10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

6. mál, fátækralög

Ingvar Pálmason:

Það er dálítið erfitt að átta sig á þessu frv., því að þær breytingar, sem á því voru gerðar við 3. umr. í Nd., hafa ekki verið færðar inn í frv. sjálft, og verður maður því við atkvæðagreiðslu að hafa fyrir sjer frv. sjálft, breytingar Nd. og auk þess brtt. allshn. þessarar deildar.

Jeg hefi reynt að gera mjer grein fyrir, hvernig frv. liggur fyrir, og jeg verð að játa, að mjer virðast vera á því gallar, sem skifta svo miklu máli, að ekki sje rjett að afgreiða málið á þessu þingi. Það er 43. gr., sem er mjer mestur þyrnir í augum. Í upphafi greinarinnar er kveðið svo á, að sveitarstjórn skuli skylt um leið og hún veitir styrk að úrskurða, hvort hann skuli afturkræfur eða ekki. Jeg álít, að sú hlið, sem að framfærslusveitinni snýr, sje hjer ekki nægilega vel athuguð. Það er altaf vandi að ákveða, hvort styrkur skuli afturkræfur, en þó er mestur vandi að gera það um leið og hann er veittur. Það ber oft svo brátt að um slíkar styrkveitingar, að ekki er nægur tími til að athuga til hlítar, hvort styrkurinn skuli afturkræfur. En mjer skilst, að þeim ákvörðunum, sem teknar eru í upphafi, verði ekki breytt. Nú vitum við, að stærsti útgjaldaliður framfærsluhjeraðanna, þ. e. sveitar- og bæjarfjelaga, er mjög víða fátækraframfærslan. Mestur hluti þess kostnaðar gelst að vísu ekki aftur, en þó talsvert. Þegar gengið er frá lögum sem þessum, verður að sjá um, að rjettur sveitanna til endurkröfu á greiddum styrk sje ekki fyrir borð borinn meira en sanngirni krefst. Verst felli jeg mig við, að ákveða þurfi um leið og styrkur er veittur, hvort hann skuli endurkræfur. Jeg veit, að þetta ákvæði er komið inn til þess að koma í veg fyrir óverðskuldaðan rjettindamissi styrkþega, og vil á engan hátt draga úr þeim rjetti, sem styrkþega er með þessu ætlaður. En þess verður að gæta, þegar einum eru fengin rjettindi í hendur, að ekki hljótist af rjettindamissir annars. Jeg held, að hjer sje farin röng leið. Ákvæði um það, hverjir hafi kosningarrjett og hverjir ekki, eiga að standa í stjórnarskránni, en ekki að ákveðast á þennan hátt. Hv. allshn. hefir gert tilraun til að bæta úr þeim galla, sem er á þessari grein, og viðurkent þar með, að hún finnur, að þar er vafasamt atriði á ferð. Brtt. allshn. um að þessu atriði megi skjóta til sýslumanns eða atvinnumálaráðherra er að vísu bót, en ekki fullnægjandi. Þess ber að gæta, að hjer eru aðeins stjórnarvöld kvödd til dóms. Gjaldendur sveitanna eru ekki um þetta spurðir. Jeg teldi heldur ekki æskilegt að láta almennan fund taka ákvörðun um svona atriði, en ef ekki er hægt að setja tæmandi ákvæði um þetta, held jeg, að heppilegast sje að fara ekki þessa leið. Eins og málið liggur fyrir, held jeg, að rjettast sje að afgreiða það ekki. Jeg er viss um, að þetta ákvæði veldur óánægju og breytinga verður krafist mjög bráðlega. Vildi jeg gjarnan sjá, hvert fylgi málið hefir í þessari háttv. deild. En mjer eru ljósir gallar frv., og jeg hefi fullan vilja á, að því verði vikið frá, svo að það verði ekki að lögum í þetta sinn.

Um brtt. háttv. nefndar er það að segja, að þær eru allar til bóta. Hvernig sem fer um málið, álít jeg sje rjett að samþykkja þær. Þær eru augljósar, svo að ekki er ástæða fyrir mig að fara að tala um þær, enda hefir líka hv. frsm. (GÓ) skýrt, hvað fyrir hv. nefnd hafi vakað með þessum brtt. Þótt jeg telji þær miða til bóta á frv. og muni ljá þeim fylgi mitt, er langt frá því, að þær sjeu nægilegar til þess að upphefja aðalgalla þess.

Jeg gat ekki látið málið fara svo gegnum þessa umræðu, að jeg ekki benti á þennan höfuðgalla á frv., er jeg tel vera svo mikinn, að varhugavert sje, að það verði að lögum.