02.03.1927
Neðri deild: 19. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Á síðari árum hafa oft heyrst raddir um það hjer á Alþingi, að nauðsyn bæri til að endurskoða og umbæta ýms eldri lög, af því að þau væru orðin úrelt og ekki við hæfi nútímans. Þetta hefir oft heyrst í sambandi við fátækralögin, enda eru þau yfir 20 ára gömul. En þótt raddir þessar hafi oft heyrst hjer á Alþingi, bæði um fátækralögin og önnur eldri lög, þá hafa þær ekki æfinlega átt við jafngild rök að styðjast. Að vísu verður því ekki neitað, að sum ákvæði í eldri lögum hafa átt erfitt að samlaga sig nútímanum. En þó verður hinu ekki neitað, að mörg þessara eldri laga, sem menn hafa krafist endurskoðunar á, eru ítarlegri og gleggri en sum hinna nýrri laga. Og jeg hygg, að nútíminn geti margt lært af eldri tímanum, einmitt í þessum efnum, að búa til skýr og glögg lagaákvæði.

Stjórnin hefir nú orðið við tilmælum eldri þinga og endurskoðað fátækralögin. Hún hefir yfirleitt gert fáar stórvægilegar breytingar á fátœkralögunum, og sýnir það, að vel hefir verið til laganna vandað í upphafi, enda neitar því víst enginn.

Allshn. hefir athugað frv. og ræður til að samþykkja það með dálitlum breytingum. Jeg skal geta þess, að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) hefir nokkra sjerstöðu í málinu og flytur sjerstakar brtt. á þskj. 65.

Enda þótt allshn. beri fram nokkuð margar brtt. á þskj. 56, eru þær ekki mikilvægar, flestar aðeins orðabreytingar, sem skýra sig sjálfar.

Um efnisbreytingar þær, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frv., skal jeg fara nokkrum orðum. Fyrsta efnisbreytingin er við 22. gr. par er svo fyrir mælt, að sá maður, sem orðinn er 65 ára gamall, fylgi þeirri framfærslusveit, er hann þá á. Nefndin hefir fært aldurstakmarkið niður í 60 ár og finst það í meira samræmi við önnur yngri lög, t. d. það, að maður er talinn verkfær til sextugs aldurs, sbr. vegalög nr. 41, 4. júní 1924, 14. sbr. 18. gr. Virðist fara vel á, að þetta tvent fari saman.

Þá er önnur efnisbreyting við 38. gr. — Jeg þarf ekki að geta þess, að breytingin á 28. gr. (16 ár, f. 10 ár), er aðeins leiðrjetting á prentvillu. — Nefndinni þykir ekki rjett, eins og ákveðið er í 38. gr., að eigi megi aðrir en þeir innansveitarmenn, er gjalda til sveitar, kæra yfir illri meðferð þurfamanna. Nefndin leggur til, að þetta ákvæði falli burt. Ekki þykir nefndinni heldur rjett að ákveða, að rannsókn um slík brot fari fram eingöngu á manntalsþingum. Þau eru háð aðeins einu sinni á ári, og mundi þetta ákvæði því geta leitt til þess, að lítil eða engin rannsókn færi fram. Að vísu er ráð fyrir gert í frv., að rannsókn megi flýta, ef um glæpsamlegt athæfi sje að ræða. Nefndin leggur til, að um þessi mál skuli fara eins og almenn lögreglumál.

