25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. þm. Barð. (HK) misskildi mig ofurlítið, og má vel vera, að jeg eigi sök á því sjálfur. Það var viðvíkjandi þeim viðurlögum, sem hreppsnefndaroddviti eða annar hreppsnefndarmaður skyldi sæta fyrir vanrækslu á skyldustörfum í þágu sveitarinnar. Jeg sagði, að slík ákvæði hefðu ekki orðið að sök, og nefndinni er ekki kunnugt um það; jeg vissi vel, að þetta hefir ekki staðið í sveitarstjórnarlögunum áður, en hliðstæð ákvæði hafa staðið í fátækralögunum, og það er, að ef hreppsnefndarmaður vanrækir eitthvað í starfi sínu, þá má beita dagsektum, og má sýslumaður þá ákveða sektir. Annars er þetta ekki neitt höfuðatriði og nefndin var þeirrar skoðunar, að það væri rjett að tryggja það, að slík störf yrðu af hendi leyst innan tiltekins tíma, og gat því vel sætt sig við þessi ákvæði, sem eru ný í þessari grein laga vorra þar, en gömul á öðrum stað, og jeg vil minna á, að þessum ákvæðum er einmitt haldið í því frv. til fátækralaga, sem nú liggur fyrir þinginu, og jeg minnist ekki þess, að hv. þm. (HK) hafi gert neinar athugasemdir við þau þar, eða viljað nema þau burt. En annars er samræmi í till. hv. þm. (HK); hann vill draga úr þeirri ábyrgð, sem hvílir á oddvitum, og jafnframt úr greiðslu til þessara manna, en hvorugt get jeg samþykt. Þarf jeg svo ekki að fjölyrða frekar um ræðu hv. þm. (HK).

Hv. 1. þm. Árn. (MT) vjek á ný að því, sem hann hefir áður sagt um að auka tekjur sveitarsjóða. Það er hægt á tvennan hátt, með því að auka tekjur þeirra og svo með því að draga úr útgjöldum þeirra. Hann drap á það, að hægt væri að draga úr gjöldum sveitarsjóðanna með því að látá þá aðeins borga helming kostnaðar við sóttvarnir, en þessi upphæð, sem til þeirra gengur, nemur ákaflega litlu, og þar sem jeg þekki til, svo litlu, að það skiftir engu máli um það. Þá drap hv. þm. (MT) á laun yfirsetukvenna, þann kostnað mætti færa yfir á ríkissjóð að öllu leyti, og það er vitaskuld hægt, og ofurlitlu munar það, en þó mjög litlu, og mjer finst, að þegar ekki er um að ræða þann gjaldaliðinn, sem mestu máli skiftir, en það er fátækraframfærið, og ef ætti að nema eitthvað burtu, sem verulegu næmi, þá væri það einmitt það. Svo mætti líka, eins og hv. þm. (MT) nefndi, sjá sveitarsjóði fyrir meiri tekjustofnum, t. d. með því, sem bent var á, að nokkuð af tekju- og eignarskattinum gengi til sveitarsjóðs, en að fara að gera tilraun með þetta tel jeg ekki gerlegt, og yfir höfuð, þegar á að gera breytingar, sem eru allþýðingarmiklar fyrir ríkissjóð og sveitarsjóði, þá er ekki vert að gera þær nema að vel yfirlögðu ráði og nákvæmri athugun, en þesskonar athugun geta tæpast þingmenn, sem hafa mikið að starfa, framkvæmt á einu þingi. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta.

Þá vildi jeg segja nokkur orð út af ræðu hæstv. atvrh. (MG); mjer þótti vænt um, að hann vjek að þessari brtt. nefndarinnar, og mjer þótti sömuleiðis vænt um, að hann leggur ekki sjerstaklega neitt á móti henni. Okkur kemur ekki saman um það, að 15. gr. þessa frv. tiltaki það, sem felst í brtt. okkar. En það er áreiðanlegt, að það er ekki, og hygg jeg því betur fara á því, að þessi brtt. verði samþykt. Það er þá ekki lengur neitt vafamál, að fjallskilareikninga á að leggja fram með sveitarsjóðsreikningnum og að þeir eiga að sæta sömu endurskoðun og sveitarreikningarnir, og það álít jeg í alla staði hyggilegt.