16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Þetta frv. er komið hingað aftur, eftir að hv. Ed. hefir haft það til meðferðar og gert á því nokkrar breytingar, bæði orða- og efnisbreytingar.

1. efnisbreyting háttv. Ed. er við 21. gr. 21. gr. er um framfærslurjettinn. Í frv. upphaflega stendur: „Eftir 16 ára aldur vinnur hver sá, sem hefir íslenskan ríkisborgararjett, sjer framfærslurjett í þeirri sveit, þar sem hann hefir dvalist í 4 ár samfleytt búandi, vistfestur eða haft löglegt heimilisfang, enda hafi hann ekki þegið endurkræfan eða óendurkræfan sveitarstyrk á þeim árum“. En í stað orðanna: „þeim árum“, hefir hv. Ed. sett: síðustu 10 árum.

2.efnisbreyting hv. Ed. er við 43. gr., þar sem hún hefir sett inn nýja málsgrein þess efnis, að ákvörðunum sveitarstjórnar eftir 1. og 2. málsgr. geti styrkþegi eða sveitarstjórnarmaður innan mánaðar skotið til sýslumanns í sveitum, en til atvinnumálaráðherra í kaupstöðum.

Brtt. hv. Ed. við 45. gr. er smávægileg. 1 greininni er ákveðið, hvenær sveitarbókin skuli talin sönnun fyrir sveitarskuld. Í upphaflega frv. er það gert, þegar meiri hluti hreppsnefndar eða að minsta kosti oddviti hefir skrifað undir innfærsluna. Hv. Ed. hefir breytt þessu þannig, að meiri hluti hreppsnefndar og styrkþegi, ef hann er innsveitismaður, skuli hafa skrifað undir innfærsluna.

Síðasta efnisbreyting hv. Ed. er við 50. gr. Þar er barnsmóður trygður sami rjettur og sveitarstjórn í framfærsluhreppi til að krefjast tryggingar af barnsföðurnum, ef hann fer af landi burt.

Þetta eru í fám orðum breytingar hv. Ed. á frv. Þótt sumar þeirra hafi komið til umræðu í allshn. Nd., þegar málið var hjer til meðferðar áður, og hún hafi ekki orðið á eitt sátt um þær, álítur hún ekki rjett að fara að stofna málinu í hættu og leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það nú er.