19.03.1927
Efri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

6. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Jeg hafði vænst þess nú, er á ný fór fram endurskoðun á fátækralögunum, að gerðar yrðu víðtækar breytingar á gildandi skipulagi. En hjer má segja, að borin sjeu fram þau lög, er nú gilda, að langsamlega mestu leyti óbreytt.

Allar kröfurnar um breytingar á fátækralögunum, alt frá árinu 1917, hafa farið í þá átt, að nema það úr gildi, að styrkurinn svifti menn kosningarrjetti, er hann væri veittur vegna ómegðar eða elli, og jafnframt að afnema sveitarflutning. Hefir það ekki síður verið heimtað. Undanfarin ár hafa verið borin fram ýms frv. til laga um breytingar á fátækralögunum, en ekki náð fram að ganga. 1 fyrra var slíku frv. vísað til stjórnarinnar í trausti þess, að hún athugaði og endurskoðaði fátækralögin.

Og nú er þetta frv. borið fram! Í því er algerlega sama stefna og í gildandi lögunum. Aðeins eru ofurlitlar ívilnanir um það, að menn missi ekki kosningarrjett, þótt þeir þiggi af sveit, því að sveitarstjórnum er undir vissum kringumstæðum heimilað að ákveða, að styrkur skuli ekki afturkræfur. En gallinn er sá, að þarna er styrkþega enginn rjettur trygður, því að hjer verður aðeins um mat að ræða, sem framkvæmt er af fátækrastjórnum í hverjum hreppi. Þetta eru slæm fyrirmæli. Hæstv. landsstjórn hefði heldur átt að setja í frv. ákvæði það, sem krafist hefir verið, — skýlausan rjett handa styrkþega. Ákvæði stjfrv. um þetta voru eitthvað lagfærð í háttv. Nd., enda þótt sú brtt., sem mest vitið var í, væri feld.

Sennilega má þó það athugaverðasta við frv. teljast það, að fyrirkomulag fátækramálanna helst alveg óbreytt. Þykir mjer það leitt, því að eins og nú er tefja engin mál sveitar- og bæjarstjórnir eins og þessi. Það mun ekki um of í lagt, að 1/3 af því verki, sem afkastað er í hreppsnefndum og t. d. á skrifstofum kaupstaðanna, fari í rekistefnu út af þessu, — auk alls þess hugvits og bragða, sem sveitarstjórnir neyta, til þess að koma af sjer ómögum yfir á aðra. Hjá öllu þessu hefði verið hægt að komast, ef fallist hefði verið á það að gera landið alt að einu framfærsluumdæmi. — Hæstv. landsstjórn hefði átt að leggja sig í líma til þess að koma með till. um slíkt skipulag. Að vísu má segja, að hægt sje að koma með slíkar till. á Alþingi, en bæði er tími þess naumur og aðstaða landsstjórnarinnar betri til að vinna að slíku.

Jeg er því alls ekki þakklátur hæstv. stjórn fyrir þetta frv. Mjer finst það ekki einu sinni svara til þeirra vona, er háttv. flokksbræður hæstv. atvrh. (MG) gerðu sjer, eða þóttust gera sjer, er þeir vísuðu frv. um þessi efni til stjórnarinnar í fyrra. Jeg held, að hæstv. stjórn hefði betur gert að láta vera með að koma með þetta frv., og hefði eins mátt bíða þess, að aðrir hefðu af frjálsum vilja borið fram fátækralagafrv., sem betur fylgdist með kröfum tímans.