15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

6. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla að byrja með að geta þess, að brtt. á þskj. 80, sem jeg bar fram við 2. umræðu, eru teknar aftur, en koma nú fram í nýrri mynd og endurskoðaðar á þskj. 113. Tilgangurinn með till. er að eyða annmörkum þess ástands, sem skapast hefir af ákvæðum þeirra laga, sem í gildi eru um þetta. Jeg hefi lýst þessu við 2. umr. og sje því ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka það nú.

Komnar eru fram aðrar brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV) á þskj. 115, sem hann hefir gert grein fyrir, og miða þær að því sama og brtt. mínar, en eru róttækari. Þar er lagt til, að afnema þá skifting landsins í fátækrahjeruð, sem nú er. Jeg get, eins og jeg hefi áður sagt, fallist á, að hugsunin, sem bak við liggur, sje rjett, en jeg óttast, að þetta mundi leiða af sjer meiri fátækrabyrði en nú er. Því mæli jeg heldur með mínum brtt. Jeg veit ekki, hvorar brtt. verða fyr bornar undir atkvæði. Ef hans till. verða fyr bornar upp, þá mun jeg greiða atkvæði á móti þeim í þeirri von, að mínar verði samþyktar. En ef mínar till. koma fyr til atkvæða og verða feldar, þá mun jeg greiða atkvæði með hans till., að svo miklu leyti, sem þær snerta sama efni og mínar. Um aðrar brtt. ætla jeg ekki að tala. Jeg mun með atkv. mínu sýna afstöðu mína til þeirra.