19.03.1927
Efri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg mátti vel vita það, að háttv. 5. landsk. (JBald) væri ekki ánægður með endurskoðun þessara laga. Hann hefir á undanförnum þingum flutt við þau margar brtt., sem engar eru hjer upp teknar. Jeg bjóst raunar við, að það mundi ögn lægja í hv. þm. (JBald) ákafann, að hann Ijet bera fram flestar þessar brtt. í hv. Nd., — að vísu í nokkuð bættri mynd, — og þar voru þær allar drepnar.

Það eru aðallega tvö atriði, sem fundið hefir verið að í gildandi fátækralögum og óskað hefir verið athugunar á, það, að sveitarstyrkur sviftir menn atkvæðisrjetti, og fátækraflutningurinn. — Um fyrra atriðið fer stjfrv. fram á, að mat sveitarstjórna verði látið skera úr, og á að sveita styrkinn án kröfu um endurgjald, ef sveitarstjórn þykir ástæða til, sökum elli, ómegðar eða veikinda hlutaðeigandi manns. Nú hefir úr tveim áttum komið fram vantraust á sveitarstjórnum í þessu efni. Hv. 5. landsk. heldur, að styrkurinn verði alt of sjaldan eftir gefinn, en hv. 2. þm. Rang. (EJ) heldur, að það verði gert alt of oft. Jeg býst nú við, að reynslan fari þarna mitt á milli. Jeg treysti sveitarstjórnum vel til að segja um það og betur en öðrum, hvenær kenna megi mönnunum sjálfum um, að þeir verða að leita á náðir sveitarfjelaganna. Jeg skil ekki vel mótbárurnar gegn þessu ákvæði. Helst virðist eitthvað að marka þá mótbáru, að framkvæmdin verði ef til vill ekki eins á öllu landinu. En það er nú svo um framkvæmdir allra laga, að þær eru ekki alstaðar eins. Hvernig er t. d. um dómarana? — Það verður ekki til annars en að tefja þingið, að fara nú að bera hjer fram einhverjar „fastar reglur“, eins og hv. 5. landsk. (JBald) hefir talað um. Þær till. hafa þegar komið fram í hv. Nd. og verið strádrepnar þar.

Um fátækraflutninginn tók stjórnin upp í frv. sitt gildandi reglur. En háttv. Nd. herti enn fastar á þeim ákvæðum. Jeg sje því ekki, að það hefði þýtt mikið, þótt stjórnin hefði borið þessar till. fram ögn linari. Frv. mundi nú líta eins út fyrir því.

Hv. 5. landsk. (JBald) mintist á þá tillögu, að gera landið að einu framfærsluhjeraði. Sú till. kom fram í hv. Nd., og voru það aðeins sárafáir, sem fylgdu henni. Jeg man reyndar ekki fyrir víst, hvort það voru fleiri en hans eini flokksbróðir. Og það er náttúrlega hrein fjarstæða að vera óánægður við stjórnina, þótt hún flytji ekki tillögur, sem hún bæði er mótfallin og veit, að ekki hafa fylgi í þinginu. Um fátækraflutninginn sjerstaklega vil jeg benda á, að jeg er þeirrar skoðunar, að ekki sje unt fyrir sveitarfjelögin að komast af án ákvæðanna um hann, því að það verða drepandi þyngsli fyrir einstök sveitarfjelög, ef þau eiga að halda uppi stórum fjölskyldum í kaupstöðunum; og jeg get sagt hv. 5. landsk. það, að það má oft telja það stórlán fyrir börn, sem eru að alast upp hjer í kjallaraholum í Reykjavík, að komast upp í sveit, þar sem þau geta haft miklu hollari aðbúð, og jafnvel eignast reglulega fósturforeldra. Það er oftast talað um fátækraflutninginn eins og eitthvert böl fyrir börnin, en jeg held, að hann sje oft mikil hepni fyrir þau.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara neitt út í ræðu háttv. 2. þm. Rang. (EJ). Hann sneri sjer aðallega að breytingum, sem gerðar hafa verið á frv. í hv. Nd., og fanst mjer hv. þm. kveða þar fullhart að, og held jeg, að þær sjeu ekki svo slæmar, sem hann vildi láta líta út fyrir.