12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

6. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Mjer þykir vænt um, að hv. frsm. (GÓ) afsakar hólið um hæstv. atvrh. (MG) og segir, að það hafi ekki verið mikið. (GÓ: Jeg sagði, að honum hefði ekki verið hælt með sterkum orðum). Háttv. frsm. var með því að afsaka hól um skör fram um hæstv. ráðherra fyrir þessar lítilfjörlegu endurskoðun og veigalitlu. (GÓ: Jeg er hissa, hvernig háttv. þm. fer að fá það út úr orðum mínum). Að minsta kosti fólst í þeim nokkurskonar afsökun. Það var líka afsökun hv. nefndar, hve endurskoðunin væri dýr, en úr því að hún hefði fram farið, væri rjett að stuðla að því, að hún kæmist áleiðis. Það er rjett, að meginhluti kostnaðar var kominn áður en frv. kom hingað í Ed., en jeg held það hefði verið happasælla fyrir háttv. nefnd að setjast á frv. og vera ekki að láta aukast á þann kostnað, sem þegar er orðinn.

Jeg efast ekki um, að kvartað sje undan, hve berklavarnarkostnaðurinn sje mikill hjer á landi, og það er líka kvartað undan hinum gífurlega kostnaði við fátækraframfæri hjá einstökum hreppum í landinu. En ekki hefi jeg enn heyrt uppástungur um samskonar úrræði og höfð voru í upphafi bygðar, er sveitarþyngsli þóttu of mikil: að fækka ómögunum. Jeg sje ekki, hvernig útgjöld landsmanna af fátækramálum ættu að aukast við það, að landið væri alt eitt framfærsluhjerað og borgaði fyrst allan kostnað og jafnaði síðan niður. Jeg ætla ekki að gera hreppsnefndum og bæjarstjórnum óþarfar getsakir, að þær mundu líta ver eftir, þótt ríkið borgaði, að ekki fengju óverðugir menn sveitarstyrk. Að vera að halda í fyrirkomulagið eins og það er, hygg jeg tvímælalaust sveitunum til skaða. — Sömuleiðis tel jeg það til skaða að svifta menn rjettindum vegna þegins sveitarstyrks. Reynslan sýnir, að flestir styrkþegar, sem sviftir hafa verið rjettindum, láta sjer á sama standa, hversu mikil eyðsla verður þeirra vegna, úr því sem komið er. Það er af því, að þeir hafa tapað áliti sínu út á við og mist virðinguna fyrir sjálfum sjer. Það er ekki óalgengur hugsunarháttur hjá því fólki, sem hefir orðið fyrir því óláni að þurfa að leita til sveitar, að segja sem svo, að sveitin sje ekki of góð til þess að borga. Og jeg held það sje fremur af óheppilegu fyrirkomulagi heldur en því, að sá hugsunarháttur sje þessu fólki eðlilegur.

Fyrir utan brtt., sem jeg kom með áðan, er jeg hjer með aðra brtt, sem jeg ætla að biðja hæstv. forseta að bera upp. Hún er um það, að þurfamenn verði ekki fluttir fátækraflutningi, nema þeir gefi samþykki sitt til þess. Þessi till. kom fram í hv. Nd., en var ekki samþykt og ekki talin eiga rjett á sjer. En það er ranglátt, að sveitarstjórnir geti með einfaldri ályktun sinni valdið því, að t. d. heilt heimili sje tekið upp og flutt móti eigin vilja, hvert á land sem þeirri góðu hreppsnefnd kann að þóknast. Jafnvel þótt hún láti af mörkum fje, sem þarf til framfærslu, getur engum rjettsýnum manni þótt forsvaranlegt að veita hreppsnefnd svo að segja ótakmarkað vald yfir þurfalingum sínum, svo að hún geti flutt þá rjett eins og sauðfje, sem skipað er út til að flytjast til slátrunar eða þangað, sem á að ala það. En í raun og veru er það samskonar vald, sem sveitarstjórn er fengið í hendur. Hún getur, ef henni býður svo við að horfa, farið með þetta fólk eins og skynlausar skepnur. Slíkt á ekki að gilda um þurfamenn, nema sýnt væri, að ástæða hefði verið til að svifta þá fjárforræði fyrir þær sakir, að þeir hefðu ekki kunnað með fje sitt að fara. Jeg skal játa, að í einstökum tilfellum, t. d. er drykkjuræflar eiga í hlut, álít jeg betra, að hið opinbera hefði eftirlit og tangarhald á slíkum mönnum. En alment er það ekki rjettlátt.

Jeg vil því mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri upp við 58. gr. svohljóðandi brtt., að aftan við gr. bætist: enda gefi hann skriflegt leyfi sitt til flutningsins.