25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús Torfason:

Jeg gat þess við fyrri hluta þessarar umr. um daginn, að mjer hefði komið það á óvart, að hv. allshn. hugsaði sveitarsjóðum ekki fyrir neinum nýjum tekjustofnum. Því hefir verið svarað af hv. frsm. (JörB), að nefndin hafi ekki fengið neinar bendingar frá hv. þdm. um þetta. Það kann nú satt að vera, en fyrir mitt leyti leit jeg svo á, að ekki ætti að þurfa að benda hv. nefnd á þetta. Jeg vissi, að úr minni sýslu hafði verið farið fram á slíkt, og mjer datt ekki annað í hug en að hv. allshn. hefði haft brjef sýslunefndanna um þessi atriði að moða úr, og jeg bjóst við, að hún hefði rekist á þetta brjef. Mjer fanst því eðlilegra að hugsa svona, sem í 55 ár, eða síðan 1872, hefir ekki verið bætt við neinum nýjum tekjustofni handa sveitarsjóðum. Hitt er annað mál, að reynt hefir verið að miðla þessum beinu sköttum á ýmsan hátt, þannig að þeir kæmu jafnara niður á menn. Eins og jeg sagði um daginn, þá álít jeg það vera eitt aðalverkefnið, þegar sveitarstjórnarlög eru endurskoðuð, að segja til um, hvaða framkvæmdir sveitarstjórnir eigi að hafa með höndum og hvaða tekjustofna sveitarsjóðir eigi að hafa, til þess að bera þau útgjöld. Hæstv. ráðh. (MG) sagði, að þetta hefði átt að koma til athugunar, þegar útsvarslögin voru hjer á ferð í fyrra. Þau lög voru fram borin fyrir það, að ýms hjeruð höfðu orðið fyrir miklu misrjetti af áðurgildandi lögum. Og þegar það misrjetti var lagað að nokkru, liggur mjer við að segja, að jeg hefði fylgt þeim, hvað vitlaus sem þau hefðu verið að öðru leyti. (Atvrh. MG: Hv. þm. hefði átt að lagfæra frv.). Jeg reyndi nú samt að halda öllu smærra utan við, til þess að fá þennan höfuðgalla gömlu laganna afnuminn. Af þessu vona jeg, að hæstv. ráðh. (MG) skilji, að þá var ekki tími til að ræða um aðra tekjustofna, eða vekja deilur um þá.

Þá sagði hæstv. ráðh. (MG), að það hefði engin sýslunefnd á landinu krafist aukinna tekjustofna, nema Árnessýsla. Jeg verð náttúrlega að taka þetta svar hæstv. ráðh. (MG) sem gott og gilt, tel það auðvitað, að hæstv. ráðh. (MG) segi það eftir bestu vitund, en þetta bendir á það, að það hafa einmitt verið Árnesingar, sem skort hefir kraft til að bera það, sem þeir hafa þurft að bera, og annað það, að sveitarþyngsli, eins og tekið hefir verið fram, hafa hvergi verið sem í Árnessýslu, um leið og Árnesingar hafa lagt meira til menningar- og samgöngubóta en aðrar sveitir landsins. Það hefði líka mátt fara aðra leið til þess, að sveitarstjórnum væri gert það mögulegt að fullnægja sínum eigin verkefnum, það mætti gera með því að ljetta af þeim ýmsum verkefnum, sem ekki heyra þeim til, þar á meðal mætti taka af þeim, eins og jeg tók fram áður, ýms heilbrigðismálefni, og þá sjerstaklega sóttvarnarráðstafanir, sem vitanlega eru landsmál, en ekki sýslumálefni. Það er hreint og beint öfugstreymi í stjórnarfyrirkomulaginu, að sýslu- og sveitarsjóðir skuli vera skyldir að leggja fram fje til slíkra mála, því að þar er eiginlega að tala um tillag frá sveitarsjóðum til ríkissjóðs, til þeirra mála, sem hann á að annast að lögum rjettum, en þetta hefir nú ekki heldur verið athugað. En jeg skýt því nú til háttv. allsherjarnefndar, að hún athugi nú einmitt þessa hlið málsins og komi hreint og beint fram með frumvarp á þessu þingi, þar sem einhverju verði ljett af sveitarsjóðum, og þá ekki aðeins sóttvarnarráðstöfunum, heldur líka kostnaði við yfirsetukonur, sem í raun og veru er viðurkent af löggjöfunum að sje landsmál, þar sem ríkissjóður borgar helminginn af þeim kostnaði. Þó hefir verið talað um, að það hafi ekki komið nein tillaga fram um þetta, og jeg skal þá geta þess, að sýslunefnd Árnessýslu stakk upp á því, að nokkur hluti af tekju- og eignarskatti væri lagður til sveitarsjóðanna, með það fyrir augum, að það væri sú leið, sem væri hentugust, og benti jafnframt á það, að sveitarsjóðirnir ættu að fá eitthvað af tekju- og eignarskattinum, þá myndi það draga mjög úr hinu sífelda nuddi og nöldri um það, að menn teldu ekki fram tekjur sínar. Það mundi áreiðanlega minka við það, að sjálfir sveitarsjóðirnir hefðu þar hagsmuna að gæta.

Hæstv. ráðh. (MG) gerði svo að síðustu fjarska mikið úr því, hvað það hefði mikla þýðingu, að lögin væru komin í eitt. Jeg verð að segja það, að jeg hjelt ekki, að sú þingsályktun, sem fram kom af hendi Alþingis, ætti aðeins við það, að það ætti að reka þessar lagaheimildir saman eins og tryppi í rjett; jeg held líka, að það hefði verið miklu einfaldari leið til þess. Það var ekkert annað en að prenta lögin upp í einni heild og fella þau saman, og það gat einmitt verið sjerstök ástæða til þess, þar sem engin sjerstök eintök af gömlu sveitarstjórnarlögunum eru til. — Jeg hefi oft beðið um að fá þau, og margir oddvitar beðið mig um þau. (Atvrh. MG: Þau eru til). Það getur verið, að þau liggi einhversstaðar uppi í kvisti stjórnarráðsins, en jeg hefi ekki fyrir því getað fengið þau.

Þá vil jeg benda á það um leið, að jeg held, að það hafi ekki verið vert að leggja niður þann gamla og góða sið að senda nokkuð af sjerprentunum út um landið af þeim lögum, sem varða alla borgara landsins að meira eða minna leyti, því þegar í þeim standa ákvæði um ýmsar hegningar eða sektir, þá er ekki rjett að leggja niður slíka venju, ef ætlast er til þess, að menn fái eitthvað að vita um þessi ákvæði, því að það eru ekki margir úti um land, sem halda Stjórnartíðindin. Segi jeg þetta sjerstaklega vegna laga um veitingasölu, gistihúshald o. fl., sem samþykt voru á síðasta þingi, því að það voru margir, sem ekki höfðu hugmynd um, að lögin gengju svo snemma í gildi. En út af því, sem sagt var, að ekki hefðu verið auknir tekjustofnar sveitarsjóða, þá verð jeg að svara því til, að jeg er ekki svo mjög að hugsa um það, úr því sem komið er, heldur að af þeim verði ljett þeim gjöldum, sem þeir eiga ekki að bera.