Þá gerir nefndin brtt. við 43. gr. Það er víst alveg rjett, sem segir í aths. stjórnarinnar við 43. gr. frv., að meginástæða þess, að krafist var endurskoðunar á fátækralögunum, hafi verið það, að menn missa rjettindi, kosningarrjett o. fl., ef þeir hafa þegið af sveit. Í 29. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt, að enginn skuli hafa kosningarrjett til Alþingis, sem skuldar fyrir þeginn sveitarstyrk. Þetta hefir þótt hart gagnvart þeim mönnum, sem þurfandi verða af óviðráðanlegum orsökum. Stjórnin hefir gert tilraun til að leiðrjetta þetta, komið með nýmæli, sem gerir greinarmun á afturkræfum og óafturkræfum sveitarstyrk. Samkv. þessu nýmæli í 43. gr. frv. er sveitarstjórn skylt, þegar hún veitir sveitarstyrk, að kveða svo á, að styrkurinn skuli ekki afturkræfur af styrkþega, þegar þær ástæður eru fyrir hendi, að styrkþega verður ekki gefið að sök, að hann hefir orðið að þiggja af sveit. Skulu sveitarstjórnir meta þessar ástæður í hvert skifti, sem þær veita styrk. Þegar styrkur er ekki afturkræfur, er ekki um „skuld“ að ræða og þá ekki heldur neinn rjettindamissi samkv. stjórnarskránni.

Jeg skal játa, að jeg er ekki allskostar ánægður með þessa lausn á málinu, sem hæstv. stjórn hefir stungið upp á. Jeg sje ýmislegt athugavert við þetta fyrirkomulag. Misrjetti gæti vel átt sjer stað, bæði innansveitar og milli sveita. Þannig gæti maður, sem hefði öll rjettindi í einni sveit, mist þau í annari, þótt ástæður hans væru þær sömu. Einnig geta af þessu hlotist innbyrðis deilur hjá sveitarstjórnum, sem enginn fengur er í að fá. En jeg skal líka fúslega játa, að þetta er ekki hægt að lagfæra samkvæmt stjórnarskránni, nema með einhverjum líkum leiðum og stjórnin hefir stungið upp á. Nefndin athugaði ýmsar leiðir, m. a. svipaða leið og hv. 4. þm. Reykv. (HjV) stingur upp á; en að lokum varð að samkomulagi með meiri hl. hennar að láta þetta ákvæði stjórnarinnar haldast að mestu óbreytt, lofa því að reyna sig. Nefndin hefir þó gert eina breytingu. í frv. er það lagt á vald dvalarsveitar einnar að úrskurða, hvort styrkur skuli afturkræfur eða ekki. Nefndinni þótti ekki rjett, að framfærslusveit yrði að lúta dvalarsveit í þessu efni, þar sem það er framfærslusveitin, sem ber þyngstu byrðina. Hún gerir því þá brtt., að dvalarsveit megi ekki ákveða, að styrkur skuli afturkræfur, nema með samþykki sveitarstjórnar í framfærslusveit hlutaðeiganda.

Fjórða efnisbreyting nefndarinnar er við 52. gr. Hún er smávægileg að vísu, aðeins að í stað „læknis“ komi: hjeraðslæknis. Virðist rjettara, þegar krafist er læknisúrskurðar í svona tilfellum, að sá úrskurður sje gefinn af hjeraðslækni, sem er embættismaður.

Við 58. gr. hefir nefndin borið fram tvær brtt. Hún vill hækka upp í 300 krónur þá upphæð, sem áskilið er að maður hafi þegið af dvalarsveit, til þess heimilt sje að flytja hann á framfærslusveit sína, en leggur jafnframt til, að niður falli orðin: „og bersýnilegt sje, að hann sje kominn á stöðugt sveitarframfæri“. Hyggur nefndin, að með þessu yrði komið í veg fyrir misnotkun í þessum efnum, sem hefir átt sjer stað, einmitt vegna þessa ákvæðis. Það er ósk meiri hluta nefndarinnar, að þessir tveir liðir sjeu bornir upp til atkv. báðir saman.

Þá leggur nefndin til, að önnur málsgrein 65. gr. falli burt. Álítur hún það ákvæði úrelt, þar sem Ísland er nú orðið fullvalda ríki.

Fleiri efnisbreytingar hefir nefndin ekki lagt til að gerðar yrðu. Um brtt. einstakra þm. geymi jeg að ræða þar til þeir hafa talað fyrir þeim. Að svo mæltu legg jeg til fyrir hönd nefndarinnar, að hv. deild samþykki frv. með þeim breytingum, sem nefndin hefir borið fram.