16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

6. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson:

Jeg hjelt, að hv. þm. V.-Sk. (JK) þyrfti ekki að undra afstaða mín til frv., miðað við fyrri framkomu mína, enda furðaði hv. samnefndarmann hans (JörB) ekki á því. Þessir tveir hv. þm. mintust á ákvæðið í 21. gr., um það, að menn þyrftu að hafa verið 4 ár í sömu sveitinni og ekki þegið sveitarstyrk síðustu 10 árin, til þess að öðlast þar sveitfesti, og þetta telja þeir litla breytingu. Jeg er þeim nú ekki sammála um það. Það getur auðvitað verið, að þeir álíti þessa breytingu spor í rjetta átt, en þrátt fyrir það er þetta ekki lítil breyting. Þetta er í mörgum tilfellum sama og að kippa burt þeirri styttingu sveitfestitímans, sem gerð var 1923, og er afturkast frá þeirri stefnu að stytta hann sem mest og fer því í öfuga átt við mína skoðun. Jeg hefði kannske getað sætt mig við frv. eins og það fór til hv. Ed., því að þá voru ekki fram komin nein spjöll á núverandi löggjöf, en eins og það er nú, þá er lögunum stórspilt.

Að illa sje farið með tíma þingsins, þó að málið verði ekki samþ. eftir að hafa fengið rækilega meðferð, get jeg ekki viðurkent. Málið er ekki komið í það horf, að rjett sje að samþykkja það. Frv. bætir ekki úr þeim annmörkum á fátækramálunum, sem mest hefir verið rætt og kvartað um: hrakningum þeim, sem fátæku fólki og þurfamönnum stendur af sveitfestiákvæðunum, eins og þau eru og hafa verið, og því mikla misrjetti, sem kemur fram í misþungum álögum á gjaldþegna ríkisins, eftir því hvar menn eru búsettir. Þetta hefir ekki verið athugað nægilega. (Atvrh. MG: Meinar hv. þm. fátækraflutninginn?). Já, hrakninga fátækra manna og þurfamanna yfir höfuð. Jeg vantreysti ekki stjórninni svo, enda þótt jeg sje stjórnarandstæðingur, að jeg telji ekki, að hún geti, ef hún hugsar sig vel um, komist að rjettari niðurstöðu í málinu en enn er orðið. Og þó að hún geti ekki fallist á þær leiðir, sem þegar hefir verið bent á af ýmsum þm. og fram hafa komið í brtt. þeirra, eða á þá nýju leið, sem jeg benti á í fyrstu ræðu minni, þó að sú uppástunga sje nú ekki í upphafi frá mjer, þá geri jeg ekki ráð fyrir, að stjórnin sje svo óhugkvæm, að henni geti ekki dottið eitthvað nýtt í hug.

Það er miklu rjettara að fresta málinu um eitt ár, ef maður er óánægður með það, í von um, að rjettarbót fáist framgengt. Og þó að við ættum að búa enn eitt ár við þá löggjöf, sem nú er, þá er það ekki svo voðalegt.