16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

6. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson:

Út af þeim athugasemdum, sem hæstv. atvrh. (MG) gerði við brtt. mínar á þskj. 113, vil jeg segja nokkur orð.

Hann sagði fyrst, að sveitfesti mundi oft verða óviss, ef mínar till. yrðu samþ., því að óvíst gæti verið um lögheimili manna. Þetta kann að vera, en þó er það nú svo, að allir eru skyldir til þess að eiga lögheimili einhversstaðar. Það er þá illa gengið fram í því að framfylgja lögunum, ef menn geta skotið sjer undan því. Þá þótti honum betri till. hv. 4. þm. Reykv., að dvalarstaður skyldi ráða sveitfesti. En ef svo væri ákveðið, þá gæti það orðið hömlur á atvinnuleit manna frá heimili sínu til annara hjeraða, en slíkar hömlur má ekki setja með löggjöf.

Þá fanst honum, að orðið „sveitfesti“ ætti ekki heima í frv. eftir mínum brtt. vegna þess, að sumstaðar væri talað um framfærslurjett, og sveitfesti og framfærslurjettur væri eitt og sama. Þetta get jeg ekki fallist á. Sveitfestin er jafnlöng og heimilisfang, hvort sem það er lengra eða skemra. Orðið sveitfesti er sameiginlegt heiti yfir framfærslurjett einstaklingsins og framfærsluskyldu framfærsluhjeraðsins, og má það orð því ekki niður falla.

Þá er í brtt. mínum ákvæði um það, að þeir, sem eru orðnir 60 ára, haldi sinni sveitfesti þaðan í frá. Þetta taldi hæstv. atvrh. mótsögn við annað, sem í brtt. mínum stendur. En það vakti fyrir mjer, að sá maður, sem er orðinn sextugur, hefði þennan rjett fram yfir aðra, — að það væri trygt, að engar hömlur væru lagðar á það, að hann gæti átt heimili, hvar sem hann vildi. Brtt. þessi er alveg sjerstakleg, og þótt hún verði feld, hefir það engin áhrif á aðalatriðin í brtt. mínum.

Þá er 7. brtt., við 26. gr., um sveitfesti ekkju. Þar er svo fyrir mælt, að hún haldi sveitfesti manns síns, þangað til hún hefir sjálf unnið sjer framfærslurjett. Það getur verið, að það sje óþarfi að taka þetta fram, en það getur þó engu spilt. Við fráfall manns verður ekkja hans sjálfstæður aðili gagnvart framfærslusveitinni, í stað þess, að hún var áður aðili með manni sínum vegna hjónabandsins. Þetta sama gildir um fráskildar konur. En ef það þykir óþarft, sem jeg held þó að ekki sje, þá held jeg ekki fast við það.

Það má vera, að ósamræmi sje á milli 2. og 8. brtt., ef mínar brtt. verða samþyktar, og að þá verði óþörf 29. gr. frv. Það vakti aðeins fyrir mjer að breyta til samræmis orðalaginu. Jeg mun nú eftir bendingu hæstv. atvrh. (MG) leyfa mjer að leggja hjer fram skriflega brtt., um að 29. gr. frv. falli niður, sem jeg vona, að hæstv. forseti beri undir hv. þd., hvort koma megi til atkv.

Jeg get tekið undir það, sem aðrir hafa sagt, að frv. sjálft og breytingar þess á núverandi löggjöf eru bæði lítilsverðar og vafasamar. Er því vafasamt, að jeg geti fylgt frv., ef brtt. mínar ná ekki fram að ganga.