01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

115. mál, bankavaxtabréf

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

* Það var óþarfi fyrir hv. þm. Str. að vera að tala um blóðnætur. Stjórninni hefir ekkert blóð runnið ennþá. Og þótt eitthvað hefði breyst síðan þetta kvöld, þá þarf ekki að vorkenna mjer. Jeg ætlaði að hlífa háttv. þm. Str. og gerði mjög hóflega grein fyrir, hver fjárútlát það væru, sem hann færi fram á. En hann hefir ekki tekið eftir því, hvernig jeg reiknaði út, hvaða fjárframlög till. hans fer fram á.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði viðurkent, að till. fjallaði ekki um annað en að ráðstafa gengisgróðanum. En þótt það verði ekki annað en endurtekning í Alþt., þá ætla jeg að hafa upp aftur þær tölur, sem jeg las upp í fyrstu ræðu minni og útreikningurinn, um hvað þessi till. kostar ríkissjóð, byggist á.

Jeg gerði ráð fyrir, að þessi lán, sem farið er fram á að færa niður um 20%, myndu alls nema 13 milj. kr. upphaflega, og sje gert ráð fyrir, að eitthvað verði búið að draga inn af þessum brjefum, sem þó verður lítið, því að inndráttur brjefanna er lítill fyrstu árin, — jeg reikna hann 1/2 milj. kr., — þá verður þessi upphæð 121/2 milj. kr. Meiri hl. þessarar upphæðar eru veðdeildarlán, eða 3/4 hlutar, hitt, 14 hluti, er í ræktunarsjóði. 20% af þessari upphæð er 21/2 milj. kr., sem till. hv. þm. Str. hljóðar upp á. Miðað við það, að krónan verði 95 aurar, og miðað við, að það gengi hjeldist áfram, verður gengisgróði ríkissjóðs 15% af 61/2 milj., eða tæp 1 milj. kr. Mismunurinn er l1/2 milj. kr., sem ríkissjóður ætti að leggja fram. Haldi krónan áfram að hækka upp í 100 aura eða gullverð, dregst eitthvað frá þessari upphæð, en þó ekki meira en 300 þús. kr. Bein útgjöld samkv. till. verða þá 1–11/2 milj. kr. Mjer þykir leitt, að hv. þm. Str. skuli ekki hafa tekið eftir þessum ágalla á till. sinni.

Þá fór hv. þm. Str. að reyna að hnekkja því, sem jeg sagði um þá vafasömu sanngirni að gefa húseigendum eftir fje með því að lækka lánin, sem þeir hafa tekið til húsbygginganna, þar sem þeir hinsvegar taka háa leigu. Hjer fanst hv. þm. jeg komast illa frá rökum mínum og þóttist sanna það, að af þessum ástæðum væri ekki hægt að hækka krónuna. En hvernig er sú sönnun? Hv. þm. Str. gerir ráð fyrir, að krónan hækki upp í 95 aura eða ef til vill gullverð og samt haldi húseigendur áfram að taka hina háu leigu. Hve lengi þeir geri það, veit hann ekki, líklega þangað til krónan er komin í gullverð. Af þessu dregur hv. þm. Str. svo þá ályktun, að ekki sje hægt að hækka krónuna. Finst mönnum þetta ekki sláandi sönnun? (TrÞ: Útúrsnúningur). Nei, alls ekki, þetta reyndi hv. þm. að sanna, en gat ekki. En það eru ekki gengisbreytingar einar, sem mestu ráða í efnahagsstarfsemi þjóðarinnar, því að bæði meðan krónan var að falla og eins meðan hún var að hækka var húsnæðisekla hjer í bæ og þess vegna há húsaleiga, og hið sama gæti komið fyrir, þótt krónan væri komin í gullverð. Húsnæðiseklan kemur ekkert við gengi eða gengisbreytingum.

Við skulum nú samt gera ráð fyrir, að hin háa húsaleiga haldist, enda þótt krónan hækki, vegna húsnæðiseklu. En þá verðum við að vara okkur á því að fara nú fyrirfram að taka húseigendur til umönnunar á kostnað ríkissjóðs, því að það væri undir þeim kringumstæðum ekkert annað en að gefa þeim gjafir.

Hv. þm. Str. sagðist aðallega bera fyrir brjósti bændur, sem tekið hefðu lán til húsabóta og ræktunar. En þá vill svo illa til fyrir honum, að hann hefir nýlega lýst yfir því í þingræðu, að bændur ættu ekki nema 5% af þessum lánum, sem hjer er farið fram á að lækka. Það er þá aðeins 1/2 milj. kr. af 10 milj. kr., eftir þeim útreikningi. Annars eru það af þessum 13 milj. kr. í mesta lagi 31/2 milj. kr., sem fallið getur í skaut bændanna. Beri nú hv. þm. bændur sjerstaklega fyrir brjósti, þá skil jeg ekki, hvers vegna hann vill fara að gefa kaupstaðabúum þrefalt hærri gjöf, til þess að hafa einurð til þess að gefa bændum miklu minni gjöf. En þetta var bygt á misskilningi hv. þm., en ekki á neinni góðvild til kaupstaðanna, því nú vill hann koma með þvingunarlög gegn þeim, er afnema með öllu þessa góðvild hv. þm.

Hv. þm. sagði, að jeg rangfærði orð sín, er jeg sagði, að hann vildi gefa eftir í 4. flokki veðdeildarlánanna. Þetta sagði nú hv. þm. og tók vel í það, að það yrði gert. Jeg vona nú, að hann striki þetta ekki út úr ræðu sinni, þótt jeg hafi haft það eftir honum.

Þá talaði hv. þm. um það, að ekkert væri í till. um það, hvað gera ætti, ef krónan færi upp í 95 aura og lækkaði svo aftur. Jú, þá á að færa skuldirnar niður, og þá er ekkert hægt við því að gera, þótt krónan lækkaði aftur. Það, sem einu sinni er búið að gera, verður ekki aftur tekið. Væri það gert, myndu hlutaðeigandi menn áreiðanlega leita dómstólanna. Það er ekki hægt að taka gjöf aftur.

Það hefði verið rjettast fyrir hv. þm. að taka till. sína aftur eftir þau hógværu ummæli, sem jeg ljet falla um hana í fyrstu ræðu minni. En hann hefir misskilið hógværð og vinsemd mína svo hrapallega, að nú getur ekki legið í láginni, hvílík endemis fjarstæða það er, sem hann ber hjer fram.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.