10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg hefði eiginlega getað slept því að standa upp, því að hæstv. atvrh. (MG) hefir svarað háttv. 2. þm. S.-M. (IP), og hefi jeg þar litlu við að bæta.

Jeg held jeg hafi getið þess í framsöguræðu minni, að það væri dálítið varhugavert og mætti misnota, er gera þarf skilgreining milli þess, hvenær styrkur skuli óendurkræfur, og hvenær ekki.

En eins og háttv. 2. þm. S.-M. (IP) mintist á, þá er hægt að gefa eftir veittan sveitarstyrk, þótt leyfi sýslunefndar þurfi til, ef gert er innan 5 ára frá því, er til sveitarskuldar var stofnað. Hygg jeg, að slíkt leyfi sje jafnan auðsótt. Jeg þekki að minsta kosti ekki nein dæmi þess, að sýslunefnd hafi sett sig upp á móti veitingu leyfis í þessu skyni, hafi þess verið leitað, enda er hún vitanlega óbærari um að dæma heldur en hlutaðeigandi hreppsnefnd. Ef menn viðurkenna, að ekki sje rjett, að allir missi rjettindi sín fyrir þeginn sveitarstyrk, hvernig sem hann er til kominn, þá finst mjer þessi leið vel farandi.

Háttv. 2. þm. S.-M. taldi allar brtt. nefndarinnar við 43. gr. til bóta. Jeg er honum þakklátur fyrir það. Jeg hygg svo tryggilega frá gengið, sem hægt er, þegar samþyktar hafa verið brtt. allshn.

Hv. 2. þm. Rang. (EJ) byrjaði með því að þakka, að ýmislegt, sem háttv. deild vildi koma fram, hefði ekki komist í frv. Hann þarf ekki að þakka þessari háttv. deild, því að jeg hefi góðar vonir um, að það, sem hún leggur til, verði samþykt. Hann vildi eins og hv. 2. þm. S.-M. (IP) helst, að frv. gengi ekki fram vegna ákvæða 43. gr. Hann vill sem sje, að enginn sveitarstyrkur skuli teljast óendurkræfur fyrst til að byrja með. En honum finst það víst ekki gera til, þótt þeir, sem af óviðráðanlegum orsökum hafa orðið styrkþurfar og fyrir þá sök mist mannrjettindi sín, verði að bíða nokkur ár eftir leiðrjetting þess misrjettis. Af því að jeg veit, að háttv. 2. þm. Rang. er mannúðarmaður, þá hlýtur honum að vera það ógeðfelt. (EJ: Já, en hjá því verður ekki komist). Enda játar hann nú, að svo sje.

Þetta eru þau einu atriði, sem valdið hafa nokkurri óánægju, eins og þau eru í frv. Og jafnvel þeir, sem mest mæla á móti, játa, að þörf sje á að breyta til frá því, sem nú er.