10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

6. mál, fátækralög

Einar Jónsson:

* Jeg er ekki í vafa um, að sá talar djarfast, er reynsluna hefir í þessum efnum, en það eru oddvitarnir. Jeg veit, að hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir reynsluna á þessu sviði, og hana hefi jeg líka. Því er ekki að furða, þótt við gerumst djarfmæltir að sumra dómi.

Jeg ætla ekki að álasa hæstv. stjórn, þótt hún hafi komið með þetta frv., heldur ekki hv. neðri deild, sem hefir gert tilraun til þess að koma inn í frv. ákvæðum, sem jeg þakka fyrir, að ekki hafa komist inn í það. Jeg tek undir það, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir sagt um ákvæði 43. gr., jeg get ekki felt mig við þau. Mun jeg að mestu samþykkur hv. þm. (IP), og mundi mjer ekki sárt um, þótt frv. fjelli. Fátækralögin eru nú orðin svo gömul og reynd, að þau mættu að ósekju gilda lengur. Út í einstakar greinar frv. ætla jeg ekki að fara. Hv. þm. (IP) tók þar af mjer ómakið, með því að jeg er honum í flestu samdóma. Ákvæði 43. gr. eru mjer þyrnir í augum. Það er hægt að sýna það og sanna, að þegar sveitarstjórn hefir greitt einhverjum styrk með því skilyrði, að hann skuli ekki afturkræfur, þá er reglan komin í það horf þar áður en varir, að allir styrkþurfar fái með samþykki sveitarstjórnarinnar styrk, án þess hann sje endurkræfur.

Hvað snertir missi kosningarjettar í sambandi við sveitarstyrk, þá er það frekar stjórnarskráratriði en fátækralaga. En jeg álít þar ekki hægt að draga neina markalínu. Jeg segi fyrir mitt leyti, að það er síður en svo, að jeg sje ákafur um, að frv. verði að lögum. Vil jeg heldur hlíta gömlu lögunum eins og þau eru.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.