16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Það er óþarfi fyrir mig að fara að telja upp þær rjettarbætur, sem þetta frv. hefir í för með sjer; það hefir áður verið talað um þær. Það nægir í þessu efni að vísa til 43. gr. frv. Þar er mönnum opnaður möguleiki til þess að þiggja styrk af sveit, án þess að það hafi nokkurn rjettindamissi í för með sjer. Í þessu er fólgin hin mesta rjettarbót. Ef hv. þm. leggja ekkert upp úr þessu, þá held jeg, að ekki sje mikið mark takandi á hjali þeirra um misrjetti það, sem hafi átt sjer stað að undanförnu. Jeg vil ekki tefja tímann með lengri ræðu. Jeg vil mælast til, að hv. þm. annaðhvort samþykki eða felli þetta frv., en vísi því ekki frá undir því yfirskini, að þeir vilji meiri rjettarbætur, sem þeir svo eru hræddir við sjálfir, þegar á herðir. Slík afgreiðsla er aðeins til þess að sýnast.