16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

6. mál, fátækralög

Pjetur Þórðarson:

Jeg verð að kannast við, að jeg hefi ekki haft mikinn tíma til þess að setja mig inn í þetta mál, sem þó hefði þurft, þar sem um er að ræða svo mikilvægt og alment mál sem fátækralöggjöf er. Jeg reyndi samt að fylgjast það með meðferð málsins við 2. umr., að jeg gaf atkv. þeim brtt., sem jeg áleit frv. vera til bóta, en ljet á hinn veginn hlutlaust, hvernig færi um samþ. hinna einstöku greina frv.

En þetta mál hefir nú skýrst betur og betur fyrir mjer, eftir því sem á hefir liðið umræðurnar og fleiri brtt. hafa komið fram. Og jeg verð að kannast við, að skoðanir mínar um þetta mál hafa fallið einkennilega vel saman við skoðanir hv. 2. þm. Eyf. (BSt), eins og hann ljet þær uppi í síðustu ræðu sinni. Mjer þykir leitt, að ekki hefir verið hægt að fá gögn eða tíma til að gera þær rannsóknir í meðferð málsins hjer, sem hv. 2. þm. Eyf. nefndi, og þó öllu heldur, að ekki hefir verið farið út í það við undirbúning málsins, sem þurft hefði til þess að fá um það nokkurn veginn ákveðna vissu, hvort ekki væri vel tiltækilegt að fara þá leið í þessu máli, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) heldur fram í till. sínum. Hv. frsm. (JK) hefir einmitt bent á það, að nefndinni hafi ekki þótt gerlegt að leggja til, að þessar till. fengju framgang; og sjerstaklega vegna þess, að engin rannsókn hefði farið fram á því, hvort leiðin væri tiltækileg. Þessi leið hefir oft verið orðuð og ýmsir hugsað gott til þess að koma þessum málum þannig fyrir. Hæstv. atvrh. hefir aðeins sagt það um þessa leið, að hann hefði hugboð um, að hún væri ekki tiltækileg, af ákveðnum ástæðum, sem hann nefndi. Hafa vitanlega ýmsir fleiri verið sömu skoðunar um þetta mál. En málið er alveg órannsakað. Þess vegna er ekki víst, að þessi ímyndun um það, að illa fari á að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði, eigi fullgild rök bak við sig, ef þetta væri rannsakað til hlítar.

Jeg ætla ekki að eyða tíma þingsins til að tala langt mál um þetta. Aðeins þótti mjer viðkunnanlegra að láta þess getið, áður en málið er afgreitt hjer út úr deildinni, að jeg, af þeim ástæðum, sem jeg nefndi áðan og mun ekki endurtaka eftir hv. 2. þm. Eyf. (BSt), get ekki greitt atkvæði með þessu frv. Þó þætti mjer nokkru nær að fylgja frv., ef brtt. hv. 1. þm. N.-M. (HStef) yrðu samþ., en er samt engan veginn vel ánægður með þær.