04.03.1927
Neðri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

6. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson:

Mjer þykir leitt, að hv. allshn. skuli ekki geta fallist á brtt. mínar eða aðalhugmynd þá, sem þær byggjast á. Jeg verð að taka undir með þeim, sem telja allar breytingar, sem fyrir liggja, mjög lítilfjörlegar, að mínum fráskildum, jafnmiklir gallar sem eru þó á því ástandi, sem núgildandi lög hafa skapað. Mínar brtt. eru róttækastar af þeim brtt., sem fram eru komnar, og vinna bug á göllunum á þann hátt, sem jeg lýsti í gær. Jeg bjóst nú við því, af því hve menn eru fúsir að játa galla á núgildandi lögum, að menn mundu vera fúsir til að taka til nákvæmrar athugunar allar leiðir til umbóta. En hjer virðist mjer koma fram hik og þorleysi gagnvart öllu nýju. Mjer virðist það bera vott um deyfð eða alvöruleysi að vera að tala um galla, en vilja þó ekki gera alvarlegar tilraunir til umbóta. Menn vilja láta grundvallarskipulag liðins tíma haldast. En með því er loku fyrir það skotið, að bætt verði úr göllunum, því að þeir eru bein afleiðing af skipulaginu.

Það hefir mikið verið rætt hjer um vankvæði við fátækraflutninginn. En mjer virðist þess ekki hafa verið gætt, að hann er bein afleiðing af sveitfestiákvæðunum, eins og þau hafa verið og eru hugsuð í frv., og sjálfsvörn framfærsluhjeraðsins gegn órjettlátum lögum. — Það má framkvæma hann á mannúðlegan hátt, en hjá honum verður ekki komist með því skipulagi, sem nú er á fátækramálunum. — Fátækraflutningurinn er sár og rjettarskerðing fyrir þá, sem fyrir honum verða, en því má heldur ekki gleyma, að þeir, sem framfæra, hafa líka persónurjett, og jeg verð að telja varhugaverðara að ganga á þeirra rjett en hinna.

Jeg gæti skilið hinar daufu undirtektir undir brtt. mínar, ef þær væru frumhugsaðar af mjer, þá gæti jeg skilið, að hv. þdm. teldu það vafasamt, að þær væru á glöggri hugsun bygðar. En þessar breytingar hafa verið í huga ýmsra vitrustu og bestu manna, sem um þessi mál hafa hugsað sjerstaklega, þótt álit þeirra hafi aldrei náð meiri hluta á Alþingi. Þó að frv. þetta nái fram að ganga með einhverjum af þessum óverulegu breytingum, sem fyrir liggja, þá geta hv. þm. reitt sig á, að það verður ekki nema stundarfriður. Það líður þá ekki á löngu áður en þess verður aftur krafist, að lögunum verði breytt.

Þá skal jeg víkja lítið eitt að hinum sjerstöku athugasemdum, sem fram hafa komið. Það er þá fyrst hæstv. atvrh. (MG). Honum skildist, að ekki væri fult samræmi í framsetningu brtt. minna. Jeg skal ekki neita því, að svo geti verið. Jeg tók það fram í upphafi, að þær þyrftu athugunar við einmitt að því leyti, því að jeg hafði nauman tíma til þess að koma þeim á framfæri til 2. umr. Jeg skal geta þess, að þar sem jeg tala um „sveitfesti“ og „framfærslurjett“, þá meina jeg hið sama með báðum þessum orðum, og finst það mega vera svo. En annars mun jeg athuga þessar brtt. betur til 3. umr.

Þá skal jeg víkja að frsm. allshn. (JK). Hann fór nú ekki ítarlega inn á brtt., en gat þess, að nefndin sæi sjer ekki að svo komnu fært að mæla með þeim. Hann talaði líklega um að stytta dvölina sem skilyrði fyrir sveitfesti, en taldi varhugavert að stíga skrefið til fulls, því að afnám sveitfestitímans mundi leiða til þess, að samþykkja yrði bygðarleyfi. Jeg neita því ekki, að þetta sje rjett. Er jeg setti þessar till. fram, þá hafði jeg í huga þáltill. þá, sem komin er fram hjer í þinginu um það að endurskoða fyrirmæli þau, er lúta að skyldu manna til þess að eiga lögheimili, og láta athuga, hvort ekki sje rjett að veita sveitar- og bæjarfjelögum rjett til þess að hafa eftirlit með og e. t. v. takmarka innflutning fólks. Þessi hugmynd um bygðarleyfi er ekki ný og ekki bundin við mínar tillögur og virðist þó eiga mikil ítök í hugum manna. Hygg jeg, að ekki verði hjá því komist að setja frekari ákvæði um þetta en nú eru. Þar með er ekki sagt, að það þurfi eða eigi að eigi að vera svo ströng ákvæði eða strangar skorður — nokkur þrælalög. — Jeg álít einmitt, að slík löggjöf eigi að liggja á þeim takmörkum að vera heldur of væg en of ströng, en þar fyrir getur verið þörf á að setja um það skýlaus og glögg lagaákvæði. Þá álít jeg og, að það þurfi að setja skýr og glögg fyrirmæli um skyldu manna til þess að eiga lögheimili. Það mun nú að vísu vera svo nú, að hver maður sje skyldur til þess að eiga lögheimili. En jeg hygg, að lítið sje eftir því gengið, að þessu sje fullnægt. Það ætti að koma því svo fyrir, að hver maður væri skyldur að sýna og sanna, hvar svo sem hann er staddur, hvar hann eigi lögheimili.