11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

21. mál, fjárlög 1928

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það voru aðeins fá orð til hv. þm. Str. út af 5. ræðu hans nú í þessu máli. Hann hjelt því fram, að samningurinn um að reisa landsspítalann hvíldi ekki á traustum grundvelli. En þetta er ekki rjett. Samningurinn hvílir á þeim grundvelli, að hann var gerður af stjórninni og Alþingi samþykti hann mótmælalaust. Jeg var rjett áðan, á milli funda, að fara í gegnum umr. um málið og gat ekki fundið nokkur mótmæli gegn samningnum. Hann var lesinn upp frá upphafi til enda og finst allur í þingtíðindunum. Þetta sýnir, að samningurinn var álitinn hvíla á traustum grundvelli, enda var ekki hægt að undirbúa hann betur.

Hv. þm. (TrÞ) sagði, að jeg hefði gert mig sekan um missögn, þar eð þál. hefði ekki verið samþ. af þinginu. Þegar samningurinn var gerður. Þetta er að vísu rjett, en hún var samþykt í hv. Ed. með samþykki allra flokka. Það var búið að tala svo mikið um þetta í þinginu, að það var vitanlegt, að það yrði alt samþykt, enda varð enginn til þess að taka til máls hjer í hv. Nd. um þáltill.

Hv. þm. (TrÞ) sagði, að þó að hann hefði verið málinu fylgjandi áður, þá væri það ekkert undarlegt, þó að hann væri það ekki nú, þar eð aðstaðan væri breytt. Það er ekki annað breytt en það, að nú er ákveðið, að alt það fje, sem safnast hefir, skuli lagt í bygginguna. Jeg fæ ekki sjeð, að sú breyting sje svo mikilvæg. Jeg held, að hv. þm. hefði, ef hann var andvígur samningnum í byrjun, átt að nota gömlu regluna, sem hann vafalaust þekkir frá prestsskaparárum sínum, um hjónalýsingar, að segja til í tíma eða þegja ella.

Jeg geri ráð fyrir því, að hæstv. forsrh. (JÞ) svari hv. þm. (TrÞ) að því er snertir skatta þá, er Íhaldsflokkurinn hafi lagt á landsmenn, og skal því ekki fara út í það nánar.