15.03.1927
Neðri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Allshn. hefir borið fram 4 smávægilegar brtt. við frv. á þskj. 117, og þarf jeg ekki að fjölyrða mikið um þær. 1. brtt. er við 7. gr. frv., um að 2. mgr. þeirrar greinar falli burt. Þetta er bein afleiðing af því, sem hv. deild gerði hjer við 2. umr. Þá er 2. brtt. við 11. gr. Nefndin vill, að tillag húsbónda til hjús, sem liggur sjúkt utan heimilis, verði hækkað úr 1 kr. upp í 2 kr. Þetta er nokkurskonar miðlunartillaga, því við 2. umr. kom fram till. um að tillagið skyldi vera 5 krónur, en það virtist nefndinni of hátt. Því fór hún fram á meðalveg. Hinar tvær till. eru orðabreytingar, sem óþarfi er að fjölyrða um.

Þá hefir hv. 4. þm. Reykv. (HjV) flutt nokkrar stórfeldar brtt. við frv. á þskj. 115 og aðrar smærri á þskj. 126. Stærst er 2. brtt. á þskj. 115 við 20. gr. frv., en hún fer fram á að gera ríkið að einu framfærslufjelagi, og að sjerhver íslenskur ríkisborgari eigi framfærslurjett í dvalarsveit sinni. Hv. þm. er ekki lengi að framkvæma þær hugsanir, sem hann kom fram með við 2. umr., honum finst ekki ástæða til neinna rannsókna áður en til framkvæmda kemur. Í sambandi við þessa aðaltill. hans þarf að skoða 13. brtt. hans, við 52. gr., sem fer fram á einskonar niðurjöfnun á framfærslukostnaðinum. Þar er sagt, að eigi síðar en 1. febrúar skuli sveitarstjórnirnar gefa atvinnumálaráðuneytinu yfirlit yfir framfærslukostnað þann, sem þær hafa haft á árinu, og síðan á atvinnumálaráðuneytið að jafna niður samanlögðum fátækrakostnaði allra sveita landsins á hverja sveit, að hálfu eftir samanlögðu skattmati fasteigna í sveitinni í samanburði við skattmat allra fasteigna í landinu, að hálfu eftir samanlagðri fjárhæð skuldlausra eigna og tekna af eign og atvinnu í sveitinni í samanburði við samanlagðar tilsvarandi fjárhæðir á öllu landinu. Jeg geri nú ráð fyrir, að mikið megi um þetta deila, hvort þetta sje sanngjarnt eða rjettlátt, þegar til lengdar lætur, en jeg skal ekkert um það deila nú, því að það kemur ekki til nokkurra mála, að Alþingi samþykki þetta nú, að órannsökuðu máli. Þegar atvinnumálaráðuneytið hefir gert áætlun um niðurjöfnunina, á það svo að fara á stúfana og innheimta tillög hjá þeim sveitarfjelögum, sem hafa greitt of lítið, og endurgreiða þeim sveitum, er of mikið hafa greitt. Jeg geri ráð fyrir, að með þessu fyrirkomulagi verði fyrirhöfnin og skriffinskan svo mikil, að fresturinn til 1. júlí fái naumast staðið, en það er aukaatriði. Aðalatriðið er það, að með þessu virðist stuðlað að því, að bruðlað verði með fje til fátækraframfærslu. Ef þetta verður samþykt, er með því beinlínis ýtt undir sveitarfjelögin að fá endurgreiðslur, í stað þess að þurfa að endurgreiða eitthvað til annars sveitarfjelags. Þetta er aðalmótbáran á móti þessari brtt., og meiri hl. allshn. getur alls ekki mælt með því, að slík breyting verði samþykt. Ef Alþingi vill ganga inn á þá braut að gera alt landið að einu framfærslufjelagi, og jeg fyrir mitt leyti hygg, að það sje rjettmætt, þá þarf fyrst að koma ítarleg rannsókn á málinu og till. svo að byggjast á þeirri rannsókn. Það má ekki knýja fram svona stórfeldar breytingar að órannsökuðu máli.

Aðrar brtt. hv. 4. þm. Reykv. eru smávægilegri og hefir meiri hl. nefndarinnar óbundin atkvæði um þær. Það eru tvær brtt. við 43. gr. Hin fyrri fer fram á, að sveitarstjórnirnar geti hvenær sem er gefið upp sveitarstyrk. Eftir núgildandi lögum mega þær gera það þegar 5 ár eru liðin frá veitingu styrksins, en stjórnin hefir fært það niður í 2 ár. Hv. þm. kann illa við að fara svona meðalveg og hefir viljað taka skrefið fult með sinni brtt. Þetta er að vísu ekki stór breyting, en jeg álít hana þó heldur til hins verra og tel hyggilegra að fara meðalveginn. Þá kemur nokkurskonar viðaukatillaga við 43. gr. Samkv. 43. gr. frv. er sveitarstjórnum skylt að kveða svo á, að sveitarstyrkur sje ekki afturkræfur, ef viss skilyrði eru fyrir hendi, m. a. elli, ómegð, heilsuleysi o. fl. Hv. þm. vill taka út úr þessu vissa elli, vissa ómegð og vist heilsuleysi og segja, að styrkur sá, sem slíkum mönnum er veittur, skuli ekki teljast sveitarstyrkur. En jeg hygg, að svo geti farið, að með þessu fremji hv. þm. meira ranglæti en hann ætlar sjer. Jeg álít, að rjettara sje að láta sveitarstjórnirnar hafa óbundnar hendur um málið. Þessi brtt. tekur vissa flokka út úr, og þar með er grundvellinum kipt undan mati sveitarstjórnanna. Það sjest ekki, hvort dvalarsveit getur krafið framfærslusveit um þessa upphæð, en ef svo er, þá getur stafað ruglingur af þessu ákvæði.

Þá er brtt. við 48. gr. frv., þar sem hv. þm. vill fella niður heimild framfærslusveitar til þess að láta barnsföður afplána ógreitt barnsmeðlag. Þetta ákvæði var áður fyrri lengi í lögum, en var afnumið með lögunum 1905. Oft hefir heyrst síðan, að það væri illa farið, að þetta ákvæði hefði verið afnumið. Ástæðan til þess, að þetta er tekið upp nú, er sú, að kunnugt er, að margir barnsfeður vanrækja að greiða meðlögin, þótt þeir geti. Jeg tel sjálfsagt að heimila framfærslusveit þvingunarráðstafanir, ef barnsfaðir vanrækir skyldur sínar í þessu efni. Jeg skal geta þess, að meiri hl. allshn. er á móti þessari brtt.

Um brtt. á þskj. 126 frá sama hv. þm. skal jeg ekki fjölyrða. Meiri hl. allshn. hefir óbundin atkvæði um þær. Jeg fyrir mitt leyti gæti verið með seinni brtt., en síður með hinni fyrri. Jeg tel hana óþarfa, því að það er oftar, að börnum er gert gott með því að koma þeim fyrir á góðum heimilum.

Þá kem jeg að brtt. hv. 1. þm. N.- M. (HStef). Jeg skal ekki rökræða þær hjer nú, jeg skýrði frá afstöðu allshn. til þeirra við 2. umr. Nú eru þær komnar hjer aftur, að vísu með breyttu orðalagi, en efni þeirra er óbreytt. Jeg þarf því ekki að endurtaka það, hvers vegna allshn. getur ekki aðhylst þær. Jeg skal svo ekki hafa mál mitt lengra. Jeg vænti, að atkvgr. geti orðið lokið í dag og hv. þdm. verði meiri hl. allshn. samdóma um brtt.