16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

6. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

* Það leiðir af sjálfu sjer, eftir því sem jeg leit á þetta frv., þegar það var hjer síðast, að jeg muni ekki vera ánægður með það, þegar það kemur aftur mjög spilt frá hv. Ed. Því get jeg ekki verið hv. frsm. meiri hl. allshn. (JK) samþykkur um það, að það sje ekki að ræða um nema smábreytingar á frv. Jeg tek það fram strax, að jeg álít ekki svo mikla nauðsyn á framgangi þessa frv., að það sje ekki vel hægt að bíða með það enn, og fá frv. þá betur úr garði gert. Þar af leiðandi felst jeg á uppástungu sessunautar míns, hv. 1. þm. N.-M. (HStef), um að vísa málinu aftur til stjórnarinnar. Jeg býst að vísu ekki við, að það sje til neins að fara fram á það, en þó vil jeg styðja þá tillögu, af því að jeg lít svo á frv., eins og það er nú, að í því sjeu ákvæði, er geri það að verkum, að óheppilegt sje að samþykkja það.

Háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) hefir tekið fram ýmislegt af því, sem jeg vildi sagt hafa, sjerstaklega þar sem hann mintist á niðurlagsákvæði 21. gr., „.... enda hafi hann ekki þegið endurkræfan eða óendurkræfan sveitarstyrk á síðustu 10 árum“. Jeg er hv. þm. (HStef) alveg sammála um það, að þetta er slæm breyting á þeim sveitfestilögum, sem nú eru þegar fyrir hendi. Jeg hefi áður minst á þá skyldu sveitarstjórnanna, sem stendur í upphafi 43. gr., og ætla jeg ekkert að segja um hana að þessu sinni, því að jeg ímynda mjer, að hv. deild sje sama hugar gagnvart henni eins og hún var áður. Þar standa sömu óheppilegu ummælin og áður. En það þýðir ekkert að fara að ræða þau, því að það leiðir af sjálfu sjer, að hv. deild lítur gagnstætt á þau við mig. En þó vil jeg benda á atriði, sem komið hefir inn í þá grein í hv. Ed. Það atriði er á þessa leið:

„Ákvörðunum sveitarstjórnar eftir 1. og 2. málsgr. getur styrkþegi eða sveitarstjórnarmaður innan mánaðar skotið til sýslumanns í sveitum, en til atvinnumálaráðherra í kaupstöðum“.

En jeg vil nú spyrja: Til hvers? Jeg vil óska eftir því, þar sem mig brestur skilning til að skilja þýðingu þessa ákvæðis, að hv. frsm. meiri hl. (JK) bendi mjer á, að hvaða gagni þetta megi koma, því að það stendur hvergi, að þessi stjórnarvöld eigi að leggja úrskurð sinn á málið. En eftir hvaða úrskurði á þá að fara nema hreppsnefndanna, sem að sjálfsögðu á að vera gildandi í þessu máli? Og þá á ekki að koma til mála, að nein áfrýjun geti átt sjer stað, því að úr því að þeim er gert að skyldu að taka ákvörðun um þetta, þá á sú ákvörðun að standa. En þó að það sje ekki beint sagt í málsgreininni, þá er það þó svo, að sýslumaður eða atvinnumálaráðherra getur ónýtt ákvörðun bæjarstjórnar eða hreppsnefndar, en það er einn liðurinn í þessari mjög óþægilegu skriffinsku, sem er að færast svo mjög í aukana hjer á landi.

Þá er enn ein breyting, sem hefir komist inn í frv. í hv. Ed. Það er um sönnunina fyrir skuldinni. Jeg vil nú benda hæstv. stjórn á, að þá sönnun er í sumum tilfellum alveg ómögulegt að fá, því það er oft og einatt, að hreppsnefndir verða að inna af hendi greiðslu á sveitarstyrk án þess að geta náð í styrkþegann. Það þarf auðvitað ekki að geta þess hjer, að það er venja, að hver styrkþegi kvittar fyrir þeim styrk, sem honum er veittur; og svo þegar hreppsreikningar eru gerðir, þá fylgja þær kvittanir með þeim. En það getur oft verið alveg sjálfsagt að framkvæma styrkveitingu, þó að ekki sje hægt að inna þessa skyldu af hendi, að fá kvittun styrkþega, t. d. þegar styrkurinn er greiddur hreppsnefnd í öðrum landshluta. Jeg verð að telja það skemd á lögum, sem eru svo vel úr garði gerð, að sett sjeu inn í þau ákvæði, sem gera þau svo skrumskæld, að þau verði að óframkvæmanlegri löggjöf. En löggjöf eins og þessi á að vera svo hæg í vöfum og svo greinargóð, að þeir, sem framkvæma hana, þurfi ekki að vera í neinum vafa um það, hvernig með á að fara.

Jeg hefði nú getað vænst þess, að hv. allshn. hefði sjeð sjer fært að koma með brtt. við þær breytingar, sem frv. hefir fengið í hv. Ed., því að jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. nefnd sje þeirrar skoðunar, að breytingar Ed. sjeu heppilegar. Því að jeg geri þá ráð fyrir, að svo glöggskygnir menn hefðu væntanlega komið auga á þau atriði, áður en frv. fór hjeðan úr deildinni. En þó að háttv. Ed. hafi sett þau atriði inn í frv., þá leiðir það af sjálfu sjer, að betra er að láta málið bíða eitt ár heldur en að samþykkja þau atriði frv., sem að mínum dómi og fleiri manna eru með öllu óhafandi í slíkum lögum.

Jeg get eins og áður er sagt alls ekki verið hv. frsm. (JK) samþykkur um það, að þessi atriði sjeu þolanleg, t. d. niðurlagsákvæðið í 21. gr. Jeg hefi, satt að segja, ekki borið þessi ákvæði saman við núverandi sveitfestilöggjöf, en sjeu þau ekki í samræmi við hana, þá er þetta merkileg lagaleysa, ef önnur ákvæði kæmu fram í þessum lögum, nema því aðeins, að það væri fram tekið, að ákvæði þeirra laga væru úr gildi feld. Jeg vil því beina þeirri ósk til hv. þdm., að þeir athugi málið mjög vel áður en þeir fallast á að samþykkja það, og um leið benda hv. deild á, að það er engin eyðilegging á þeim tíma, sem lögin eiga væntanlega að gilda, að málinu sje vísað til stjórnarinnar til betri athugunar og að mönnum, sem hjer eiga hlut að máli, gefist kostur á að yfirfara frv. á næsta þingi.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.