16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

6. mál, fátækralög

Jörundur Brynjólfsson:

* Jeg ætla nú ekki að lengja mikið umr. Hv. frsm. (JK) hefir gert grein fyrir þeim ástæðum, sem nefndin hafði til þess að leggja til, að frv. yrði samþ., þó að því hefði verið eitthvað breytt í Ed.

Mjer þykir ekkert kynlegt, þó að þessir tveir hv. þm. (HStef og HK) andmæltu málinu nú og vildu koma því fyrir kattarnef. Þeir hafa báðir haft sjerstöðu í því og álitið, að það væri ekki nægilega undirbúið. Mig minnir ekki betur en að hv. þm. Barð. (HK) hafi verið andvígur frv., er það var hjer í deildinni. (HK: Eins og það er). Já, eins og það er. Og hv. 1. þm. N.-M. (HStef) var því einnig mjög mótfallinn.

Hinsvegar nær þetta ekki til okkar, sem vorum frv. fylgjandi, og breytingar hv. Ed. voru ekki þannig, að þær gætu valdið skoðanaskiftum í þeim sökum, þannig að við hefðum snúist gegn málinu.

Ákvæðið í 21. gr., sem Ed. setti inn, um það, að menn vinni sjer framfærslurjett í sveit, er þeir hafa dvalið þar í 4 ár, enda hafi þeir ekki þegið sveitarstyrk á síðustu 10 árum, það þykir mjer í rauninni fulllangur tími. Mjer hefði þótt hæfilegt að hafa það 7–8 ár, en 10 ár eru nú svo lítið lengri tími, að það er ekki vert að vera að hrekja málið á milli deilda fyrir það eitt. Tryggingin er í því fólgin, að það nægir nú ekki það eitt að hafa dvalið 4 ár í einhverri sveit. Ef maður hefir þegið styrk innan þessara 10 ára, þá hefir hann, þó að hann hafi flutt í aðra sveit og sje búinn að dvelja þar í 4 ár, rjett á hjálp frá sinni gömlu sveit. Aðeins dvölin ein þennan stutta tíma nægir ekki til þess að vinna sjer þar framfærslusveit.

Ákvæðið í 43. gr. kom til umr. hjer og innan nefndarinnar, þó að það yrði ekki samþ. þá, og getum við því fallist á það.

Jeg verð loks að segja það, að þegar jafnmikilsvarðandi mál og þetta hefir verið hjer við 3 umr. og samþ. með miklum meiri hluta atkv. út úr deildinni, og síðan verið til meðferðar í hv. Ed. og sætt þar litlum breytingum, — (HK: Það er ekki rjett), jú, sætt þar mjög litlum breytingum, — þá tel jeg illa farið með tíma þingsins, ef nú á að senda það til stjórnarinnar. Jeg vænti því þess, að deildin afgreiði nú málið sem lög, enda má síðar bæta við þau, þegar reynsla er fengin.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.