01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

115. mál, bankavaxtabréf

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil byrja á því að leiðrjetta það, sem hv. þm. Str. (TrÞ) hafði rangt eftir mjer. Hann sagði eftir mjer, að jeg hefði ekki sagst vera hræddur við kyrstöðu á framkvæmdum, en það voru alls ekki mín orð. Jeg sagðist ekki vera hræddur um kyrstöðu á lántökum úr þessum sjóðum og þar af leiðandi ekki óttast kyrstöðu á þeim framkvæmdum, sem af þeim leiða, því að menn kunna vel að notfæra sjer þau lán, sem hjer eru í boði. Jeg býst nú við, að það hafi verið misskilningur, sem valdið hefir þessari rangfærslu hjá hv. þm. Str., en ekki tilhneiging til að kasta rýrð á andstæðinga sína.

Mjer finst miður viðeigandi að blanda forsætisráðherra Dana inn í þetta mál, en úr því að háttv. þm. fann ástæðu til þess, verð jeg lítillega að víkja að því, sem hann sagði. Hv. þm. vildi halda því fram, að bændur í Danmörku og þá núverandi forsætisráðherra þar, hefðu tapað fleiri hundruð þús. kr. vegna gengishækkunarinnar þar, en þetta er ekki rjett. Í bóndatíð ráðherrans gekk hin skæða gin- og klaufnasýki tvisvar yfir hans stóra bú og gerði vitanlega mikinn usla, svo mikinn, að bæði hann og bændur yfirleitt biðu stórtjón af. Þetta hjelt jeg, að hv. þm. Str. hefði átt að vera kunnugt, því ekki þykist hann vita svo lítið um þessa sýki. (TrÞ: Ríkissjóður Dana greiddi bændum fullar bætur fyrir tjón það, er þeir biðu af völdum veikinnar). Nei, ekki þá, það var aðeins gert fyrst.

Eftir ræðu háttv. þm. Str. held jeg, að ekki hafi verið tekið nógu ómjúkum tökum á till. hans, hvorki af mjer eða frsm. fjhn.; því að vægast sagt er tillagan ótæk eins og hún er nú. Í fyrri ræðu minni benti jeg á, að ekki gæti komið til mála að fara að gefa húsabyggjendum eftir af lánum sínum. Því að jeg veit ekki um annað meira talað en hina ósanngjarnlega háu húsaleigu, og þá sjerstaklega hjer í Reykjavík. Væri því síst sanngirni að fara að gefa þeim eftir af lánunum í ofanálag á hina háu húsaleigu. Það væri þá miklu nær að láta leigjendurna fá eitthvað, ef á annað borð á að fara að gefa þessum mönnum gjafir, því að það eru þeir, sem verða að búa við ósanngjörnustu kjörin. Háttv. þm. einblínir því aðeins á hina föllnu peninga, án tillits til hinnar minstu sanngirni. Hann sjer ekkert annað en það, að þetta hús hafi verið bygt með láni af föllnum peningum, sem verði að greiðast með fullgildum peningum. En hjer verður það að skera úr, hvort lántakandi fær sína peninga að fullu upp úr húsinu. Fái hann þá, hvort heldur er frá leigjendum eða á annan hátt, þá á hann enga sanngirniskröfu um uppbætur frá ríkissjóði, þó að peningarnir hækki. Hjer hefir því farið sem oftar fyrir háttv. þm. Str., að hann hefir ekki hugsað nógu diúpt. Annars notar hann altaf hvert tækifæri til þess að láta fjármálaljettúð sína skína og tala gálauslega um fjárhag landsins. Tekur hann í því efni öllum þingmönnum fram, nema ef vera skyldi einum, sem um nokkurt skeið átti sæti í þessari deild, en á það ekki lengur.

Hinn mesti gengisgróði, sem hugsanlegt er, að ríkið geti haft af þessum lánum, er rúm ein milj. kr. Þessu fje ímyndar hann sjer að verði rjettlátast skift meðal landsmanna með því að fleygja því í húseigendur í kaupstöðunum, til þeirra manna, sem þjóðin kvartar undan að taki of háa leigu fyrir hús sín. Og ekki nóg með það, að hann vilji kasta þessu á glæ, heldur bæta þar við beinu framlagi úr ríkissjóði, sem innheimta verður af landsmönnum með sköttum, á aðra milj. kr. Þetta er auðvitað í samræmi við það, að hann breiðir faðminn á móti hverri þeirri tillögu, sem miðar að því að ausa fje út úr ríkissjóðnum.

Ef háttv. þm. Str. skyldi ætla sjer að gera úr þessari tillögu kosningagyllingar, þá má hann reiða sig á, að fjárhagshlið hennar verður líka dregin fram fyrir almenning, og jafnframt sýnt fram á ljettúð hans og grunnhygni um allan fjárhag landsins.

Þá undraðist hann, að nefndin skyldi ekki þurfa nema 5 mínútur til þess að taka ákvörðun um þessa tillögu hans. Honum fanst eðlilegast, að hún hefði þurft langan tíma til að yfirvega hana. En þar er jeg annarar skoðunar. Jeg get trúað, að nefndin hefði ekki þurft nema eina mínútu til þess að taka afstöðu um þessa fjarstæðu. Og þegar gengið verður til atkvæða um till. þessa, þá er ekki mögulegt að greiða atkvæði um neitt rjettlæti, því að það hefir hún ekkert í sjer fólgið, eða hvort menn vilja ráðstafa gengisgróða ríkissjóðs af fasteignalánunum til lántakenda. Það verður því að fella tillögurnar nú þegar, því að þær fara fram á fjáraustur úr ríkissjóði og stórgjafir til manna, sem ekki er hægt að segja, að eigi verðskuldaðar gjafir.