02.03.1927
Neðri deild: 19. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg hefi ekki ástæðu til annars en vera þakklátur þeim hv. þm., sem hafa tekið til máls viðvíkjandi tillögum nefndarinnar. Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) gerði ágreining í nefndinni út af 9. brtt., þar sem það er ekki eingöngu lagt á vald dvalarsveitar að ákveða, hvort styrkur skuli vera óafturkræfur eða ekki, heldur er það líka lagt undir samþykki framfærslusveitar. Það kann að vera rjett, að stundum þekki dvalarsveitin betur ástæður mannsins. Þó mun það oft vera svo, að framfærslusveitin þekkir ýmsar ástæður betur, hún þekkir menn nákomna þurfalingnum í sveitinni, og staði, sem gott væri að koma honum fyrir á, o. fl. En aðalástæðan, sem þessi hv. þm. gengur alveg fram hjá, er sú, að skyldan hvílir að mestu á framfærslusveitinni, og því er það ekki nema sanngjarnt og rjettmætt, að hún hafi nokkurn íhlutunarrjett um þetta.

Við 14. brtt. hafa ýmsir hv. þm. komið fram með mótmæli, svo sem hv. 1. þm. Rang. (KIJ) og hæstv. atvrh. (MG). Það er ekki rjett, sem fram hefir komið, að tilgangur nefndarinnar sje sá, að gera hægara fyrir en nú er að fá menn flutta fátækraflutningi. Ætlun nefndarinnar var að koma í veg fyrir misbrúkun. Það mundi oft eiga sjer stað misbrúkun, þegar á að skera úr því, hvort „bersýnilegt“ sje að maður sje kominn á „stöðugt“ framfæri. Nefndin vill hjer fara með alveg, hækka styrkupphæðina og fella svo deiluákvæðið burtu.

Að því er snertir brtt. hv. 4. þm. Reykv., skal jeg fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar geta þess, að hann er ekki samþykkur 1. brtt. hans, þar sem hann leggur til, að tillög húsbænda hækki úr 1 kr. upp í 5 krónur. Þetta þykir meiri hlutanum of stórt stökk. Það hefði verið hyggilegra fyrir hv. þm. að reyna einhvern meðalveg, t. d. 2 krónur. Jeg býst við, að sumum kunni að þykja 1 króna of lágt, en flestir munu sammála um, að 5 kr. sje of hátt. Annars hygg jeg, að það sje svo miklum erfiðleikum bundið að fá hjú í vist til sveita, að það sje ekki á þá bætandi, og það sje ekki spor í rjetta átt stigið að reyna að auka þá, með því að gera skyldur húsbændanna strangari.

Aðalbrtt. þessa hv. þm. er við 43. gr. Nefndin reyndi á marga vegu í nokkuð svipaða átt sem þessi hv. þm. fer hjer, en gat ekki komist að neinni viðunandi niðurstöðu. Hv. þm. fer hjer út í öfgar, eins og hann sje sannfærður um, að tillagan nái ekki fram að ganga. Þótt margir kunni að æskja þess, að þau atvik sjeu fastbundin, sem gera það að verkum, hvort styrkur er afturkræfur eða ekki, þá munu þó allir vera sammála um það, að brtt. þessa hv. þm. ganga svo langt, að ekki er nokkurt viðlit að samþykkja þær. Það er rjett, sem hæstv. atvrh. tók fram, það mun vera ilt að finna leið, sem allir geta verið sammála um. En höfuðmótbáran móti þessari brtt. er þó sú, að þar er enginn greinarmunur gerður á því, hvort maðurinn er framfærsluþurfi vegna atvika, sem honum eru sjálfráð eða ekki; það er enginn munur gerður á reglumanni og óreglumanni. Þetta finst mjer ekki rjettlátt, og virðist mjer þetta þung mótbára gegn brtt. hv. 4. þm. Reykv.

Þá fór þessi hv. þm. mörgum orðum um fátækraflutninginn, og í sama streng tók hv. 1. þm. Rang. (KIJ). Hann gekk jafnvel lengra og vildi engan fátækraflutning hafa. Hv. 4. þm. Reykv. játaði þó í niðurlagi ræðu sinnar, að erfitt mundi vera að losna við fátækraflutninginn, eins og fátækramálunum væri nú fyrir komið. Jeg vil nú segja, að það sje ómögulegt að losna við hann, eins og nú stendur. Jeg skil ekkert í því, hvernig hv. 1. þm. Rang., sem þekkir þetta mál mörgum betur, ætlar sjer að losna við fátækraflutninginn, án þess að gerbreyta fyrirkomulagi fátækraframfærslunnar, þannig, að alt landið verði gert að einu framfærsluhjeraði, en til þess þarf að gerbreyta lögunum meira en hjer er um að ræða.

Annars var það ekki viðeigandi, eins og hv. 4. þm. Reykv. gerði, að koma fram með einstök dæmi, án þess að skýra þau nánar. Mjer virtist, sem sumt af fólkinu, sem hann talaði um, væri geðveikt, og er ekki gott að koma með slík dæmi. Annars virtist hann frekast ákæra bæjarstjórnina í ræðu sinni. Þar á hann sæti, og væri því betur viðeigandi, að hann bæri fram ákærur sínar þar en hjer.

Þá vil jeg minnast á brtt. þær, sem hv. þm. Barð. (HK) flytur á þskj. 64. Get jeg lýst því yfir fyrir hönd nefndarinnar, að hún telur þær flestar svo veigalitlar, að ástæðulaust sje að samþykkja þær, en sumar þó heldur til ills. 1. brtt. hans fer fram á að fella burtu millisetningu úr 7. gr. Jeg tel ekki rjett að fella þetta burtu, því að þessar ástæður geta verið fyrir hendi, sem dvalarsveit ein veit um. Auk þess hefir hv. þm. víst ekki veitt eftirtekt annari málsgrein sömu greinar, þar sem þurfaling er trygður rjettur til þess að áfrýja úrskurði sveitarstjórnar. Um 2. brtt. er það að segja, að nefndin telur hana til hins verra. Það virðist ekki ástæða til þess að verðlauna hjú fyrir ótilhlýðilega breytni, en það virðist vera gert með þessari brtt. Þá er 3. brtt. um að fella 34. gr. niður. Nefndin getur ekki fallist á þá brtt., en vill lofa greininni að standa. 4. brtt. er við 43. gr., um að setja „heimilt“ í stað „skylt“. Hjer er um að ræða rjettindi, sem nefndin vill skylda sveitarstjórnirnar til þess að skera úr strax, en ekki setja þeim í sjálfsvald, hvort þær vilja nota eða ekki. Það er rjett hjá hv. þm., að a-liður 5. brtt. við 57. gr. er fluttur í samráði við mig. En nefndin sjer ekki ástæðu til að mæla með b-lið brtt. Hún álítur, að með því sje greitt fyrir deilum um þetta efni, en að því vill hún ekki stuðla. Hún álítur nógu tryggilega um þetta búið í greininni.

Jeg hefi nú svarað öllum þeim, sem gert hafa aths. við brtt. nefndarinnar, og farið í gegnum brtt. annara hv. þm. Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta, en treysti hv. þdm. til þess að taka till. nefndarinnar. Vænti jeg þess, að hægt verði að ganga til atkvæða áður en fundi slítur í dag.