01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

115. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Hv. þm. Str. undraðist, að jeg skyldi gera ráð fyrir, að krónan gæti komist í gullverð. Jeg hefi ekki fundið annað en að háttv. þm. búist við því sama. Hann sagði, að jeg hefði svo gert ráð fyrir, að krónan lækkaði aftur. Jeg benti á það sem möguleika, og nú hefir hv. þm. sagt, að Íhaldsflokkurinn muni verða í minni hluta eftir næstu kosningar og þá taki Framsóknarflokkurinn við stjórninni. Þá get jeg vel hugsað mjer, áð sveiflur kunni að koma á gengið. Viðvíkjandi því, hvort hægt væri að taka aftur gjafir þær, sem gefnar hefðu verið lántakendum, ef krónan lækkaði, þá vil jeg undirstrika það, að slíkt gæti ekki komið til mála. Ákvæði stjórnarskrárinnar standa þar í vegi. Enda væri það hin mesta heimska að ætla sjer að uppskrifa og niðurskrifa — hækka og lækka — skuldaupphæðir manna á gengissveiflutímum.