01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

115. mál, bankavaxtabréf

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi heyrt undirtektir bæði fjhn. og hæstv. fjrh. (JÞ) um till. mína á þskj. 271. 1 þeirri till. er um að ræða hagsmunamál og rjettlætismál manna, er skifta hundruðum. Það er gerð tilraun til að bæta úr ranglæti, sem á að fremja á öllum þessum mönnum, sem þarna er um að ræða. Þegar fjhn. fær slíka till. til athugunar, lætur hún sjer nægja að skjóta á augnabliksfundi til að ráða ráðum sínum. Mjer var fyrst sagt, að hún hefði varið einni mínútu til að athuga þetta mál. Við nánari eftirgrenslun fjekk jeg að vita, að fundurinn stóð yfir 5–10 mínútur. Jeg skal minna á, að sama nefnd hafði eitt þýðingarmesta málið, sem lá fyrir þinginu í fyrra, fram í maímánuð, mál, sem sagt var um, að væri þinginu til skammar að hafa ekki afgreitt. Jeg vil segja, að það sje til skammar fyrir fjhn. að koma aðeins saman í örfáar mínútur til þess að taka afstöðu til þessa máls, og er ekki einu sinni öll á fundi. Mjer er kunnugt um, að allir nefndarmenn vissu ekki, að þessi afgreiðsla hafði verið gerð. Mjer kemur því ekki á óvart, þegar hv. frsm. (JAJ) segir, að nefndin sje á móti till. að svo stöddu. Hinsvegar eru engar ástæður færðar á móti till., ekki sýnt, að það hafi við neitt rjettlæti að styðjast að neita því, sem hún fer fram á. Helstu ástæðurnar, sem háttv. frsm. bar fram, voru þær, að fleiri framkvæmdamenn en þeir, sem till. nefnir, væru beittir harðræði í þessu efni. En hann fer ekki fram á að láta ákvæði till. ná til þeirra líka. Hann segir aðeins, að af því fleiri verði fyrir ranglæti, megi ekki sinna svona kröfum frá neinum. Því verður þó ekki móti mælt, að þarna er stór hópur manna, sem viljandi á að fremja ranglæti á. Og þegar nefndin gerir ekki annað en halda að sjer höndum og vill láta afhöfða alla, sem hjer eiga hlut að máli, og líka alla þá, sem samskonar ranglæti eru beittir, þá er ekki annað hægt að segja en vel fari á því, að afgreiðsla málsins fari fram á fáeinum mínútum. Hv. frsm. mintist á, að líka gæti verið rjett að ljetta undir með þeim, sem tekið hefðu lán í 4. flokki. Það rjettlæti ætti þá nefndin að láta koma fram með því að aðhyllast frv. um verðfesting peninganna fremur en að bera það fram, að þessir menn verði líka fyrir ranglæti, en vilja þó ekki leiðrjetta neitt. Hv. frsm. sagði, að meira samræmi væri í því að biða. Já, það er kannske meira samræmi í því að gera öllum rangt til, aðhafast ekki neitt. En það stendur nú samt alveg sjerstaklega á um þessa menn, sem tekið hafa ræktunarsjóðs- og þessi veðdeildarlán, því að þeir verða allir fyrir ranglæti. Þeir hafa allir tekið lán í föllnum peningum. — Jeg verð að láta það koma fram, að jeg tel, að nefndin hafi tekið á þessu máli með alveg óforsvaranlegum lausatökum. Auðvitað á atkvæðagreiðslan eftir að skera úr, hvort deildin vill koma í veg fyrir þetta ranglæti með því að samþ. till.

Hæstv. forsrh. (JÞ) byrjaði sína ræðu allvel. Hann tók fram, að það væri ekki rangt að láta ríkisgróðann af þessum verðbrjefakaupum koma lántakendum til góða. En framhaldið af forsendum hans varð þó það, að hann vildi ekki stíga þetta spor. Hann sagði, að ekki væri hægt að vita, hve mikil útgjöld þetta hefði í för með sjer fyrir ríkissjóð. En að því er snertir 5. og 7. flokk verða útlátin alveg þau sömu og gróðinn af hækkuninni. Og þó að Landsbankinn hafi keypt 6. flokk að mestu, er þar í raun og veru um sama vasann að ræða, þar sem ríkið á þá stofnun og verður að styðja hana ef þörf gerist, enda hefir Landsbankinn orðið harðlega fyrir barðinu á gengishækkuninni. Að því er ræktunarsjóðinn snertir er ekki um miklar upphæðir að ræða. Hinsvegar eru það lánveitingar, sem ríkið hefir hrundið af stað og hvatt menn til að nota. En í því virðist lítil sanngirni, að ríkið hvetji menn til að taka lán í föllnum peningum, hækki þá svo í gildi og heimti jafnan krónutölu. Ef einstaklingur hagaði sjer svo, yrði vissulega sagt, að um óleyfilegan fjárdrátt væri að ræða.

Þá sagði hæstv. forsrh. (JÞ), að ef húsaleiga lækkaði ekki hjer í Reykjavík, þá gæti verið, að sumir, sem bygt hafa hjer hús, ættu ekki lækkunina fullkomlega skilið. Það er nokkuð til í þessu. En á það má líka líta, að þessir framtakssömu menn hafa á ýmsa aðra lund orðið fyrir barði gengishækkunarinnar, svo að segja mætti kannske, að þeir ættu það inni, þó að húsaleigan lækkaði ekki þegar.

Þá var hæstv. ráðh. (JÞ) að reyna að stríða mjer á því, að það væru fleiri en 2 flokkar í þinginu, sem stæðu að hækkun krónunnar. Já, það eru víst til menn bæði í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum, sem hallast að hækkun, en hitt mun þó vera aðalreglan. En á jeg að skilja þetta svo, að í flokki hæstv. ráðh. sjeu allir einhuga um hækkun krónunnar? Á að skilja þetta sem opinbera yfirlýsingu um það, að útgerðarmennirnir hafi beygt sig og standi nú sem einn maður með hæstv. ráðh. (JÞ) í þessu máli? Jeg teldi ákaflega þýðingarmikið að fá að vita, hvort útgerðarmennirnir eru fallnir frá því að vilja hindra hækkun krónunnar. Ef það er svo, að útgerðarmennirnir standa einhuga með Íhaldsflokknum í þessu máli og einstakir menn úr hinum flokkunum, þá er hjer auðvitað um rás viðburða að ræða, sem ekki er hægt að hindra. Jeg sagði, að ein höfuðástæðan til þess að jeg bæri fram þessa till. væri sú, að jeg væri hræddur við kyrstöðuna í sveitunum. Hæstv. ráðh. (JÞ) sagði: Jeg er ekki hræddur við kyrstöðu í framtíðinni! Hann lýsir því yfir úr ráðherrastóli. Þetta eru kjörorð, sem hann hefir skráð á skjöld sinn. Það er í góðu samræmi við það, að hann er formaður Íhaldsflokks. Og vil jeg í því sambandi minna hæstv. ráðherra á ný tíðindi frá sambandslandi okkar. Það er hvernig farið hefir fyrir stjettarbróður hans, forsætisráðherranum danska, að hafin er hörð ofsókn gegn honum fyrir áhrif gengishækkunarinnar þar í landi, þar sem margt bænda hefir tapað svo tugum þúsunda skiftir á gengishækkuninni.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þessa tillögu, en mjer er kært, að það komi opinberlega fram, hverjir í þessari hv. deild vilja sýna rjettlæti í þessu máli.