02.03.1927
Neðri deild: 19. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) spurði, hvenær málið um drenginn í Fljótum hefði borist til stjórnarráðsins. Því miður man jeg ekki dagsetninguna, en jeg skal segja hv. þm. hana við 3. umr. þessa máls, ef hann minnir mig á það.

Hv. þm. lætur svo sem engum þurfi að þykja afstaða hans undarleg til þessa máls. En í nál., sem hann hefir skrifað undir, stendur, að hann áskilji sjer að mega hafa sjerstöðu um einstök atriði, og að bera fram brtt. um þau. Síðan leggur öll nefndin til, að frv. sje samþykt. Get jeg ekki skilið það öðruvísi en sem skuldbindingu frá hv. þm. um að vera með frv. Það væri að vísu skiljanlegt, þótt tvær grímur færu að renna á hann, ef allar hans brtt. væru feldar; en áður en þær eru feldar getur hann ekki með rjettu talað um till. til þál. um þetta efni, þar sem hann leggur sjálfur til, að frv. sje samþykt.

Mjer skilst, að hv. þm. vilji fá frest um vantrausttill., sem hann lofaði í gær. Hann um það. En ef jeg man rjett, kvartaði hann í byrjun þings yfir því, að hann hefði vont sæti, og mætti þá ef til vill geta þess til, að hann vilji fá það sæti, sem jeg nú hefi. Mun ekki standa á mjer um sætaskiftin, ef hv. þm. (HjV) sýnir, að hann hafi meira traust í deildinni en jeg. En ef hann heldur, að hans traust sje meira en mitt, ætti hann að sannreyna það sem fyrst með því að flytja vantrauststill. nú þegar.