16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

6. mál, fátækralög

Bernharð Stefánsson:

Jeg gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa máls við 2. umr. og þarf því ekki að segja nú nema örfá orð. Jeg tók það fram þá, að jeg áliti þessa löggjöf, sem ráðgert er að setja í þessu efni, heldur þýðingarlitla, þar sem frv. er að mestu uppprentun á eldri lögum, og líka af hinu, að jeg teldi þá einu breytingu, sem máli skiftir, frekar til hins lakara. Það er nefnilega sú breyting, sem felst í 43. gr., um að ákveða, hvort fátækrastyrkur skuli afturkræfur eða óafturkræfur. Og jeg verð að segja, að því meira sem jeg hefi hugsað um þetta mál síðan, hefir frekar styrkst þessi skoðun mín. Mjer virðist, að ef sveitarstjórnir eiga að fara að meta það í hvert skifti, sem sveitarstyrkur er veittur, hvort hann skuli vera afturkræfur eða óafturkræfur, þá sjeu þær settar í æði mikinn vanda. Og það er nú oft svo, að þegar menn hafa sagt a, þá verða menn að segja b. Jeg get búist við, að í framkvæmdinni yrði það svo um allfesta, að fátækrastyrkur þeirra skyldi verða óafturkræfur. En það álít jeg fyrir mitt leyti algerlega rangt, að þau lán, sem sveitarfjelög veita til einstakra manna, skuli ekki vera afturkræf eins og hverjar aðrar skuldir, ef atvikin haga því svo, að hlutaðeigandi verður vel fær til að greiða skuldina einhverntíma í framtíðinni.

Jeg gat þess við 2. umr., að þessi till. er ekki fram komin vegna þess, að slík tilhögun þyki eðlileg eða heppileg í sjálfu sjer, heldur er það vegna þess, að hjer er blandað saman algerlega óskyldum málum: veitingu fátækrastyrks og kosningarrjetti. En vegna þess, að þessu tvennu er blandað svona óheppilega saman, þá verður niðurstaðan eftir því. Mjer hefði nú fundist, að þegar fátækralögin væru endurskoðuð og setja ætti nýjan lagabálk um þetta efni, að þá hefðu ýms þau vafaatriði, sem rædd hafa verið að undanförnu og tillögur eru uppi um, átt að vera tekin til rækilegrar athugunar og endurskoðunar. Jeg hefði óskað, að full afstaða hefði verið tekin til fleiri atriða en gert er í þessu frv. Má þar nefna það atriði, sem minst var á bæði við 2. umræðu þessa máls og líka í hittiðfyrra, þegar hjer var á ferð tillaga um skipun milliþinganefndar til þess að athuga þessi efni. Það er misrjettið milli sveitarfjelaga, hvað fátækraframfærsla hvílir misþungt á þeim. Mjer finst það atriði svo mikilvægt, að það þyrfti gaumgæfilegrar rannsóknar við. Nú er að vísu komin fram brtt. við frv. frá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), sem fer fram á að afnema þetta misrjetti algerlega, með því að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Jeg verð að segja, að þrátt fyrir það, þótt jeg óski, að leiðir væru rannsakaðar til þess að draga úr þessu misrjetti, þá treysti jeg mjer ekki til að greiða atkvæði með slíkri stórbreytingu, vegna þess að jeg hefi engin gögn til þess, að jeg geti gert mjer grein fyrir, hvaða fjárhagslegar afleiðingar hún myndi hafa. Býst ekki heldur við, að sú brtt. verði samþ.

Sama er að segja um annað atriði, sem jeg sje ekki betur en hefði þurft mjög gaumgæfilegrar athugunar, en það er sveitfestispursmálið. Þetta frv., eins og það kom frá hæstv. stjórn, gerir ekki ráð fyrir neinni breytingu á sveitfestitíma eða neinu, er þar að lýtur. En þó er það vitanlegt, að ýmisleg óánægja er uppi um þetta og tillögur um breytingar. Hjer liggja fyrir brtt. frá hv. 1. þm. N.-M., um það, að lögheimili skuli ráða, hvar maður sje sveitfastur. Jeg býst nú við, að þótt þessar till. hafi verið lagðar hjer fram, þá hafi verið alt of skammur tími til undirbúnings og rannsóknar, og ekki sje jeg mjer fært að greiða atkv. með þeim að svo komnu. Geri jeg sem sagt ráð fyrir, að þær nái ekki samþykki heldur.

Það liggur þá þannig fyrir, að það er engin von til þess, að löggjöfinni verði breytt svo nokkru máli skifti að öðru leyti en því, að sveitarstjórnum verður heimilað að ákveða, hvort sveitarstyrkur skuli endurkræfur eða ekki. Mjer finst þetta nú engin rjettarbót, og sje því ekki ástæðu til þess að setja nýjan lagabálk til þess að koma svona óeðlilegri breytingu í kring, — þar sem tilgangi slíkrar breytingar mætti ná alt aðra leið og miklu eðlilegri en þarna er lagt til.

Þar sem því svo er ástatt, að jeg tel frv. eins og það liggur fyrir til engra bóta, en á hinn bóginn liggja ýmist fyrir eða hafa verið orðaðar tillögur um gagngerða breytingu á fátækralögunum, — sem þó engin von er til að gangi fram nú, — þá þykir mjer rjettara að afgreiðsla málsins bíði, heldur en að fara að samþ. þessi lög nú, meðal annars vegna þess, að ef nú verða sett ný fátækralög, þá geri jeg ráð fyrir, að það muni ganga erfiðar að fá á næstu árum gerðar nauðsynlegar breytingar heldur en ef um gömul fátækralög væri að ræða.

Jeg fyrir mitt leyti hefi tekið það ráð, að jeg ætla mjer að greiða atkv. móti þessu frv. Mjer hafði komið í hug að flytja rökstudda dagskrá þess efnis, að deildin ljeti þann vilja í ljós, að málið skyldi taka til nýrrar rannsóknar. En jeg býst við, að þar sem þetta er stjfrv., þá hefði það ekki borið mikinn árangur að vísa málinu aftur til þeirrar sömu stjórnar, sem leggur það fyrir Alþingi, og hætti jeg því við að flytja slíka till. til rökstuddrar dagskrár.