04.03.1927
Neðri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

6. mál, fátækralög

Jakob Möller:

* Hv. frsm. allshn. (JK) og hæstv. atvrh. (MG) hafa báðir beint til mín orðum, en jeg get svarað þeim báðum í einu lagi. Hv. frsm. sagði, að aðalbreytingarnar, sem gerðar hefðu verið á lögunum, væru eftir kröfum um endurskoðun þeirra. En eins og síðar upplýstist í deildinni, eru ýmsar kröfur, sem hæstv. stjórn hefir alls ekki litið á. Hæstv. stjórn hefir eingöngu litið á þessa einu kröfu, um að sveitarstyrkur svifti menn ekki kosningarrjetti. Það vill þannig til, að þetta var sú krafan, sem eðlilegast hefði verið, að hæstv. stjórn hefði ekki átt við, vegna þess að hjer er um að ræða stjórnarskráratriði, sem verður ekki breytt, nema með stjórnarskrárbreytingu. Bæði hæstv. ráðh. og hv. frsm. neita, að með þessu sje gerð tilraun til þess að fara í kringum stjórnarskrána. Mig furðar mjög á því, að þessir háttvirtu herrar skuli geta látið sjer detta í hug, að það megi fara í kringum hana. Hitt er rjett, að það hafa verið gerðar undantekningar, það er að segja, að með lögum hefir verið ákveðið, að þessi eða hinn styrkur skuli ekki skoðaður sem sveitarstyrkur. Þeir, sem standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, eiga ekki að hafa kosningarrjett. Hjer er ekki tillaga um, hvort styrkurinn skuli vera eða ekki vera sveitarstyrkur, heldur um það, hvort hann sje afturkræfur eða ekki. Hvernig á að komast fram hjá, að þarna sje verið að fara í kringum stjórnarskrána? Með þessu á að koma því svo fyrir, að mennirnir hafi kosningarrjett. Mjer skilst, að þessir háttvirtu herrar vilji gera enn frekari tilraun í þessa átt, sem sje með því jafnvel að setja í lög heimild handa sveitarstjórnum til að veita lán, sem ekki sje talið sveitarskuld, þannig að menn haldi kosningarrjettinum eftir sem áður. Jeg verð að efast um, að þetta sje leyfilegt, og býst við, að það tíðkist ekki til muna. Þetta, sem frv. leggur til, verður ranglátt og ófullnægjandi, því að það er einmitt í flestum tilfellum svo, að þar, sem mestar líkur eru til að fá styrkinn endurgreiddan, er mest mest ástæða til þess að menn sjeu ekki sviftir kosningarrjetti. Ef ætti að gera undantekningar, eins og gert hefir verið t. d. um sjúkrakostnað o. fl., þá er leiðin sú, eins og hv. 4. þm. Reykv. (HjV) stingur upp á, að hafa sjerstök ákveðin skilyrði. Þó að tillögur hans sjeu ekki fullkomlega viðunandi, þá má vel samþykkja þær hjer og breyta þeim í betra horf til 3. umr. En það er einfaldast viðvíkjandi kosningarrjettinum að vera ekki að fást við hann í sambandi við þessi lög, heldur gera breytingar á stjórnarskránni, einkum þar sem hæstv. stjórn hefir nú lagt slíkt frv. fyrir þingið. En þó að samþykt verði eitthvað svipað þessu, fullnægir það ekki kröfunum, og sama óánægjan verður, eða meiri.

Annað atriði, sem hefir legið á bak við kröfurnar um endurskoðun fátækralaganna, er hreppaflutningurinn og krafan um að afnema hann. Við því hefir ekki verið hróflað, af því sjálfsagt, að hæstv. stjórn hefir ekki álitið það rjett. Hún hefir álitið núverandi fyrirkomulag gott og gilt, eða að minsta kosti þóst viss um, að Alþingi mundi ekki fylgja breytingu í þá átt. En mjer skilst, að þetta muni stafa af því, að ekki muni hafa verið athuguð leið til þess að koma þessu í framkvæmd án þess að gera verulega breytingu á fyrirkomulaginu nú. Það var strax talin eina leiðin til þess að losna við hreppaflutninginn að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) hefir nú gert tillögur til þess að losna við hreppaflutninginn, án þess að landið verði gert að einu framfærsluhjeraði. Að vísu er jeg þeim ekki fylgjandi og álít heppilegast að fara mína leið. Jeg skil ekkert í því, að hvorki hv. frsm., hæstv. atvrh. nje hv. 2. þm. Eyf., sem er mjer þó að mörgu leyti sammála, skyldu sannfærast um, að sú leið er ákaflega auðveld og sanngjörn. Það er enn þá enginn greinarmunur gerður á þessari leið og hinni, að sveitarstyrkurinn sje allur borgaður af framfærsluhjeraðinu. Það er sagt eins og áður, að þetta sje ókleift fyrir framfærsluhjeraðið. Þó benti jeg á leið og vildi, að kostnaðurinn yrði metinn og honum síðan skift niður. (Atvrh. MG: Hver á að meta?). Það er hægt að fela sýslumanni það. Framfærslusveitin bæri síðan nokkurn hluta kostnaðarins, en ef munurinn yrði of mikill fyrir framfærslusveit og dvalarsveit, getur ríkissjóður borgað þann hluta.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) segir, að það sje ómögulegt að taka til einstakra atriða án þess að raska grundvellinum. Jeg þykist ekki fara fram á neina grundvallarbreytingu. Það er aðeins undantekning viðvíkjandi því, að þurfamenn dvelja á öðrum stað en í framfærslusveitinni. Frv. gerir ekki ráð fyrir þessu, en jeg skil ekki, að hv. 2. þm. Eyf. geti ekki greitt atkvæði með þessum breytingum, af því að hann þykist vita, að frekari breytingar komi á eftir. Það er að vísu þetta óformlega við málið, að frv. verður ófullkomið á vissu stigi milli 2. og 3. umr., en slíkt mun oftar hafa komið fyrir.

Það er eins og jeg segi: Spurningin er um vilja þingsins. Vill það afnema hreppaflutninginn eða ekki? Það er hægt að gera án nokkurrar byltingar eða stórvægilegra breytinga.

Hv. 2. þm. Eyf. er mjer sammála um kosningarrjettinn, og þarf jeg ekki að fara frekar inn á það atriði. Hann skýrði það nákvæmlega og vel.

Hæstv. atvrh. talaði sjerstaklega um, að menn þyldu illa það mannúðarleysi að flytja börn hreppaflutningi. Jeg hefi ekki heyrt mikið um það talað, heldur um almennan hreppaflutning, einkum á fullorðnu fólki. Blessuð börnin finna ekki svo mikið til þess, og það er oft svo, að þau lenda á betri stöðum en þau hafa áður verið í. En allur er þessi flutningur leiðinlegur, og væri mjög æskilegt að geta losnað við hann. Og það er auðvitað sjálfsagt að líta eftir því, að sæmilega sje farið með börn þurfamanna.

Mjer finst mínar tillögur ákaflega ljósar. Jeg er sannfærður um, að ef menn vilja ekki fara eftir þeim, er það ekki af því, að það sje svo erfitt frá laganna sjónarmiði, heldur af hinu, að þeir vilja engu verulegu breyta. En þá er líka best að játa það og verja ástandið eins og það er nú og segja kosti þess.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.