetta fyrirtæki meira en eina miljón króna nú á næstunni. Hæstv. stjórn getur bundið sína flokksmenn á þann klafa, en við Framsóknarmenn munum ekki binda okkur, eins og hæstv. forsrh. hefir gert, og það ættu hans flokksmenn ekki heldur að gera.

Hæstv. ráðh. sagði síðan, að jeg hefði sagt nokkur háfleyg orð um afgreiðslu fjárlaganna; en jeg vil þá gjarnan grípa tækifærið, því að jeg álít, að það fari ekkert illa á því nú, til þess að segja nokkur orð um afgreiðslu fjárlaganna, sem þá verða þau, að það, sem jeg fyrst og fremst finn þessari stjórn til foráttu, er það, hver svipur hefir verið yfir því, hvernig hún hefir litið á fjármál ríkisins. Það er sem sje þannig ástatt, að fjárlögin eru að meðaltali 21/2 milj. kr. hærri en áður, og útgjöldin að meðaltali 4 milj. króna hærri en áður tíðkaðist, og samhliða þessu eru þær drápsklyfjar lagðar á þjóðina, að verðgildi íslenskra peninga er hækkað um meira en 50%. Jeg álít, að vegna þessarar frammistöðu og þessarar afgreiðslu á fjárlögunum eigi þessi stjórn að vera dauðadæmd hjá þjóðinni.

Síðast sagði hæstv. ráðherra nokkur orð um það, hverja afstöðu jeg ætti að hafa gagnvart þeim fjrh., sem Framsóknarflokkurinn setti, þegar hann tæki við stjórninni. Mjer þykir gott að fá tækifæri til að bera það saman, hvaða afstöðu hæstv. fjrh. á sínum tíma hafði gagnvart fyrirrennara sínum í stöðunni, og hvaða afstöðu jeg hefi nú gagnvart hæstv. fjrh. Jeg man það vel, hvaða afstöðu hæstv. fjrh. þá hafði, því að það er vegna orða, sem lengi munu fræg verða. Hæstv. ráðh. sagði það um fyrverandi stjórn, að hún ætti ekki skilið að fá tekjuhallalaus fjárlög. Þá var það skoðun hæstv. ráðh., að hann, vegna fjandskapar við stjórnina, ætti ekki að gegna sinni þingmannsskyldu að afgreiða fjárlögin varlega. En mín afstaða er sú, að vera frsm. þeirrar fjvn., sem setur sjer það takmark að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög, og jeg get sagt hæstv. fjrh. (JÞ) það, að jeg er albúinn, hvenær sem er, að leggja þessa afstöðu mína undir dóm þjóðarinnar.