16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

6. mál, fátækralög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg verð að taka undir það með hv. meiri hl. nefndarinnar, að breytingarnar, sem gerðar voru á frv. í hv. Ed., voru ekki stórvægilegar. Og þar sem frv. var samþ. hjer við 3. umr. með miklum meiri hl. atkv., þá álít jeg það misbrúkun á tíma þingsins, eins og háttv. 2. þm. Árn. (JörB) tók rjettilega fram, ef það verður ekki samþykt nú og endanlega afgreitt. Það kom fram svo sterkur vilji hjá þinginu með þessu máli, að það væri undarlegt, ef ekki yrði nú frá því gengið að fullu.

Um breytinguna á 21. gr. er rjett að geta þess, að Ed. setti þar aðeins inn orðin „á síðustu 10 árum“, og var það gert eftir ákveðnum beiðnum þm. úr sveitakjördæmum, sjerstaklega háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ), sem áleit það mikla nauðsyn að fá þetta. Einnig var hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) því mjög fylgjandi. Það er kunnugt, að víða hafa komið fram kvartanir út af þessu, og get jeg í því efni vitnað til hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hjer hefir því ekki verið annað gert en að ráða bót á aðfinslum, sem komið hafa utan af landi viðvíkjandi því, hve stuttur væri tíminn, sem þyrfti til sveitfesti, sem sje 4 ár. Að því er snertir ákvæðið um sveitarstyrkinn, hvort hann er afturkræfur eða ekki, og áfrýjunarrjettinn í því sambandi, þá vil jeg benda á það, að það er gert til þess að tryggja rjettaröryggi þess manns, sem hlut á að máli, þannig að hann verði ekki fyrir misrjetti. Nýjar upplýsingar geta komið til greina, sem hefðu getað gert það að verkum, að úrskurðurinn hefði orðið öðruvísi, ef hann hefði verið feldur eftir að upplýsingarnar voru gefnar. Og það er sama meiningin með þessu og öðrum málsskotum, sem sje að gefa mönnum rjett til þess að fá af öðrum stjórnarvöldum prófuð úrslitin hjá hinum. Jeg get því sagt hv. þm. Barð. (HK) það, að í þessu felst ekkert vantraust á hreppsnefndunum, ekki frekar en það er vantraust á sýslumanni eða bæjarfógeta, að dómi hans er skotið til hæstarjettar. (HK: Það er ekki um dóm eins manns að ræða, eins og hjá hásetunum). Jú, einmitt í þeim orðum, sem hv. þm. (HK) vildi niður fella, en það var málsskot þeirra til stjórnarinnar. Í lögunum, eins og þau nú eru, þá verður skipstjóri að skjóta málinu til ráðherra, ef hann víkur einhverjum skipverja frá.

Viðvíkjandi 45. gr., sem er um það, að það þurfi undirskrift styrkþega og meiri hluta hreppsnefndar til þess að það sje full sönnun fyrir skuldinni, þá verð jeg að segja það, að það er ekkert undarlegt ákvæði, þar sem vitanlegt er, að eins manns undirskrift nægir ekki sem fylsta lögsönnun. Það er vitaskuld, að ef oddviti hefir tekið kvittun af styrkþega, þá er sú undirskrift fullgild, nema styrkþegi synji fyrir það með eiði.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, að stjórnin hefði ekki athugað hrakningana á þurfamönnum, en það er fjarri því, að þetta sje rjett. Jeg vil minna hv. þm. (HStef) á það, að ákvæðinu um það efni var breytt frá því, sem stjórnin lagði til, svo að nú verður fátækraflutningurinn tíðari en áður. (HStef: Hann var ekki afnuminn). Nei, en það var meiri hl. þingsins, sem gerði hann eins og hann nú er í frv. á móti till. stjórnarinnar.

Hv. þm. (HStef) stendur víst einn uppi meðal bænda með þá skoðun, að það sje einungis til ills að flytja menn fátækraflutningi. Sá flutningur er venjulegast úr kaupstöðunum og bæjunum upp í sveitirnar, þar sem fátæklingum yfirleitt líður betur. (HStef: Þetta kemur ekki við því, sem jeg hefi sagt). Jú, það kemur vissulega því við, því að hv. þm. (HStef) var að tala um hrakningana, og þar er ekki um annað að ræða en fátækraflutning. — Jeg geri nú ráð fyrir, að hv. þm. vilji hafa sem stystar umr., og ætla jeg því ekki að segja meira.