30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

115. mál, bankavaxtabréf

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg er samþykkur hv. fjhn., að ekki sje rjett að samþykkja brtt. hv. þm. Str. (TrÞ). Ekki af því, að jeg álíti rangt að láta ágóða, er ríkissjóður kynni að fá af lánum, koma þeim í vil, er kynnu að verða fyrir ýmsum halla af lántökum sökum gengishækkunar. En það er erfitt að taka rjettlátar ákvarðanir um þetta fyrirfram.

Eins og brtt. liggja nú fyrir, er farið fram á bein útgjöld fyrir ríkissjóð önnur en gengisgróða. Hve miklu þau muni nema samkvæmt brtt., er ekki unt að segja nákvæmlega, en aldrei verður það minna en 1 milj. og alt að 11/2 milj. kr. Nú er hugsanlegt, að krónan fjelli aftur, eftir að hún er komin upp í 95 aura, og þá fellur burt gengisgróði ríkissjóðs. Lán þau, sem eftirgjöfin á að ná til, nema um 121/2 milj. kr., og 20% eftirgjöf af 121/2 milj. kr. nemur 21/2 milj. kr. En gróði ríkissjóðs af gengishækkun upp í 95 gullaura getur numið alt að 1 milj. kr., og dálítið þar yfir, ef krónan heldur áfram upp í 100%. — Það er þá 1–11/2 milj. kr., sem ríkissjóður á að svara út eftir till., umfram sinn eiginn gengisgróða, sem ef til vill væri ekki óeðlilegt að hann greiddi.

En það er of snemt og ekki rjett að taka ákvarðanir um slíkt nú. Sjerstaklega þar sem ekki er sjáanleg nein sanngirni í því að gera öllum jafnhátt undir höfði. Það er að vísu rjett, fræðilega sjeð, að þeir, sem hafa tekið lán í verðföllnum peningum, verða harðara úti; en í reyndinni verður alt annað ofan á.

Við skulum líta á einstök dæmi. — Maður tekur lán til húsbyggingar í kaupstað. Síðan er húsið leigt út. Ef nú færi svo, sem vel má búast við, að húsaleigan lækkaði ekki strax og krónan er komin upp í 95 aura, þá er ekki sanngjarnt að veita þá þegar niðurfærslu á greiðslu lánsupphæðarinnar. Ef húseigandi heldur áfram að taka sömu krónutölu í húsaleigu, á hann til þess enga sanngirniskröfu.

Það er ógerningur að leggja nokkurt „plan“ um þetta fyrir framtíðina, svo að taki til allra möguleika, er til framkvæmda kemur.

Annars ætla jeg mjer ekki að fara út í ræðu hv. þm. Str. (TrÞ).

Það eru fleiri en tveir flokkar í þinginu, sem óska eftir hækkun krónunnar, ef hún getur gerst án þess að veita þjóðfjelaginu hnekki. Það eru líka til menn í báðum hinum flokkunum, sem hallast að þessari skoðun.

Það er engin ástæða til að óttast, að hræðsla við gengishækkun muni valda kyrstöðu í framkvæmdalífi þjóðarinnar og fyrirstöðu þess, að menn sækist eftir lánum. Reynsla ársins sem leið bendir í gagnstæða átt; hún sýnir, að menn kunna vel að sækjast eftir lánum, og jeg vona, að reynsla komandi ára sýni, að þeir kunni að notfæra sjer þau á rjettan hátt.

Jeg ætla svo ekki að segja meira um þetta. Jeg get tekið undir með hv. flm. (TrÞ), að eðlilega fari álit manna um efni þessara brtt. ekki eftir afstöðu þeirra til gengismálsins alment.

Jeg get vel skilið, að stýfingarmenn t. d. geti verið á móti slíkum till., að gera svo stórfeldar fjárhagsráðstafanir án trausts grundvallar til að byggja á. Og hinsvegar munu þeir vera margir hækkunarmenn, sem aðhyllast þá hugsun, að ríkissjóður ljeti ekki gengisgróða sinn af lánum verða beinlínis að eyðslufje ríkissjóðs sjálfs.