16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

6. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

* Það eru aðeins örfá orð, sem jeg vildi sagt hafa. Mjer þykir vænt um, að hv. frsm. (JK) er sammála mjer, að minsta kosti að því er snertir brtt. við 45. gr., þegar rjettdæmi hans kemur til greina og fær notið sín, en ekki í þrályndi hans og viljaleysi. Mjer þykir það nokkuð einkennilegt, og má jeg til að minna á það í þessu sambandi og vona, að hæstv. forseti taki það ekki illa upp, þó að jeg fari ofurlítið út fyrir dagskrána, að mennirnir á varðskipunum skuli verða að hlíta úrskurði eins manns, en geta ekki áfrýjað til ráðherra, en í 43. gr. þessa frv. er aftur á móti gert ráð fyrir því, að úrskurðum sveitar- og bæjarstjórna, sem eiga að beita fylstu sanngirni gagnvart öllum, skuli mega áfrýja til sýslumanna og ráðherra. — Eru þá hreppsnefndir og bæjarstjórnir slíkir vandræðagripir, að menn geri ráð fyrir því, að rjettdæmi þeirra sje á þeim villuvegi, að nauðsyn sje á æðri rjettarvernd. (JK: Þetta er miklu stórvægilegra mál). Já, jeg held nú það! En jeg vil benda á það, að í fjölmennri sveit getur kannske einn maður, þó að allir sjeu á sama máli nema hann, áfrýjað til æðri rjettarvalda. Er nú nokkurt samræmi milli þessa hjá nefndinni og svo hins, sem jeg nefndi áðan? Nei, það er furðu lítið, sýnist mjer.

Jeg vil endurtaka það, að jeg tel síður en svo þá nauðsyn á því að samþ. þetta mál nú, að því sje ekki óhætt að bíða til næsta þings. Fyrir mjer vakir þó ekki, að landið eigi að verða eitt framfærsluhjerað. Fyrir mjer vakir aðeins að laga það, sem jeg tel óheppilegt í frv. Mig furðar annars á því, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Árn. (JörB), að það sje illa farið með tíma þingsins, ef frv. verður ekki samþykt, hver svo sem afstaða manna hefir verið til þess. En það ætti nú að vera svo um hin stóru mál, eins og t. d. þetta, sem tekur bæði til sveitarfjelaga og einstaklinga, að þau ættu að vera hugsuð og rædd á meira en einu þingi, þó að samþyktin drægist. Jeg er viss um, að útsvarslögin, sem samþ. voru á þinginu í fyrra, hefðu ekki skemst neitt, þó að það hefði dregist að samþ. þau þangað til nú. Það væri verra, ef frv. þessu, sem stendur í nokkru sambandi við þau lög, ætti að flaustra af líka, af því að það hefir verið tekið til mikillar og rækilegrar meðferðar í þinginu. Jeg geng út frá því, að jeg geti sagt um þetta eins og stendur í vísunni:

„Svo voru net úr garði gerð, að gegnum smugu fáir“.

Jeg vil ekki samþykkja frv. og vona, að jeg hafi gert mitt til þess, að sú breyting nái ekki fram að ganga, sem hjer er á ferðinni. Jeg álít hana bæði óheppilega og ekki framkvæmanlega.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.